mánudagur, apríl 18, 2005

Þar sem að mér sýnist að ég sé bara að skrifa fyrir Hr. Tómasson þessa dagana þá er best að þessi færsla verði bara fyrir/um hann. Eitt sinn brugðu íslenskunemar sér í sumarbústað og eins og lög gera ráð fyrir fóru allir í pottinn. Síðan kom að því að fólk fór að fara upp úr pottinum en ekki gættu allir að því að pallurinn var flugháll enda miður vetur. Steig ein snótin upp úr pottinum og vildi ekki betur til en að hún flaug á hausinn við mikila skelfingu flestra, en þó ekki allra. Vildi einn karlmaðurinn hughreysta vesalings stúlkuna þar sem hún lá kveinandi á jörðinni og gerði það með þessum orðum: ?Hafðu engar áhyggjur, þú ert enn þá sexí.? Við þessi orð brutust út einhver þau mestu hlátrasköll sem undirritaður hefur heyrt og fór Hr. Tómasson þar fremstur í flokki og lá við stórslysi þegar undirrituðum svelgdist allsvakalega á bjór þegar hlátursrokur Tómassonar urðu hvað hæstar. Ekki mátti nokkur maður vera að því að sinna vesalings stúlkunni sem lá á pallinum en sem betur fer var hún ekki mikið slösuð þó stoltið væri nokkuð sært. Þetta var saga vikunnar, bara fyrir Hrt. Tómasson. Öðrum sem ekki voru á staðnum finnst þessi saga sennilega ekkert sérstaklega fyndin en þetta er líklega það fyndnasta sem ég hef nokkurn tíma orðið vitni að.