föstudagur, nóvember 10, 2006

Við Auður brugðum okkur til London um daginn með misfríðum hópi dómara. Lagt var af stað á föstudegi og gistum við á hinu margrómaða Holiday Inn hóteli. Að sjálfsögðu var byrjað á því að labba niður á Oxford-street og krítarkortið mundað. Margt keypt og enn fleira skoðað og því varla sú búð við götuna sem ekki var skoðuð. Um kvöldið brugðum við okkur með Þorra frænda og hjónum sem við þekktum lítið út að borða. Var félagsskapurinn mjög góður en hið sama var ekki hægt að segja um matinn sem var ekki góður. Mig minnir að staðurinn hafi heitið "Scottish Steak House" og fær hann hér með hálfa stjörnu af fimm. Eftir matinn brugðum við okkur svo upp á hótel og vorum sofnuð litlu síðar. Við vöknuðum svo snemma um morguninn og brugðum okkur um borð í tveggja hæða strætisvagn sem ók okkur á milli helstu túristastaða London. Við stoppuðum við Buckingham til að koma í vöfflur og kakó en Beta var eitthvað illa fyrir kölluð þannig að við eigum það bara inni. Svo var aftur haldið í verslunarleiðangur og komið heim þar sem beið okkar hátíðarkvöldverður í boði Félags deildardómara. Á leiðinni stöðvaði okkur risastór, svartur maður með marga gullhringa og á litlum bíl og spurði til vegar að hótelinu. Við reyndum að vísa honum veginn en ekki leist honum á að fylgja þeim leiðbeiningum og bauð okkur í staðinn að þiggja far með sér svo við gætum sagt honum til leiðar. Að sjálfsögðu þáði ég það fyrir okkar hönd enda má það ekki fréttast að Íslendingar séu ekki hjálpsamir. Við stigum upp í bílinn og sögðum manninum til vegar. Ekki leist okkur á blikuna þegar allt í einu læstust allar hurðirnar og við ekki lengur á aðalgötunni. En allt fór það samt vel að lokum og við fundum hótelið. En kannski að maður ætti ekki að haga sér alveg eins og heima hjá sér þegar maður er í London. Þegar á hótelið kom bjuggum við okkur undir hátíðarkvöldverðinn. Þar var margt til gamans gert; borðað, sungið, töfrabrögð sýnd og rauðvíni skvett (litli frændi minn hagaði sér eins og svín). Eftir það brugðu margir sér í bæinn en við skötuhjúin ákváðum að safna frekar kröftum fyrir morgundaginn enda ekki búið að verla nóg. Við pöntuðum okkur morgunmat upp á herbergi, sem var snilld, og héldum svo enn einu sinni af stað í verslunar-/skoðunarleiðangur sem var þó ekki langur þar sem ferðinni var svo heitið á Upton Park þar sem West Ham mætti Blackburn. Flestir skemmtu sér ágætlega en sumir ákváðu að hvíla sig á meðan á leiknum stóð og álitu svo að hápunktur vallarferðarinnar hafi verið þegar löggurnar á hestunum stjórnuðu umferðinni. Síðan var haldið heim á hótel en fljótlega haldið aftur út og var ferðinni heitið á líbanskan stað með Þorra frænda þar sem við fengum dýrindismat á dýrindisverði á dýrindisstað 4 oghálf stjarna. Síðan gengum við í smástund til að melta matinn aðeins betur áður en haldið var upp á hótel.Morguninn eftir var lagt snemma af stað heim og er í sjálfu sér ekki meira um þessa ferð að segja. Nema það að það er ekki skynsamlegt að margfalda pundið með 100 til að fá verðið í íslenskum krónum þegar pundið er nær 130 krónum. Þá fær maður áfall þegar maður kemur heim.