miðvikudagur, desember 14, 2005

Þar sem að ég hef í sjálfu sér ekkert til að skrifa um ætla ég að fara yfir þá sem ég hef sett hér í blogglistann til hægri. Þetta eru í sjálfu sér tilganslaus skrif þar sem flestir þeir sem lesa þetta, og þeir eru nú ekki margir núna, þekkja hver annan. En þar sem ég hef ekkert að gera ætla ég nú samt að gera þetta og hananú.
Arnór: Vinnufélagi til margra ára, hjá Orkuveitunni og 365. Saman fórum við gegnum íslenskuna á okkar hraða sem hentaði ágætlega. Kynntumst fyrst í Þórsmerkurferð einhvern tímann þegar einhver benti okkur á að við hefðum báðir áhuga á NBA. Fórum saman til London eina helgi og sáum Patrick Vieira hrækja á Neil Ruddock. Það var gaman.
Atli:Fyrrverandi íslenskunemi. Hann setti athugasemdakerfið inn á síðuna hjá mér og læddi sér inn um leið sem er hið besta mál. Stórskemmtilegur bloggari sem gæðablaðið DV vitnar oft í.
Mummi: Fyrrverandi samstarfsfélagi á Nesjavöllum og all around good guy. Körfuboltafíkill sem heldur með Boston og Minnesota. Gaman að spila körfubolta við hann því við erum á sama leveli. Sagnfræðingur og stórsvöngvari.
Gunni og Solla Vinir sem búa í Bandaríkjunum. Í því landi hefur greinilega ekkert gerst frá 27. júní. Þau eiga dótturina Arndísi Dúnu sem ég kynntist aðeins í sumarbústaðaferð í vetur. Hún tók mér ekki vel í fyrstu en síðan vann ég greinilega á og við skemmtum okkur ágætlega Gunni er að læra stærðfræði en Solla verkfræði.
Líney: Uppáhaldsfrænka mín: Hún býr líka í Bandaríkjunum en þar virðist meira vera að gerast en í Bandaríkjunum sem Gunni og Solla búa í. Hún skrifar undir nafninu Big Bird eða BB. Hún er að læra efnafræði og verður bráðum virðulegur doktor í því.
Lilja: Lilju Rós hef ég þekkt frá því ég var 16 ára held ég. Hún og Líney æfðu borðtennis saman og við kynntumst í gegnum hana. Hún er reyndar líka frænka mín en þar sem hún er fjarskyldari mér en Líney þá getur hún ekki verið uppáhalds. Maðurinn hennar heitir Gísli og var með Gunna í bekk og ég þekkti hann áður en þau Lilja fóru að vera saman. Þau eiga Írisi Önnu sem er í nöp við mig eftir að ég barði hana óvart í hausinn einu sinni. Svo er annað barn á leiðinni. Uppáhaldsmyndir okkar Lilju eru Back to the Future 1 og 2 en ekki 3 því við myndum aldrei horfa á hana. Á þessu bloggi skrifa hún og vinkonur hennar saman. Þar sem að ég kannast við þær flestar er þetta ágætis skemmtun.
Óli Gneisti: Var sumarafleysingamaður á spólusafninu á 365 í sumar. Queen-aðdándi dauðans. Er líka í þjóðfræði og bráðskemmtilegur bloggari. Syngur líka My Fair Lady fallega.
Málbeinið:Gísli Ásgeirsson, þýðandi á Stöð tvö og Framsóknarvinur nr. 1. Bráðskemmtilegur bloggari og þýðandi. Hann á til dæmis þessar gullsetningar í þýðingu 1) Í mynd um hestaveðreiðar "...en þýsku hestarnir urðu aftarlega á merinni." 2. Í þætti um kraftakeppni kvenna "Kanadísku stúlkurnar taka sér stöðu fyrir dráttinn." Þá kom hann með hugmyndina að orðinu "náriðill" í stað orðins "dauðariðill" í HM. Það var ekki samþykkt.
finnurtg: Eini maðurinn á listanum sem ég hef hvorki séð né talað við. Ég var eitt sinn að skoða Utah Jazz síðuna Jazzhoops.net og sá að þar var Íslendingur sem skrifaði oft. Svo sá ég að hann hélt mikið upp á Nick Cave eins og ég. Mjög virkur og skemmtilegur bloggari.
Þorri frændi: Kallar sig Mikka ref. Uppáhaldsfrændi minn og bróðir Líneyjar. Dómari eins og ég, bara ekki jafngóður. Einu sinni var hann litli óþolandi frændi en hefur vaxið úr grasi síðan. Einn besti vinur minn og maður sem gott er að tala við.


Þá er það komið. Ef það er einhver sem vill láta bæta sér inn á listann þá er bara að senda mér póst á oddbergur.eiriksson hjá 365.is eða setja inn athugasemd. Ég veit að það eru einhverjir sem lesa þetta sem rífa hár sitt og skegg af þvi að það er ekki hlekkur á þá. Eins er fólk er ósátt við það sem ég skrifaði hérna þá má það senda póst eða skrifa athugasemd. Ef að fólk les þetta má það líka setja athugasemd.

Engin ummæli: