fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Þá eru bara 364 dagar í næsta afmælisdag. Ég fékk fínar gjafir, náttbuxur og LOTR frá Auði og péninga frá pabba og mömmu. Þegar ég kom svo heim úr vinnunni í gær þá beið mín þar þessi fína kaka sem Auður hafði bakað fyrir mig. Ég hafði að vísu ekki mikinn tíma til að borða hana þar sem ég þurfti að fara í næstu vinnu en engu að síður var þetta mjög skemmtilegt. Svo langar mig til að þakka öllum þeim sem glöddu mig með hugljúfum afmæliskveðjum. Takk takkk

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Ég er að verða sérfræðingur í dren- og skólplögnum þar sem verið er að skipta um þetta drasl í kringum húsið okkar. Á mjög óformlegum húsfundi var ákveðið að íbúarnir myndu gera þetta sjálfir að eins miklu leyti og hægt væri. Þess vegna hef ég staðið úti í skurði síðustu daga með skóflu í hendi og mokað sandi eins og óður maður. Reyndar er það haugalýgi að ég sé að verða sérfræðingur í þessu þar sem ég botna bókstaflega ekkert í því sem þessir menn eru að gera. En sem betur fer eru nágrannarnir helvíti lúnknir við þetta og því kemst ég upp með að vita ekkert í minn haus. En þetta er samt lúmskt gaman og ágætt að kynnast nágrönnunum betur. Við erum farin að kynnast fólkinu á neðri hæðinni ágætlega þar sem við þurfum alltaf að fara inn um kjallarann og í gegnum íbúðina hjá þeim til þess að komast inn til okkar. Þetta stafar af því að búið er að grafa ca 1,5 djúpan skurð með allri framhlið hússins og við það hrundu einhverjar tröppur þannig að núna er nánast vonlaust að komast upp tröppurnar. Það hefur verið rætt um að að allar hurðir á milli íbúðanna verði teknar niður og þetta verði allt eitt stórt sambýli. Sú hugmynd er enn í nefnd.

Ég á afmæli á morgun. Þá verð ég 28 ára. Blóm og kransar afþakkaðir en pakkar vel þegnir.