miðvikudagur, apríl 06, 2005

Fórum í sumarbústað um helgina. Ég var eitthvað að spjalla við mömmu og ég minntist eitthvað á að það væri gaman að fá sumarbústað einhverja helgina. Fimm mínútum seinna hringdi mamma aftur og sagði að nánast allir bústaðir Búnaðarbankans væru lausir þessa helgina vegna árshátíðar starfsmanna. Við tryggðum okkur bústað í Húsafelli og brunuðum af stað um miðjan föstudaginn. Við tókum systkini Auðar með okkur þannig að við vorum fimm sem fórum og síðar um kvöldið komu svo Þóra, frænka Auðar og Árni kærastinn hennar. Við byrjuðum á því að steikja hamborgara ofan í allt liðið og reyndum svo að tengja afruglarann sem við tókum með okkur. Það olli nokkrum vandræðum að fjarstýringarnar í bústaðnum voru fleiri en tækin þannig að það tók nokkurn tíma að átta sig á hvaða fjarstýring átti við hvaða tæki. Loks tókst það en þá kom í ljós að stafrænu útsendingarnar nást ekki við hálendi Íslands. En af því að ég vinn hjá svo góðu fyrirtæki þá hringdi ég þangað og fékk lánaðan afruglara af gömlu tegundinni sem Þóra og Árni komu með. Tók þá ekki betra við því allar fjarstýringar hússins lögðu þá niður vinnu og varð ekki haggað. Var þá ekki hægt að stilla afruglarann inn á sjónvarpið. Er hann nú úr sögunni. Lítið var gert um kvöldið, spjallað spilað lúdó farið í pottinn. Hið síðastnefnda varð nánast banabiti eins í hópnum en Árni vaknaði daginn eftir með himinháan hita, höfuðverk, hor og heilmikið annað. Þó fór nú allt á besta veg og heilu pilluglasi seinna var hann kominn á fætur aftur. En það bar helst til tíðinda á meðan að Vetur konungur kíkti í heimsókn og gerði sig heimankominn hjá okkur. Varð því lítið úr sólböðum en því meira af snjókasti og snjókallagerð. Þegar hér var komið við sögu voru menn orðnir svangir. Var þá tekið til þess ráðs að grilla. Ekki dugði minna en meðalbú á grillið fyrir þennan hóp og tók það sinn tíma. Þá voru grilluð um tvö kíló af kartöflum þar sem sumir höfðu áhyggjur af því að þeir fengju ekki nóg. Undirritaður var grillmæster og beitti Hómerískum töktum með grillolíuna. Ekki veitti af hitanum þar sem úti var stórhríð og grillið ekki í miklu skjóli. Mátti undirritaður því nopra úti í kuldanum meðan aðrir sátu inni í hlýjunni. Allt fór þó vel fram. Fór svo í lokin að ekki var nægur hiti á grillinu til þess að grilla bananana sem áttu að vera í eftirrét (enda hafði þá snjóað töluvert ofan í grillið) Tók grillmeisterinn þá til þess ráðs að klára úr ólíubrúsanum á grillið og flambera bananahelvítin. Var gerður góður rómur að því. Leið svo kvöldið líkt og hið fyrra og fer ekki fleiri sögum af því. Á sunnudaginn var borðað, þrifið og svo brunað í bæinn þar sem í Egilshöllinni beið knattspyrnuleikur sem ekki gat farið fram án undirritaðs. Lauk þar með ferðinni.