föstudagur, desember 23, 2005

Ég óska lesendum þessarar síðu gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

miðvikudagur, desember 21, 2005

Þetta er svolítið sniðugt. Hér er hægt að sjá þá tónlist sem ég hef hlustað á undanfarið. Þetta er þó þeim annmörkum háð að ég hef ekki mikið af tónlist hérna í vinnunni, en þar hlusta ég yfirleitt þar sem við eigum ekki græjur heima.

þriðjudagur, desember 20, 2005

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þær rífandi móttökur sem endurkoma mín hefur fengið. Allt að verða vitlaust og vinsældir mínar aldrei meiri. Auður var rétt í þessu að klára síðasta prófið og fær innilegar hamingjuóskir með það. Hún hefur staðið sig vel en ég er feginn að þetta er búið því þá þarf ég ekki lengur að sinna öllu sem þarfa að gera heima. Í grófum dráttum höfum við skipt húsverkunum þannig á milli okkar að ég sé um eldamennsku en hún um þrif, en ég hef reyndar aðstoðað nokkuð við þrifin. Undanfarin mánuð hefur þetta hins vegar lent allt á mér vegna prófanna og er svo sem ekkert við því að segja. En þessi prófalestur gerir fólk skrýtið. Til dæmis lá ég uppi í sófa kl. 23 í gærkvöldi og var að lesa í bók á meðan Auður var að lesa. Allt í einu heyri ég: Á ekki að baka neitt fyrir mig?" Ég svaraði að það væru nú enn nokkrir dagar í jólin. "Á ég þá ekki að fá neinar smákökur núna á meðan ég er að lesa?" Ég gat ekki svarað þessu og þess vegna stóð ég við eldavélina kl 12 á miðnætti að taka plötur út úr ofninum og setja inn aftur. En það virðist hafa virkað því Auður fékk kökurnar sínar og gekk svo vel í prófinu í dag.

mánudagur, desember 19, 2005

Góð setning sem heyrðist heima hjá mér um daginn. Hjá okkur var þriggja ára stelpa sem er að uppgötva jólin og hefur heyrt að þau séu alveg að koma. Hún sat og horfði á sjónvarpið þegar dyrabjöllunni var hringt. Ég spurði hana "Hver er að koma." Hún svaraði að bragði "Jólin," og hljóp svo fram til að hleypa jólunum inn. Varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hún komst að því að það væri bara verið að sækja hana.
Þegar maður ætlar að vera virkur í blogginu finnst manni að maður þurfi alltaf að vera að blogga. Þá verða til færslur eins og þessi fyrir neðan, ekki um neitt og engum til góðs eða gamans. Eins gott að ég er búinn að átta mig á þessu og geri þetta ekki aftur.