mánudagur, júlí 03, 2006

Undanfarna viku hef ég verið í sumarfríi og tekið lífinu rólega að mestu leyti. Þurfti að vísu að mæta í Getraunir á fimmtudaginn og dæma á miðvikudaginn en gerði að öðru leyti lítið. Horfði á NBA-draftið í beinni aðfaranótt fimmtudags og var nokkuð sáttur.
Á föstudeginum lögðum við hins vegar land undir fót og héldum vestur í Flatey þar sem fjölskylda Auðar á sumarhús. Við tókum Baldur frá Stykkishólmi á föstudeginum ogvorum komin um 17.30 út í Flatey. Eftir að hafa komið okkur fyrir og ég var búinn að grilla (flambera) þessa líka dýrindis hamborgara fórum við og skoðuðum kirkjuna og fleiri staði og þegar við gengum fram hjá hótelinu sáum við að Viktor Arnar Ingólfsson var með fyrirlestur um bókina sína ?Flateyjargátu? eftir 5 mínútur. Ég ákvað að hlusta á hann en Auður og systkini hennar fóru heim aftur. Þetta var skemmtilegur fyrirlestur og eftir hann keypti ég bókina og fékk hana áritaða. Ég kynnti mig fyrir honum og hann mundi eftir mér úr bókmenntaspurningakeppninni sem hann stóð fyrir í kringum jólin. Þar vann ég 5-6 eintök af bókinni "Engin spor" og sendi vinum og vandamönnum.
Daginn eftir fjölgaði í bústaðnum þegar Vigdís, Atli og Sóley komu með Bjögga vini hans Atla. Ástæðan fyrir því að þau komu svo seint verður rakin síðar. Á laugardeginum fórum við í siglingu um Breiðafjörðinn og komum meðal annars við í Hergilsey þar sem mér varð að orði er ég kom að Vaðsteinabergi ?Skjótt er til ráða að taka þó að ég sé enginn viturleiksmaður; Róum sem ákafast að eynni og göngum síðan upp á Vaðsteinaberg og verjumst meðan vér megum upp standa." Heldur fannst nú lundanum og kindinni sem á heyrðu lítið til þessara hetjuorða Ingjalds koma og hefur sennilega fundist ég líkari Ingjaldsfíflinu en hetjunni Ingjaldi. Að minnsta kosti gerði lundinn heiðarlega tilraun til að skíta á mig en missti þó marks. Aðrir
urðu þó ekki jafn heppnir síðar í ferðinni enda krían sérlega hittinn fugl.
Eftir að við komum aftur í Flatey fengum við okkur að borða en heldur dvaldi maturinn stutta stund í maganum og gerði uppreisn. Lá ég því óvígur það sem eftir lifði kvölds á meðan aðrir brugðu sér af bæ og könnuðu næturlífið í Flatey. Á sunnudeginum var svo risið út rekkju, pakkað niður og haldið heim á leið. Þegar þangað var komið var sofið.
Þetta verð ég að enda á því að tilnefna sauði ferðarinnar. Þau verðlaun hlýtur fólkið sem mætti á höfnina í Stykkishólmi kl. 16.15 eða 15 mínútum eftir brottför Baldurs og þurfti að horfa á eftir honum sigla úr höfn. Þetta fólk, sem ég nefni ekki á nafn, kom síðan út í Flatey á laugardagsmorguninn eftir að hafa eytt seinnihluta föstudagsins á Stykkishólmi og fór aftur með fyrri ferð á sunnudegi. Þegar í land var komið kom í ljós að bíllyklarnir höfðu orðið eftir í Flatey og þurftu þau því að bíða eftir að seinni ferð Baldurs sem var væntanleg eftir u.þ.bþ 6 tíma. En það hlýtur að hafa verið í lagi því Stykkishólmur er jú sannkölluð náttúruperla sem krefst þess að maður eyði í það minnsta tveimur dögum þar...
Ég fór um daginn til Seyðisfjarðar að dæma. Ég hafði ekki komið þangað áður og hef svo sem ekki mikið um staðinn að segja. Við lentum á Egilsstöðum, keyrðum á Seyðisfjörð, dæmdum leikinn, keyrðum til baka og beint út á flugvöll. Ég væri samt alveg til í að renna austur einhvern tímann og dvelja þar í smá stund.
Jæja, hvað hefur nú drifið á daga mína síðan síðast... Til dæmis fór ég austur að Miðengi um daginn á nokkurs konar ættarmót og var það hið ágætasta. Sá litla frænda minn, sem gengur undir nafninu Kjúlli litli að beiðni stóru systur, í fyrsta sinn og leist okkur frændunum bara ljómandi vel hvor á annan. Hann er ansi mikill hlunkur og um tonn á þyngd. Og dísætur eins og stóri frændi.