fimmtudagur, júlí 11, 2002

Fróðir menn segja mér að nú séu orðnar tvær vikur síðan ég bloggaði eitthvað síðast. Merkilegt hvað fólk fylgist vel með mér og leggur sig fram við að minna mig á þetta. Ég er í alvörunni farinn að trúa því að einhver lesi þetta og hafi jafnvel gaman af. Sérstaklega er Mummi vanur að minnast á þetta og notar þá gjarnan orðið „aumingjabloggari.“ Heldur leiddist mér þetta til að byrja með, þangað til að hann fullvissaði mig um að þetta væri notað í besta skilningi þess orðs. Og að sjálfsögðu trúi ég því, vegna þess að Mummi er góður gæi sem ætlar að gefa mér bjór í vinnupartýinu í kvöld! Mér skildist á frásögn Arnórs að Þverbrekkingnum hefði orðið fótaskortur á dansgólfinu og snúið á sér ökklann. Hann á alla mína samúð. Ég þekki það af eigin raun hvernig er að færa listagyðjunni ökkla að fórn og þekki því sársauka Þverbrekkingsins. Ég legg hér með til að stofnuð verði samtök þeirra sem hafa farið í að minnsta kosti eina hnéaðgerð og hafa einnig snúið sig á einhvern hátt á dansgólfi. Legg ég til að stofnfundurinn verði haldin norðan heiða (ekki norðan Heiðars hahaha) eftir rúmlega viku. Legg ég svo til að stofnfélagar (undirritaður og Þverbrekkingurinn) sýni nokkur vel valin dansspor!