fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Þetta og þetta kemur í hús bráðum. Þá verður aldilis gaman hjá okkur. Vorum að spá í þessu en ég óttaðist að skyrtan færi Auði ekki nógu vel. Skoðum það betur seinna.
Við fórum í sumarbústað um daginn og hittum þar Kjarra, Laufeyju, Lárus Ármann, Borghildi, Aadne, Íshildi Ulvu, Sollu og Arndísi Dúnu. Var það hin besta ferð og gaman að sjá þá sem maður hefur ekki séð lengi. En mikið hafa þessar ferðir nú breyst með árunum. Að taka með sér litla kippu og klára hana ekki hefði einu sinni þótt mikil skömm. En ekki lengur.
Hér kemur hetjusaga af sjálfum mér. Ég var í vinnunni um daginn (1X2) og var um leið að lesa þátt fyrir hina vinnuna mína. Sá þáttur heitir Most Haunted og fjallar um þá staði í Bretlandi þar sem mestu reimleika er að finna. Ég sat inni í stóru rými, aleinn í húsinu og ég verð að játa að mér stóð ekki á sama þegar ég fór að heyra alls kyns hljóð frammi á gangi og af neðri hæðinni. Nú get ég ekki hælt mér af því að vera manna hugrakkastur þegar kemur að því að ganga einn í myrkri þannig að ég sat sem fastast og hreyfði hvorki legg né lið til að athuga hvort eitthvað væri á seyði. Enda var þetta eintóm ímyndun í mér en sýnir bara að það er ekki nóg að banna kvikmyndir og tölvuleiki heldur þyrfti einnig að banna sumt það efni sem ég þarf að lesa í vinnunni innan 30 ára. Eða fullvissa mig um að draugar séu ekki til.
Við fengum næturgest um daginn og var það hin besta skemmtun. Við máluðum, föndruðum og lékum okkur saman. Svo mátti bara ég leika við hana. Eitthvað ruglaðist hún í ríminu þegar ég vaknaði og hélt þvi fram fullum hnefum að ég væri án klæða, sem var alls ekki rétt þar sem ég var í fallegum, grænum náttbuxum. Ég föndraði fallegan jólakött sem hefur vakið mikla lukku meðal gesta og er stórkostleg prýði að honum þar sem hann situr ofan á sjónvarpinu.
Hvað skildi nú hafa drifið á daga mína síðustu daga? Eftir að hafa hvílt mig mikið eftir NBA-spána hóf ég aftur störf og allt gekk sinn vanagang. Undanfarna daga hef ég mikið reynt mig við hinar ýmsu bókmenntagetraunir, til dæmis hér og hér með misgóðum árangri. Í annarri hefur allt gengið framar vonum en hinni ekki. Í þeirri þar sem maður þarf að vita hlutina get ég ekkert en þar sem er hægt að gúggla þá gengur mjög vel og ég get bráðum opnað bókasafn það sem ein bók verður lánuð út. Í framhaldi af því vil ég mæla eindregið með bókum Viktors Arnars og ég hlakka til að lesa þá nýjustu. Þýðingar Gísla les ég hins vegar á hverjum degi mér til mikillar ánægju.