Ég rak augun í það áðan að Davíð Örn Sigþórsson hefur skrifað athugasemd hjá mér um daginn varðandi frægð mína sem fyrirsæta og segir þar: "Oddbergur minn, ég er nú farinn að trúa nánast öllu upp á fyrrverandi bekkjarfélaga mína úr Hólabrekkuskóla. Sessunautur þinn, fyrrverandi, ætlar að sigra Idol á föstudaginn og hversvegna ættir þú ekki að geta orðið ofurfyrirsæta? Ég bara spyr?" Þar vísar hann til þess að sessunautur minn til 2-3 ára í Hólabrekkuskóla var enginn annar en núverandi Idol-stjarna Íslands, Snorri Snorrason. Af mér lærði hann margt um tónlist og söng þó að hann hafi enn ekki þakkað mér fyrir á opinberum vettvangi. Til að hefna mín á honum birti ég hér með upplýsingar um hann sem aldrei áður hafa birst opinberlega og munu eflaust skekja heimsbyggðina:
Engan hef ég séð sem var jafnlélegur í fótbolta og hann.
Hann átti auðvelt með að ljúga að mér og ég trúði öllu sem hann sagði mér.
Ég sá hann einu sinni skipta skapi og þá rauk hann á mann sem var 10 sm stærri og 25 kg þyngri en hann. Ástæðan var sú að hinn hafði ýtt Snorra harkalega utan í vegg þar sem hann rak höfuðið í járnsnaga. Ef mig misminnir ekki fékk Snorri heilahristing sem gæti útskýrt þessi ofsalegu viðbrögð. Þar með hverfur sú goðsögn að hann sé alltaf jafnrólegur.
Uppáhaldslagið hans á þessum tíma var Take My Breath Away með hljómsveitinni Berlin úr myndinni Top Gun. Ég varð sárhneykslaður yfir því að hann skyldi ekki taka það í Idolinu.
Einu sinni spilaði hann fyrir mig House of the Rising Sun á hljómborð. Þá hafði ég aldrei heyrt lagið áður. Ég hef því verið á einkatónleikum með honum.
Meira man ég nú ekki í augnablikinu en ef eitthvað rifjast upp fyrir mér verð ég fljótur að setja það hér inn til að klekkja á honum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli