mánudagur, júní 20, 2005
Eins og margir vita hef ég dundað mér við það undanfarin ár að hlaupa með fána í hendinni á fótboltavellinum og uppskorið og svívirðingar áhorfenda og leikmanna í staðinn. Núna um daginn náði ég merkilegum áfanga því í síðust niðurröðun frá KSÍ fékk ég tvo leiki í efstu deildinni. Fimmtudaginn 30. júní verð ég á leik Keflavíkur og Grindavíkur í Keflavík og þriðjudaginn 26. júlí verð ég á leik Grindavíkur og ÍA í Grindavík. Þó að þetta séu svona opinberlega fyrstu leikirnir mínir í efstu deild hef ég þó verið viðriðinn einn leik áður. 2. ágúst 2001 var ég nýkominn heim úr vinnunni og hafði keypt mér hamborgara og franskar hjá Lilju í Staldrinu. Ég settist fyrir framan sjónvarpið um 19.30 til að horfa á leik KR og FH sem átti að hefjast þá kl. 20.00. Ég var varla búinn að kyngja síðasta bitanum þegar síminn minn hringdi. Það var starfsmaður KSÍ sem var í vondum málum því það hafði gleymst að boða varadómara á leikinn. Hann sagði mér að bruna í einum grænum á KR-völlinn og redda málunum. Þarna var ég nýbúinn að gúffa í mig hamborgaranum og var satt að segja ekki til stórræðanna en sagði að sjálfsögðu já strax. Þegar ég var að leggja af stað mundi ég að það var nánast ekkert dót í töskunni minni, því ég hafði hent því öllum dómaragallanum mínum í þvottavél kvöldið áður. Ég var þó með stuttbuxur, sokka og upphitunarpeisu sem ég klæddi mig í áður en ég lagði af stað. Ég var mættur á KR-völlinn eina mínútu í 8 og lenti í vandræðum með að finna stæði og svo í smávandræðum með hliðvörðinn sem ætlaði ekki að hleypa mér inn og trúði mér varla þegar ég sagði honum að ég væri einn af dómurum leiksins, enda var leikurinn þá byrjaður. Það bjargaðist þó og kl. 20.03 var ég kominn á milli bekkjanna og reiðubúinn til að hefja störf. Það var u.þ.b. þá sem ég uppgötvaði að ég hafði litla hugmynd um hvað varadómari ætti að gera annað en að vera á milli bekkjanna. Því var það að alltaf þegar aðstoðardómarinn hljóp að miðjunni fór ég til hans og fékk ráð frá honum. Það dugði fram að hálfleik en fékk ég fyrirmæli frá dómaranum sem ég reyndi að fara eftir í seinni hálfleik. Allt gekk það svo sem að óskum og ég komst nokkuð stórslysalaust frá mínum fyrsta efstudeildarleik. En nú er semsagt alvaran fram undan. Allir í Grindavík 30. júní...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli