fimmtudagur, desember 14, 2006

þriðjudagur, október 03, 2006:

Ég fékk um daginn skemmtilegar fréttir sem enn á eftir að staðfesta. Ef þær standast má búast við ferðalögum á næstu árum.


Þetta skrifaði ég um daginn. Nú hefur þetta verið staðfest

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Hvaða markaðsfræðingi datt í hug að það væri góð hugmynd að láta Geir Ólafsson mæla með vöru?

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Þetta er skemmtilegt að horfa á.

Líka skemmtilegt að taka þátt í þessu (smellið á litla reitinn fyrir neðan stóra kassann).

föstudagur, nóvember 10, 2006

Við Auður brugðum okkur til London um daginn með misfríðum hópi dómara. Lagt var af stað á föstudegi og gistum við á hinu margrómaða Holiday Inn hóteli. Að sjálfsögðu var byrjað á því að labba niður á Oxford-street og krítarkortið mundað. Margt keypt og enn fleira skoðað og því varla sú búð við götuna sem ekki var skoðuð. Um kvöldið brugðum við okkur með Þorra frænda og hjónum sem við þekktum lítið út að borða. Var félagsskapurinn mjög góður en hið sama var ekki hægt að segja um matinn sem var ekki góður. Mig minnir að staðurinn hafi heitið "Scottish Steak House" og fær hann hér með hálfa stjörnu af fimm. Eftir matinn brugðum við okkur svo upp á hótel og vorum sofnuð litlu síðar. Við vöknuðum svo snemma um morguninn og brugðum okkur um borð í tveggja hæða strætisvagn sem ók okkur á milli helstu túristastaða London. Við stoppuðum við Buckingham til að koma í vöfflur og kakó en Beta var eitthvað illa fyrir kölluð þannig að við eigum það bara inni. Svo var aftur haldið í verslunarleiðangur og komið heim þar sem beið okkar hátíðarkvöldverður í boði Félags deildardómara. Á leiðinni stöðvaði okkur risastór, svartur maður með marga gullhringa og á litlum bíl og spurði til vegar að hótelinu. Við reyndum að vísa honum veginn en ekki leist honum á að fylgja þeim leiðbeiningum og bauð okkur í staðinn að þiggja far með sér svo við gætum sagt honum til leiðar. Að sjálfsögðu þáði ég það fyrir okkar hönd enda má það ekki fréttast að Íslendingar séu ekki hjálpsamir. Við stigum upp í bílinn og sögðum manninum til vegar. Ekki leist okkur á blikuna þegar allt í einu læstust allar hurðirnar og við ekki lengur á aðalgötunni. En allt fór það samt vel að lokum og við fundum hótelið. En kannski að maður ætti ekki að haga sér alveg eins og heima hjá sér þegar maður er í London. Þegar á hótelið kom bjuggum við okkur undir hátíðarkvöldverðinn. Þar var margt til gamans gert; borðað, sungið, töfrabrögð sýnd og rauðvíni skvett (litli frændi minn hagaði sér eins og svín). Eftir það brugðu margir sér í bæinn en við skötuhjúin ákváðum að safna frekar kröftum fyrir morgundaginn enda ekki búið að verla nóg. Við pöntuðum okkur morgunmat upp á herbergi, sem var snilld, og héldum svo enn einu sinni af stað í verslunar-/skoðunarleiðangur sem var þó ekki langur þar sem ferðinni var svo heitið á Upton Park þar sem West Ham mætti Blackburn. Flestir skemmtu sér ágætlega en sumir ákváðu að hvíla sig á meðan á leiknum stóð og álitu svo að hápunktur vallarferðarinnar hafi verið þegar löggurnar á hestunum stjórnuðu umferðinni. Síðan var haldið heim á hótel en fljótlega haldið aftur út og var ferðinni heitið á líbanskan stað með Þorra frænda þar sem við fengum dýrindismat á dýrindisverði á dýrindisstað 4 oghálf stjarna. Síðan gengum við í smástund til að melta matinn aðeins betur áður en haldið var upp á hótel.Morguninn eftir var lagt snemma af stað heim og er í sjálfu sér ekki meira um þessa ferð að segja. Nema það að það er ekki skynsamlegt að margfalda pundið með 100 til að fá verðið í íslenskum krónum þegar pundið er nær 130 krónum. Þá fær maður áfall þegar maður kemur heim.

miðvikudagur, október 04, 2006

Lagaði aðeins hlekkina hér við hliðina, til dæmis hjá Garðari Erni og Óla Gneista.
Ef einhverjum finnst að hann eigi að vera á þessum lista (eða ekki vera á þessum lista) þá endilega hafið samband og ég redda því ef mér er vel við ykkur :)

þriðjudagur, október 03, 2006

Ég fékk um daginn skemmtilegar fréttir sem enn á eftir að staðfesta. Ef þær standast má búast við ferðalögum á næstu árum.
Litli frændi minn var skírður um daginn. Hann fékk nafið Eiríkur. Það kom ekki neinum á óvart. Að sjálfsögðu óska ég honum til hamingju með nafnið og með að eiga svona góðan stóra frænda.
Ferðalög mín héldu áfram eftir Vestfjarða- og Egilsstaðaferðina mína. Laugardaginn 16. sept. hélt ég til Ólafsvíkur ásamt Gylfa stóra bróður og Þorra litla frænda til að dæma leik Víkings og Hauka. Við mættum Óla Kjartans í Borgarnesi og Kjartan pabbi hans var eftirlitsmaður. Það er svo sem ekki mikið um leikinn að segja nema að Þorri varð sér til skammar, ég fékk hæstu einkunn sem hægt er að fá, Haukar féllu og þetta var hugsanlega síðasti leikur Gylfa. Ég rétt náði heim til að skipta um föt og bregða mér svo á tónleika Nicks Cave. Þeir voru snilld. Ef þið voruð ekki þar get ég ekki lýst þeim fyrir ykkur betur en það.
Helgina þar á eftir fór ég til Vestmannaeyja til að dæma þar leik í lokaumferðinni. Við þurftum að fara á föstudeginum til þess að komast örugglega þar sem allir leikir í lokaumferðinni þurfa að fara fram á sama tíma. Í Vestmannaeyjum keyrðum við allar götum sem við fundum, upp á Stóhöfða, í hrauninu, niður á höfn og um allan bæinn. Þegar því var lokið höfðum við ekkert að gera en fundum loksins snókerborð í kjallara hótelsins og eyddum því sem lifði kvöldsins þar. Sama dagskrá daginn eftir, bíltúr, snóker og svo leikur sem gekk mjög vel, Snókerinn gekk ekki jafn vel. Svo var haldið heim á leið og voru ferðafélagarnir orðnir ansi (óþreyju)fullir þar sem dómarapartí beið þeirra í bænum og var annar þeirra meira að segja gestgjafinn. Ég ákvað hins vegar að vera fjarri góðu gamni. Lauk þar með ferðalögum mínum innanlands það sumarið en enn er eftir að heimsækja Lundúnir í lok október.
Upp á síðkastið hef ég endurnýjað kynni mín af skáksíðunni redhotpawn.com. Þar er hægt að tefla við andstæðinga um allan heim. Þeir sem lesa þetta og hafa áhuga á því að tefla við mig er bent á að það kalla ég mig Odda og tek öllum áskorunum.
Lítill drengur kom í heiminn um daginn, Hrafnhildar- og Elvarsson. Við Auður óskum að sjálfsögðu allri fjölskyldunni til hamingju með það.

mánudagur, september 18, 2006

"Piff... þá skulum við bara vona að þú þurfir ekki að ómaka þig í því að flækjast hingað norður. Við plumum okkur líka bara ágætlega án svona hrokagikkja!"

Þessi athugasemd kom við ferðasöguna mína sem ég hripaði niður um daginn og þar á meðal þessa athugasemd. "Þá á ég bara Norðulandið eftir í þessum mánuði en þar er hvort eð er ekkert að sjá og ekkert gott hefur komið þaðan þannig að það skiptir ekki máli." Ég er miður mín vegna þessa og bið alla Norðlendinga að sjálfsögðu afsökunar. Á Norðurlandi er margt fallegt að sjá og þaðan kemur margt gott; þar á meðal kirkjutröppurnar, Bautinn, Sverrir Friðriksson (það er undir hverjum og einum að gera það upp við hann hvort hann sé góður eða fallegur eða hvort tveggja), Magni frá Grenivík, eitt fallegasta vatnsfall landsins, Glerá, og svo margt fleira sem ég get ekki nefnt í augnablikinu. En sem sagt, Norlendingar, ég biðst afsökunar.

sunnudagur, september 17, 2006

Þetta finnst Auði fyndnast í heimi. Ég held að hún haldi að ég sé líka svona á vellinum.


föstudagur, september 15, 2006

Forsmekkurinn(ekki smjörþefurinn enda smjör illa lyktandi) af því sem koma skal á morgun.
Lítil stúlka, Eyrún Alda Elvarsdóttir Hrafnhildardóttir átti afmæli um daginn og bauð okkur Auði. Þar sem við vorum í sumarbústað á sama tíma gátum við ekki komist og gleymdum að segja að við kæmumst ekki. Hér með óskum við henni til hamingju með þennan mikla áfanga og boðum komu okkar síðar með smápakka. Til hamingju, Eyrún Alda!
Líney frænka mín er snillingur og öðlingur. Ekki nóg með það að hún sé að verða u.þ.b. doktor í kjarneðlislífeindaeðlisefnafræði eða eitthvað svoleiðis þá bauðst henni um daginn miði á Nick Cave tónleikana á laugardaginn. Henni varð strax hugsað til stóra frænda og bauð mér miðann. Ég er sem sagt að fara á tónleikana, frítt. Húrra fyrir Líneyju frænku, hún lengi lifi: Húrra, húrra, húrra, húúúrrrraaaaaa...

miðvikudagur, september 06, 2006

Undanfarna daga hef ég aldeilis lagt land undir fót og ekki sér fyrir endann á því enn þá. Ég hef ferðast landshorna á milli og séð staði sem hversdagsmaðurinn gæti aðeins látið sig dreyma um og myndi varla trúa ef ég segði frá því. En látum á það reyna...

Fjörður um fjörð frá firði til fjarðar um fjörð yfir fjörð frá firði um enn einn fjörð til fjarðar um fjörð frá firði. Þannig var síðasta helgi hjá mér þegar við Auður skruppum vestur á Bíldudal. Fyrir þá sem ekki vita er Bíldudalur á Vestfjörðum og þangað er langt að keyra. Hins vegar er maður ekki lengi að keyra um Bíldudal, u.þ.b. 10 mínútur að keyra allar göturnar fram og til baka. Við fórum niður á höfn og ég veiddi stærsta fisk sem sést hefur í plássinu í mörg ár,svo fórum við að tína ber og ég tíndi helling og svo slöppuðum við af í heitum potti og ég slappaði mest af. Þetta var ágætis tími á staðnum en þrír dagar dugðu mér ágætlega.

Maður var varla lentur í Reykjavík þegar næsta ferðalag tók við. Þriðjudaginn 5. sept hélt ég til Egilsstaða með fyndnasta dómara Íslands, Garðari Erni Hinrikssyni. Eins og við mátti búast var þetta hin skemmtilegasta ferð, Garðar sagði brandara allan tímann og ég gerði ekki annað en að hlæja allan tímann og það lá við að það þyrfti að gera hlé á leiknum þegar ég byrjaði að hlæja, Garðar er svo fyndinn. En ekki meira um það. Þar sem að við lentum klukkan 13.30 og leikurinn byrjaði ekki fyrr en klukkan 17.30 höfðum við nægan tíma til að skoða plássið og gerðum það sviklaust. Ég sá Fellaskóla, sem ég hélt að væri bara til sem óknyttaskóli í Breiðholtinu en er greinilega líka til í Fellabæ, sem ég vissi varla að væri til. Svo fórum við í BT og fengum ágætis fyrirlestur um muninn á Championship Manager og Football Manager sem lauk með því að Garðar keypti FM. Að leik loknum var haldið beint út á flugvöll og þaðan heim og þar með lauk skemmtilegasta ferðalagi sem ég hef farið í með fyndnasta dómara á Íslandi.

Föstudaginn 8. héldum við Auður svo austur í Vaðnes þar sem pabbi, mamma og Anna Alexandra biðu okkar í sumarbústað. Helgi bróðir og Anna Kristín voru í útlöndum með Kjúlla litla frænda (sem heitir nú víst Eiríkur). Í bústaðnum slöppuðum við af, lágum í pottinum og borðuðum á okkur gat. Þess á milli skrapp ég í bæinn til að vera á leik Kára og ÍH um þriðja sætið i 3.deildinni. Ferðafélagarnir fóru heim snemma á sunnudeginum en við Auður vorum eina nótt í viðbót og slökuðum á.

Fram undam: Leikur á Ólafsvík á laugardaginn með Gylfa "stóra bróður" Orrasyni og Þorra litla frænda. Næstu helgi þar á eftir verð ég svo í Vestmannaeyjum. Þá á ég bara Norðulandið eftir í þessum mánuði en þar er hvort eð er ekkert að sjá og ekkert gott hefur komið þaðan þannig að það skiptir ekki máli.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Um daginn fórum við Auður í sund, sem er í sjálfu sér ekkí í frásögur færandi. En að þessu sinni varð Laugardalslaugin fyrir valinu og í för með okkur voru Hildur og Bjarni sem eru systkini Auðar. Það er orðið ansi langt síðan ég hef komið í Laugardalslaugina en hér á árum áður var maður ansi duglegur við það, sérstaklega þegar rennibrautin var ný. Þá var kerfið þannig að þegar maður borgaði sig inn fékk maður armband með fimm miðum í rennibrautina. Þegar maður fór svo upp í turninn sat svo maður þar sem klippti einn miða af armbandinu fyrir hverja ferð sem maður fór.Á þeim tíma sem sem ég stundaði laugina voru tveir menn langoftast að vinna í rennibrautinni. Annar þeirra er nú alþingismaður en hinn borgarfulltrúi. Þeir eru vinir. Þá á unga aldri sá maður hið spillta eðli þeirra þar sem að maður varð vitni að því að trekk í trekk klipptu þeir ekki miðana hjá þeim sem þeir þekktu heldur létu þá bara fara fram hjá að vild. Þeir sem voru með þeim sem þekktu þessa framtíðar spilltu stjórnmálamenn voru hins vegar ekki jafn heppnir. Vinapólitíkin varð því snemma áberandi hjá þessum mönnum. Af hverju lét maður þetta viðgangast?
Jú, af því að ég var maðurinn sem ekki var klippt hjá. Stundum er gott að þekkja réttu mennina.

mánudagur, júlí 03, 2006

Undanfarna viku hef ég verið í sumarfríi og tekið lífinu rólega að mestu leyti. Þurfti að vísu að mæta í Getraunir á fimmtudaginn og dæma á miðvikudaginn en gerði að öðru leyti lítið. Horfði á NBA-draftið í beinni aðfaranótt fimmtudags og var nokkuð sáttur.
Á föstudeginum lögðum við hins vegar land undir fót og héldum vestur í Flatey þar sem fjölskylda Auðar á sumarhús. Við tókum Baldur frá Stykkishólmi á föstudeginum ogvorum komin um 17.30 út í Flatey. Eftir að hafa komið okkur fyrir og ég var búinn að grilla (flambera) þessa líka dýrindis hamborgara fórum við og skoðuðum kirkjuna og fleiri staði og þegar við gengum fram hjá hótelinu sáum við að Viktor Arnar Ingólfsson var með fyrirlestur um bókina sína ?Flateyjargátu? eftir 5 mínútur. Ég ákvað að hlusta á hann en Auður og systkini hennar fóru heim aftur. Þetta var skemmtilegur fyrirlestur og eftir hann keypti ég bókina og fékk hana áritaða. Ég kynnti mig fyrir honum og hann mundi eftir mér úr bókmenntaspurningakeppninni sem hann stóð fyrir í kringum jólin. Þar vann ég 5-6 eintök af bókinni "Engin spor" og sendi vinum og vandamönnum.
Daginn eftir fjölgaði í bústaðnum þegar Vigdís, Atli og Sóley komu með Bjögga vini hans Atla. Ástæðan fyrir því að þau komu svo seint verður rakin síðar. Á laugardeginum fórum við í siglingu um Breiðafjörðinn og komum meðal annars við í Hergilsey þar sem mér varð að orði er ég kom að Vaðsteinabergi ?Skjótt er til ráða að taka þó að ég sé enginn viturleiksmaður; Róum sem ákafast að eynni og göngum síðan upp á Vaðsteinaberg og verjumst meðan vér megum upp standa." Heldur fannst nú lundanum og kindinni sem á heyrðu lítið til þessara hetjuorða Ingjalds koma og hefur sennilega fundist ég líkari Ingjaldsfíflinu en hetjunni Ingjaldi. Að minnsta kosti gerði lundinn heiðarlega tilraun til að skíta á mig en missti þó marks. Aðrir
urðu þó ekki jafn heppnir síðar í ferðinni enda krían sérlega hittinn fugl.
Eftir að við komum aftur í Flatey fengum við okkur að borða en heldur dvaldi maturinn stutta stund í maganum og gerði uppreisn. Lá ég því óvígur það sem eftir lifði kvölds á meðan aðrir brugðu sér af bæ og könnuðu næturlífið í Flatey. Á sunnudeginum var svo risið út rekkju, pakkað niður og haldið heim á leið. Þegar þangað var komið var sofið.
Þetta verð ég að enda á því að tilnefna sauði ferðarinnar. Þau verðlaun hlýtur fólkið sem mætti á höfnina í Stykkishólmi kl. 16.15 eða 15 mínútum eftir brottför Baldurs og þurfti að horfa á eftir honum sigla úr höfn. Þetta fólk, sem ég nefni ekki á nafn, kom síðan út í Flatey á laugardagsmorguninn eftir að hafa eytt seinnihluta föstudagsins á Stykkishólmi og fór aftur með fyrri ferð á sunnudegi. Þegar í land var komið kom í ljós að bíllyklarnir höfðu orðið eftir í Flatey og þurftu þau því að bíða eftir að seinni ferð Baldurs sem var væntanleg eftir u.þ.bþ 6 tíma. En það hlýtur að hafa verið í lagi því Stykkishólmur er jú sannkölluð náttúruperla sem krefst þess að maður eyði í það minnsta tveimur dögum þar...
Ég fór um daginn til Seyðisfjarðar að dæma. Ég hafði ekki komið þangað áður og hef svo sem ekki mikið um staðinn að segja. Við lentum á Egilsstöðum, keyrðum á Seyðisfjörð, dæmdum leikinn, keyrðum til baka og beint út á flugvöll. Ég væri samt alveg til í að renna austur einhvern tímann og dvelja þar í smá stund.
Jæja, hvað hefur nú drifið á daga mína síðan síðast... Til dæmis fór ég austur að Miðengi um daginn á nokkurs konar ættarmót og var það hið ágætasta. Sá litla frænda minn, sem gengur undir nafninu Kjúlli litli að beiðni stóru systur, í fyrsta sinn og leist okkur frændunum bara ljómandi vel hvor á annan. Hann er ansi mikill hlunkur og um tonn á þyngd. Og dísætur eins og stóri frændi.

mánudagur, júní 12, 2006

Í dag áskotnaðist mér lítill frændi. Helgi bróðir og Anna Krístín eignuðust ekki svo litinn strák í morgun (18 merkur) sem líklega fær nafnið Eiríkur ef afinn fær einhverju um það ráðið. Ég óska þeim innilega til hamingju og hlakka mikið til að fá að fara og hitta litla hlunk.

miðvikudagur, júní 07, 2006

Þá er maður kominn heim frá Spáni, fyrir viku reyndar, og byrjaður að vinna aftur eftir ágætis sumarfrí. Á Spáni komst ég að því að til er eitthvað sem heitir Altea Nueva, sem er gamall fallegur bær, og Altea la Vella sem er íbúðahverfi. Ef maður ætlar að fara að skoða gamla bæinn er ekki gaman að fara í staðinn í íbúðahverfið. Enn leiðinlegra er að átta sig ekki á því og ráfa um í eina og hálfa klukkustund í leit að einhverri kirkju og fatta svo að maður hefur gengið í risastóran hring. Þá komst ég líka að því að Valencia er stór borg þar sem er auðvelt að villast og ógeðslega erfitt að keyra. Svo er víst ekki sama hvar maður keyrir út úr borginni því ef maður fer öfugu megin út úr henni fer maður inn í mitt landið og þá tekur 5 tíma að komast til Benidorm en ekki einn og hálfan. Það er leiðinlegt að keyra spænska fjallvegi að nóttu til á bíl sem maður hefur aldrei keyrt áður og enn leiðinlegra ef maður er ekki alveg viss um að vegurinn liggi þangað sem maður vill fara. Þegar maður er villtur kl. 3 um nótt á bílaleigubíl og vill fara heim að sofa verður maður geðvondur. Það er gott að sofna þegar maður kemst loksins heim. Þriggja ára börnum er alveg sama á hvaða tungumáli barnaefni er. Ég hefði átt að kaupa mér fleiri föt. Konur taka þröngum fötum sem áskorun. Það er hægt að brenna mjög asnalega. Það er hægt að verða asnalega brúnn. Dádýrakjöt er gott. Þegar maður kemur heim eftir svona ferð er maður ekki í góðu formi. Það er erfitt að byrja að vinna þegar maður kemur heim. Það er enn erfiðara þegar maður byrjar á 14 tíma vinnudegi.
Meira seinna. Borða nammi.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Ég var að fá niðurröðunina frá KSÍ fyrir fyrsta mánuð tímabilsins og verð að segja að ég er bara þokkalega ánægður. Fyrsti leikur er sunnudaginn 14. maí, viðureign Víkinga og Fylkismanna, en auk þess fékk ég tvo aðra leiki í efstu deild, þrjá í fyrstu deild, þrjá í bikarnum og einn í efstu deild kvenna. Í fyrra fékk ég samtals tvo leiki í efstu deildinni þannig að þetta hljóta að vera framfarir hjá mér. Sjáumst á vellinum, ég verð maðurinn með fánann...
Lilja og Gísli voru að eignast litla stelpu í gær. Ég óska þeim innilega til hamingju og hlakka til að sjá hana sem allra fyrst.

mánudagur, maí 08, 2006


Fyrirsætuferillinn heldur áfram. Ef farið er inn á ksi.is má oft sjá þessa mynd efst á síðunni. Þess má geta að það er gert í óþökk minni og ég væri alveg brjálaður ef að ég væri ekki bæri ekki svona af á þessari mynd. Umboðsmaðurinn minn er að vinna í málinu og ég á væntanlega von á fúlgu fjár síðar meir.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Þetta eru sennilega tveir af mestu töffurum í heimi.
Þessi maður er einn af mínum uppáhaldsleikurum, sérstaklega þegar hann leikur fangaverði. Samt er það þannig að ég get aldrei munað hvað hann heitir þegar ég sé hann. Getur einhver verið uppáhaldsleikarinn manns ef maður veit ekki hvað hann heitir?

þriðjudagur, maí 02, 2006

Ég hef séð á nokkrum bloggsíðum (man ekki hverjum) að menn hafa shufflað lögunum á iPodinum sínum og svo skrifað um 10 fyrstu lögin sem koma upp. Nú á ég ekki iPod en hér í vinnunni er ég með 4,7 gígabæta DVD-disk fullan af tónlist. Ég ákvað að gera það sama og hér eru niðurstöðurnar
1. lag. Highway Patrolman með Johnny Cash. Frábært lag eftir Bruce Springsteen sem ég á á Best of Johnny Cash plötu. Svo gott lag að það var gerð bíómynd eftir sögunni í textanum. Að mínu mati betra með Cash en Springsteen en reyndar heyrði ég lagið fyrst með Cash
2. Lullaby með Cure. Yndislegt lag sem ég man eftir frá því að ég var yngri og ég man að mér fannst skrýtið hvað Spider-Man var vondur í laginu ("Spider Man is having me for dinner tonight")
3. The Girl from Ipanema með Stanley Getz. Maður fer alltaf í gott skap eftir að hafa heyrt þetta lag. Ekki langt síðan ég uppgötvaði þetta lag og þennan disk, sennilega síðasti maður á jarðríki til þess.
4. New Coat of Paint með Tom Waits. Af plötunni The Heart of Saturday Night sem er ein uppáhalds Tom Waits platan mín. Ég heyrði Svein Ólaf Gunnarsson leiklistarnema og skólabróður minn úr Hólabrekkuskóla, MS og Háskólanum syngja þetta lag á Röskvuskemmtun einu sinni og fannst þetta alveg brillíant lag.
5 Rainy Night in Soho með Nick Cave af B-sides and Rarities. Dauðadrukkinn Nick Cave að syngja lag eftir fyllibyttuna Shane McGowan.
6 Ástarsaga með Megasi. Heyrði þetta lag fyrst í kúrsi í íslenskunnium íslenska dægurlagatexta. Þessi texti var borinn saman við Where the Wild Roses Grow með Nick Cave. Þið getið sjálf athugað hvers vegna.
7. Slowly goes the night með Nick Cave. Lag af Tender Pray sem er flottur diskur og þetta er sennilega besta lagið af honum.
8. Endless Love með Lionel Richie og Diönu Ross. Ógeðslega væmið lag sem öðlaðist nýtt líf í myndinni Happy Gilmore með Adam Sandler. Þess virði að sjá myndina bara fyrir það eina atriði.(Og það er alveg þess virði að sjá þá mynd sem er alger snilld)
9. Picture in a frame með Tom Waits. Án vafa fallegasta lag sem hann hefur samið. Af Mule Variations sem er snilldarplata.
10. Billie Jean með Michael Jackson. Hmmm... þarf að segja eitthvað um þetta?
Jæja, ekki tók það langan tíma að svíkja þetta loforð. Hér eftir lofa ég ekki öðru en að reyna mitt besta. Það var heilmikið að gera hjá mér um helgina, flest á einhvern hátt vinnutengt. Var aðstoðardómari á leik Leiknis og Aftureldingar á Ghetto ground í Breiðholtinu. Ég hélt að vel yrði tekið á móti mér þegar ég sneri aftur á heimaslóðir en menn voru ekki alveg sáttir við mig allan tímann án þess þó að það væri eitthvað meira en það sem maður fær venjulega að heyra frá áhorfendum. Það var a.m.k. ekki slátrað kálfi þegar týndi sonurinn kom heim. Þá átti pabbi gamli afmæli og við litum aðeins á hann og hittum Önnu Alexöndru. Þeim viðskiptum lauk á þann veg að hún fór grátandi heim og fullyrti að ég væri ekki lengur vinur hennar en þegar ég spurði hvort hún vildi þá ekki lengur koma í heimsókn þá minnkaði gráturinn því ekki vildi hún missa af heimsókn til Oddbergs frænda. Svo þurfti ég að lesa heima, lesa eina ritgerð um japanska garða, hjálpa einum vandræðagemlingi fyrir samræmdu prófin og ýmislegt fleira. Þannig að ég vona að dómarar hafi fyrirgefið mér að hafa ekki mætt í Esjugönguna. En ég var með þeim í anda.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Ég var næstum búinn að svíkja loforðið mitt um að blogga á hverjum degi strax á öðrum degi. En þar sem ég sit núna í vinnunni minni í Getraunum og bíð eftir því að nálgast úrslitin úr leik ÍR og Hauka í B-deild Deildarbikar kvenna þá hlýt ég að nota tækifærið til að standa við loforðið. Ég hef unnið núna í Getraunum í 5-6 ár og satt að segja er ég orðinn örlítið leiður á því. Þegar ég byrjaði hérna þá var þetta fínt starf með skóla, mæta 1-2 í viku, fylgjast með leikjum dagsins og fara svo heim. Með tímanum þróaðist það þannig að ég tók að mér alla miðvikudaga og nánast undantekningalaust unnið alla miðvikudaga. Vinna hefur breyst töluvert á þessum tíma, leikjum hefur fjölgað og þar af leiðandi er meira að gera. Ég hef lýst þessari vinnu oft þannig að ég fái borgað fyrir að horfa á fótbolta en satt að segja er það ekki alveg rétt. Vissulega fylgist ég með leikjunum sem eru í sjónvarpinu en yfirleitt er það mikið að gera og margt sem þarf að fylgjast með að ég næ ekki að horfa á neina leiki almennilega. Þá lendir maður oft í því, sérstaklega á veturna, að þurfa að hringja í íþróttahús til að uppfæra stöðuna í handbolta- og körfuboltaleikjum og fátt veit ég leiðinlegra en að hringja endalaust í misgeðgóða húsverði til að fá upplýsingar. Þá hefur vinnutíminn líka breyst þannig að ég þarf alltaf að mæta kl. 4 og fer í fyrsta lagi kl. 10 og þarf að vera lengur ef enn þá eru leikir í gangi, eins og í kvöld. Áður fyrr var það þannig að maður mætti bara 5 mínútum áður en fyrsti leikur dagsins hófst og fór svo þegar síðasti leikur var búinn og maður var búinn að ganga frá öllu. En vegna ákveðinna breytinga í vinnunni þarf maður að lágmarki að vera til 10 sem getur verið þreytandi þegar nákvæmlega ekkert er að gera. Hvers vegna er ég að röfla þetta allt saman? Jú, vegna þess að mér hundleiðist þessa stundina og væri alveg til í að vera heima með Auði eyða deginum á annan hátt. En stundum þarf maður víst að gera annað en það sem mann langar til. Því miður.

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Þetta er einfaldlega svalasti maður í heimi

Ég rak augun í það áðan að Davíð Örn Sigþórsson hefur skrifað athugasemd hjá mér um daginn varðandi frægð mína sem fyrirsæta og segir þar: "Oddbergur minn, ég er nú farinn að trúa nánast öllu upp á fyrrverandi bekkjarfélaga mína úr Hólabrekkuskóla. Sessunautur þinn, fyrrverandi, ætlar að sigra Idol á föstudaginn og hversvegna ættir þú ekki að geta orðið ofurfyrirsæta? Ég bara spyr?" Þar vísar hann til þess að sessunautur minn til 2-3 ára í Hólabrekkuskóla var enginn annar en núverandi Idol-stjarna Íslands, Snorri Snorrason. Af mér lærði hann margt um tónlist og söng þó að hann hafi enn ekki þakkað mér fyrir á opinberum vettvangi. Til að hefna mín á honum birti ég hér með upplýsingar um hann sem aldrei áður hafa birst opinberlega og munu eflaust skekja heimsbyggðina:

Engan hef ég séð sem var jafnlélegur í fótbolta og hann.

Hann átti auðvelt með að ljúga að mér og ég trúði öllu sem hann sagði mér.

Ég sá hann einu sinni skipta skapi og þá rauk hann á mann sem var 10 sm stærri og 25 kg þyngri en hann. Ástæðan var sú að hinn hafði ýtt Snorra harkalega utan í vegg þar sem hann rak höfuðið í járnsnaga. Ef mig misminnir ekki fékk Snorri heilahristing sem gæti útskýrt þessi ofsalegu viðbrögð. Þar með hverfur sú goðsögn að hann sé alltaf jafnrólegur.

Uppáhaldslagið hans á þessum tíma var Take My Breath Away með hljómsveitinni Berlin úr myndinni Top Gun. Ég varð sárhneykslaður yfir því að hann skyldi ekki taka það í Idolinu.

Einu sinni spilaði hann fyrir mig House of the Rising Sun á hljómborð. Þá hafði ég aldrei heyrt lagið áður. Ég hef því verið á einkatónleikum með honum.

Meira man ég nú ekki í augnablikinu en ef eitthvað rifjast upp fyrir mér verð ég fljótur að setja það hér inn til að klekkja á honum.

mánudagur, apríl 24, 2006

Ég byrjaði að skrifa færslu um daginn en kláraði hana ekki. Svo hélt ég áfram að skrifa í dag og kláraði hana. En þar sem ég byrjaði á henni fyrir nokkrum dögum birtist hún ekki efst á síðunni. Ég er bara að nefna þetta svo að þið missið ekki af henni, hún er nefnilega töluverð snilld.

föstudagur, mars 31, 2006

fimmtudagur, mars 23, 2006

Það er allt að gerast í athugasemdunum hjá mér þessa dagana, a.m.k. meira en á þessari síðu. Þessa helgi var ég á Selfossi með um 40 öðrum dómurum. Frá því er svo sem ekki mikið að segja en til mín komu menn sem komu því á framfæri að þeir væru óánægðir með afköst mín. Svo kom athugasemd frá háaldraðri föðursystur minni á besta aldri þannig að núna verð ég að standa mig, the world is watching. Héðan í frá hef ég sett mér það markmið að skrifa eitthvað á hverjum degi (í óákveðinn tíma). Ekki reikna með mikilli snilld heldur takið viljann fyrir verkið.

Í vinnunni minni hér á Stöð tvö (eða 365 eða ÍÚ eða Norðurljósum eða Dagsbrún eða hvað það nú heitir er ég aðallega í því að lesa skjátextann sem er notaður í bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Hver lína má ekki vera lengri en u.þ.b. 33 slög þannig að oft er erfitt fyrir þýðendur að koma því til skila sem persónurnar segja. Þeir reyna að stytta textana og laga að því sem sagt er og er það alls ekki auðvelt. Stundum fáum við til okkar þýðingar sem geta verið töluvert fyndnar, hvort sem að þýðandinn ætlaði sér það eður ei. Hér koma nokkur dæmi:

"Undir stuttbuxunum, stutterma-
bolunum og ilskónum
slær hjarta manns
sem er ekki fjöruflækingur"

Næsta dæmi er úr þátt um þrekkepni kvenna sem var á Sýn. Mig grunar að þetta hafi viljandi verið haft svona:

"Kanadameyjar taka sér
stöðu fyrir dráttinn."

Næsta er úr íþróttakeppni þar sem kappreiðar voru í aðalhlutverki:

"Jim and Tonic sigraði en
þýsku hestarnir aftarlega á merinni."

Eins og áður grunar mig að þetta hafi verið viljandi en þessi þýðandi er sá sami og vildi kalla hina svokölluðu "Dauðariðla" í hinum ýmsu íþróttakeppnum "Náriðla".

Hér koma svo fleiri dæmi án útskýringa:

"Líkið fór til réttarlæknis"

"Að venju kemur dauði Jimmys
öllum í opna skjöldu"

"Það fékk mjög á móður mína
að andast"

"Á seinni vaktinni
í fyrranótt
varð verksmiðjan
eldi að bana."

"Aron Carrier gæti ekki
nauðgað flugu"

"Michael Jackson þarf
að afla sér fés."

"Auðvitað vakna ég þjáður
eins og blaut steypa á vegg."

"En þegar upp var staðið
vantaði fót neðan við hné."


Ég man nú ekki eftir fleiru í bili hér er oft fjör í vinnunni...

þriðjudagur, mars 21, 2006

Á Sirkus er verið að sýna fyndinn þátt sem heitir My name is Earl. Eins og vinnan mín gerir ráð fyrir þarf ég stundum að lesa þessa þætti sem er hið besta mál enda bráðskemmtilegir og þýðandinn oft orðheppinn með afbrigðum eins og ég kem nánar að síðar. Eitt sinn kom upp eitthvert atriði í textanum sem leit einkennilega út og þurfti ég því að hafa samband við þýðandann á MSN. Ég sagði að það væri eitt vafaatriði í Ég heiti Jarl og ætlaði svo að bera fram spurninguna en komst ekki mikið lengra. Þýðandinn varð svo hrifinn af Jarlsnafninu að hann ákvað í skyndi að íslenska öll nöfnin í þættinum. Earl yrði þá að sjálfsögðu Jarl og hann ákvað strax að Randy yrði Randver. Áður en þetta náði lengra stöðvaði ég hann og sagði að það yrði nú ekki vel liðið ef nöfnunum yrði breytt í miðri seríu. Því hættum við við þetta en hugmyndin finnst mér svo góð að það er nauðsynlegt að klára dæmið. Catalina yrði að sjálfsögu Kaðlín og Darnell "Crab Man" yrði Darri "krabbamaður". Joy yrði að sjálfsögðu Auðna, hinn stelsjúki Ralph yrði Ragnvald og homminn Kenny yrði Ketill. Earl junior er Jörlungur og Dodge Dofri. Ef einhver hefur eitthvað við þetta að athuga er honum velkomið að skilja eftir athugasemd.

þriðjudagur, mars 14, 2006


Þetta var ég um helgina... Ég hóf fyrirsætuferilinn með glæsibrag á brúðkaupssýningunni já um helgina og síminn hefur ekki stoppað hjá mér síðan. Fabio og Zoolander mega fara að vara sig því ég er jafnvígur og vinstri og hægri beygjur. Því miður eru ekki til neinar myndir af þessu en þess er væntanlega ekki langt að bíða að andlitið á mér birtist á síðum helstu tískutímaritanna. Ég sagði að minnsta kosti upp vinnunni hérna til þess að fá örlítið meira svigrúm.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Það verða væntanlega flestir fegnir að frétta að ég slapp heill á húfi úr eldsvoðanum mikla, laus við brunasár og reykeitrun. Ég var að vísu ansi slappur alla helgina en það er líklega erfitt að kenna brunanum um það. En ég reyni samt. Á mánudaginn tók ég þrekpróf með öðrum dómurum og náði því eins og venjulega, hvorki fyrstur né síðastur. Framundan er árshátíð 365-miðla, barnaafmæli, fyrirsætustörf alla helgina (án gríns, útskýri betur síðar) og einn leikur á sunnudagskvöldið. Mikið er nú gott að hafa þessar helgar til að hvíla sig.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Þetta er að gerast akkúrat núna. Hins vegar er það orðum aukið að ALLT starfsfólk hafi komist út við illan leik. Við Arnór sitjum enn þá hérna inni og látum ekkert raska ró okkar þó að húsið standi í ljósum logum. Enda er svo kalt úti.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Eins og fram hefur komið á ég afmæli í dag. Þetta er síðasti afmælisdagurinn fyrir þrítugsafmælið og því um að gera að njóta hans. Að sjálfsögðu er risastórt partí og hafa allir sem eru boðnir verið látnir vita af því. Ég reiknaði með því að rauði baróninn myndi mæta á dómaraæfingu á mánudaginn en eitthvað hefur greinilega farið úrskeiðis. Hann verður þá bara að koma á næsta ári. Pakkar eru samt vel þegnir og ég er ekkert of góður til þess að þiggja pakka frá þeim sem ekki var boðið. Annars bið ég ykkur vel að lifa og þakka fyrir kveðjurnar sem hafa borist og munu berast í dag. Læt svo heyra meira frá á næstunni.
Ég á afmæli í dag!

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Bara að minna alla á að eftir 9 daga á ég afmæli. Það verður síðasti afmælisdagurinn minn fyrir 30 ára afmælið. Það er afskaplega sorglegt.
Það var mikið um að vera hjá okkur um helgina. Við fengum tvær litlar frænkur í heimsókn og það var ansi fjörugt hjá þeim. Þær eru nú nokkuð góður vinkonur en samt er ansi stutt í klagið hjá þeim, "Hún er að taka af mér" "Hún hrinti mér" o.s.frv. Svo fórum við í húsdýradarðinn þar sem hellirigning fékk ekki stövðað litlu dömurnar. Þær voru að vísu mishræddar við dýrin, önnur reyndi alltaf að troða sér inn í básana en hin lét sér nægja að horfa á úr fjarlægð. Eftir alla bleytuna þurfti svo að fara heim og borða pönnukökur og drekka kakó. Þegar var búið að skila þeim þurftum við Auður svo að leggja okkur tvisvar eftir öll lætin og við erum enn þá að jafna okkur.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Undanfarna mánuði hafa ýmiskonar fyrirbæri tröllriðið Netinu.Þessi fyrirbæri eru kölluð ýmsum nöfnum. Menn eru kitlaðir, nældir, lamdir, barðir eða hvað þetta er allt saman kallað. Ég hef hins vegar sloppið við allt svona helst vegna þess að enginn hefur séð ástæðu til að kitla, næla, lemja, berja mig. Garðar Örn nældi hins vegar alla bloggvini sína og þar sem ég tel mig einn slíkan ætla ég að svara því.

4 sjónvarpsþættir sem ég elska að glápa á:
Prison Break
Lost
Seinfeld
Desperate Housewifes

4 kvikmyndir sem ég get horft á aftur og aftur:
Princess Bride
Best Shot (Hoosiers)
LOTR-allar þrjár
Top Secret

4 heimasíður sem ég dinglast inn á daglega:
fotbolti.net
jazzhoops.net
fram.is
visir.is

4 uppáhalds máltíðir:
Roast beef með bökuðum kartöflum og bernaise-sósu
KFC-zinger tower án majóness
Saltkjöt a la pabbi
Kjúklingasalat a la mamma

4 geisladiskar sem ég get hlustað á aftur og aftur:

Boatmans Call/Murder Ballads-Nick Cave
Closing Time/The Heart of Saturday Night-Tom Waits
Automatic for the People/Out of Time-R.E.M.
Unplugged/Harvest/Harvest Moon-Neil Young


Takk fyrir mig

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Mér bárust ægilegar í fréttir í vinnunni í dag. Gera á hlé á sýningum Bold and the Beautiful og eins og það sé ekki nóg, þá á að sleppa úr einhverjum 300 þáttum og halda svo bara áfram eins og ekkert hafi í skorist. Er þetta hægt? Er hægt að leggja þetta á fólk? Gamalt fólk og sjúklinga? DV-menn voru kallaðir morðingjar. Að mínu mati er þetta ekkert annað en morðtilraun, að minnsta kosti við sjónvarpsmenningu Íslendinga. Skamm, svona gera menn ekki.

mánudagur, janúar 23, 2006

Ég kynni til sögunnar nýjan bloggara, stórdómarann og rokkstjörnuna Garðar Örn Hinriksson. Síðuna hans má finna hér. Njótið vel.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Undanfarna viku höfum við Auður dvalið að Fannafold þar sem við höfum passað krakkagemlinga þrjá. Þessa vikuna hins vegar flytjum við með krakkagemlinga þessa heim til okkar. Af því tilefni kom pabbi í heimsókn um daginn og klambraði saman gömlu rúmi sem Auður á. Þegar þessir gestir fara mun rúmið standa eftir. Ef að einhver er á leið upp í sveit og vantar þar gistingu þá er bara að hafa samband.
Það er leiðinlegt að gubba. Það er leiðinlegt að gubba tvo daga í röð. Enn leiðinlegra að gubba þrjá daga í röð. Svona heldur það áfram. Heilsan hefur ekki verið góð undanfarna daga. Það er leiðinlegt. Er skárri núna, gubbaði ekki í gær. Hvort það er af því að ég er að verða betri eða af því ég borðaði svo lítið er ekki gott að segja. Gubb er vont.
Versta spurning sem maður getur spurt vin sinn er þessi: "Geturðu gert mér greiða í nótt?" Vini mínum leist ekkert á blikuna þegar ég hóf MSN-samtal á þessum orðum. Engu að síður gerði þessi vinur minn mér greiða og ég er ánægður.