mánudagur, mars 15, 2004
Erfið helgi að baki. Ekki eins og venjulega þegar maður segir að erfið helgi sé að baki heldur er ég svo líkamlega búinn að það er engu lagi líkt.Föstudagskvöldið var nú frekar rólegt en lætin byrjuðu á laugardeginum. Þá fórum við Auður í 1. árs afmæli Sóleyjar Nóttar, sem er dóttir systur hennar Auðar. Þar var gaman en nokkur læti og þá sérstaklega í tveimur ungum drengjum sem virtu ekki endilega eignarrétt Sóleyjar á gjöfunum heldur ruku til að opna pakkana hennar meðan foreldrar þeirra horfu stoltir á þessa duglegu drengi sína. Óþolandi. Svo fór ég upp í Egilshöll þar sem Ótti var að spila æfingaleik. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar því að ég vissi að það yrði fámennt hjá mínum mönnum. Hins vegar datt mér ekki í hug að ég þyrfti að spila allan leikinn eins og raun varð á. Ég spilaði mest sem vinstri bakvörður og skilaði varnarskyldu minni svo vel að ég fór ekki fram yfir miðju fyrr en eftir rúmlega 79 mínútur (leiktíminn var 80 mín) þá átti ég góðan sprett upp kantinn var kominn inn í vítateig (var ekki með boltann), Þengill fékk boltann inn í teignum ég hrópaði á hann og í því renndi Þengill boltanum í markið, allur þessi sprettur hjá mér fyrir ekki neitt og það var ekki kátur maður sem gekk inn í búningsklefann eftir leik. Svo fór ég og náði í Auði til systur hennar og þar var mér boðið upp á bjór sem ég þáði. Enda átti ég hann skilinn þar sem við Auður gáfum langflottustu gjöfina. Sunnudagurinn byrjaði rólega en um kvöldið fór ég að dæma í Reykjaneshöllinni þar sem Keflavík og ÍA spiluðu kom þá í ljós að eitthvað sat leikurinn frá því deginum áður í mér enn þá. Þessi leikur endaði 5-2 og var mjög hraður enda hef ég aldrei svitnað jafn mikið á ævi minni. Í dag fór ég í körfubolta. Á morgun kemst ég í fréttirnar þar sem ég verð fyrsti maðurinn í heiminum sem deyr úr harðsperrum. Nú get ég ekki skrifað meira.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli