miðvikudagur, apríl 18, 2007

Ætlunin var að skrifa hér ferðasögu frá Þýskalandi en ætli ég reyni ekki frekar að stikla á stóru því satt að segja gerðist ekki það mikið að það kalli á heila sögu. Við Magnús Þórisson FIFA-dómari flugum til Amsterdam á þriðjudegi (að sjálfsögðu á Saga Class eins og alvörumenn) og svo þaðan til Münster en þaðan var keyrt til Schüttorf þar sem við vorum þessa 8 daga. Um Schüttorf er lítið að segja, það er smábær þar sem búa u.þ.b. 5000 manns og maður skoðar allan daginn á einum degi. Fyrsti dagurinn fór í að kynnast hinum dómurunum sem voru frá Belgíu, Tékklandi og Þýskalandi, tveir frá hverju landi. Strax næsta dag var fyrsti leikurinn hjá okkur Magga, Írland-Skotland og með okkur voru þýsku dómararnir, hoknir af reynslu úr Bündesligunni og 1. deildinni. Allt gekk eins og best varð kosið og vorum við án efa menn leiksins. Eftirlitsmaðurinn var mjög sáttur og menn gátu því farið sáttir í háttinn eftir þann daginn. Daginn eftir fórum við svo aftur til Münster til að skoða borgina betur og kom þá í ljós kirkju-fetish umsjónarmannsins okkar þar sem hann dró okkur í hverja kirkjuna á fætur annarri. Eftir heldur stutta ferð fórum við til baka og aftur upp á hótel. Heldur fannst mönnum þessi ferð snautleg og höfðu á orði að það væri nú ekki mikið að gera í þessum litla bæ. Það var þá helst að maður gæti gengið niður í bæ (sem tók 10 mínútur og aðrar 10 að labba allar göturnar þar). Þá var ekki mikið um að vera á hótelinu sem var pínulítið og helst að maður gæti sest inn á veitingastaðinn til að spjalla við hina dómarana. Á föstudeginum var annar leikurinn okkar, Írland-Grikkland og gekk hann einnig eins og í sögu, nema ef grísku þjálfararnir eru spurðir, þeir voru nefnilega eitthvað ósáttir. Þess má geta að Grikkland tapaði og enginn skyldi hvað þeir voru að tala um. Á laugardeginum keyrðum við allir yfir til Hollands til borgar sem heitir Enschede og er alveg við landamærin. Þangað hef ég komið tvisvar áður því þar bjuggu föðurbróðir minn og konan hans um nokkurra ára skeið. Þar var ágætis útimarkaður og fullt af búðum og þar gerði maður góð kaup, kókdós á 30 kall t.d. Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður þar sem mér áskotnaðist til dæmis kveikjari með grænum loga, skemmtilegt það. Á sunnudeginum var frí og fór hann aðallega í að láta sér leiðast eins og venjulega og satt að segja var maður orðinn svolítið þreyttur á þessum litla bæ. Á mánudeginum rann hins vegar upp stóra stundin því þá var ég aðstoðardómari á leik Þýskalands og Írlands sem var hreinn úrslitaleikur um það hvort liðið ynni riðilinn og kæmist í úrslitakeppnina. Það var belgíski dómarinn sem dæmdi leikinn og gerði það að mikilli röggsemi. Eftir leikinn hrósaði eftirlitsmaðurinn mér mikið fyrir einhverja bendingu í einhverju atriði og ég brosti og þakkaði fyrir hrósið. Ég mundi að vísu ekkert eftir þessu (og man ekki enn) en það er gott að fá hrós fyrir það sem maður gerir víst vel. Eftir leikinn settust menn aðeins á barinn og skáluðu fyrir góðri keppni. Morguninn eftir var svo flogið sömu leið til baka (með Saga Class) og mikið var nú gott að komast heim. Í dag kom svo símreikningurinn...
Seint skrifa sumir en skrifa þó... afmælið búið og hefur greinilega farið svona illa í mig að ég hef ekkert skrifað. Afmælið gekk þó stórvel, flestir mættu og skemmtu sér ágætlega held ég. Ég varð stórríkur maður á eftir, fékk fugl, uppþvottavél, bók inneignir og hvað má vita meira. Ég vil bara þakka öllum fyrir komuna og vonast til að njóta veisluhalda annarra síðar á árinu.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Hvað hefur nú gerst síðan síðast... Margt og mikið satt að segja og svo mikið að ég man varla eftir því öllu. Það merkilegasta er það að á heimilinu hefur orðið fjölgun því systkini Auðar færðu mér páfagaukinn Bíbí í afmælisgjöf um daginn. Bíbí er skemmtilagasti fugl í heimi en er enn þá að venjast nýju heimili og er svolítið feimin. Einnig má nefna að á heimilið kom líka uppþvottavél og var henni ekki síður tekið vel en Bíbí.
Þá voru að koma góðar fréttir frá KSÍ því vikuna 20.-27. mars fer ég til Þýskalands að dæma á móti landsliða u-17 ára. Fyrsta verkefnið mitt utan Íslands og gaman að fara til Þýskalands. Meira um það seinna.
Og svo ætla ég að verða 30 ára á föstudaginn. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Gjafir óskast og því stærri því betra.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Í gær fékk ég dýrindis afmælisgjöf frá viðskiptabankanum mínum. Sú gjöf var ekkert slor heldur forláta Georg Jensen rúðuskafa. Nú dugar ekki lengur að vakna myglaður og fara út að skafa bílinn heldur þarf maður að klæða sig í sitt fínasta púss þegar maður fer út því ekki getur maður verið eins og róni með fínu Georg Jensen sköfuna mína. Reyndar er ég að velta fyrir mér að setja hana í ramma og hengja hana upp inni í stofu enda er þetta mikið djásn.