föstudagur, mars 12, 2004

Frekar dapur dómarafótbolti í gær. Við mættum bara fjórir og ákváðum þá að fara bara í einspark í staðinn fyrir að spila tveir á tvo. Ég var góður, aðrir ekki. Mér tókst nú ekki að setja boltann nema einu sinni yfir girðinguna og höfðu menn orð á því að þetta væri nú ekki nokkur frammistaða. En ég lofa að gera betur næst.
Ég nenni ekki neinu! Ég sit fyrir framan tölvuna og nenni satt að segja ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Verkefni næstu daga er að endurskrifa sögurnar sem ég ætla að nota í lokaverkefninu mínu og finna gömul og flott orð úr sögunum til að setja inn í til þess að auka orðaforða þessara krakkagemlinga. Vandamálið er að þau orð sem ég hef fundið í sögunum eru bara ekkert skemmtileg. "Krapparúm", "höfðafjöl" og "reyrbönd" eru allt saman merkileg orð og allra góðra gjalda verð, en þau eru ekki líkleg til þess að fá 10-12 ára gömul börn til þess að hoppa af kæti yfir því hvað þau séu skemmtileg. Því þarf ég líklega að skálda einhver skemmtileg orð til þess að kennarinn minn verði sáttur við verkefnið. Æ, þvílík armæða...

fimmtudagur, mars 11, 2004

Jibbíjei! Ég var að skila af mér u.þ.b. 200 verkefnum sem ég hef lesið yfir undanfarnar tvær vikur. Ekkert, ég endurtek, ekkert getur verið leiðinlegra en að lesa 200 keimlík verkefni sem fjalla öll um það sama. „Eiga fyrirtæki að hugsa um það eitt að hámarka hagnað sinn eða eiga þau að bera einhverja félagslega ábyrgð." Ég get svarið að ef ég heyri nafnið Milton Friedman eða Thomas Mulligan aftur á næstunni þá mun ég æla. En í kvöld ætla ég í fótbolta með öðrum dómurum og mun þar fá útrás fyrir bræði mína. Ég stefni að því að setja að minnsta kosti fimm bolta yfir girðinguna í dag. Heyrumst