föstudagur, apríl 15, 2005

Þegar ég var að skrifa lokaritgerðina mína í M.Paed.náminu sat ég oft í Árnagarði fyrir framan tölvuna og hlustaði á tónlist á meðan ég þóttist vera að skrifa. Meðal þess sem ég hlustaði á var íslensk hljómsveit sem heitir Misery loves company. Þegar ég svo útskrifaðist gleymdi ég að bjarga þeim gögnum sem ég átti inn á heimasvæðinu og þar á meðal þessum lögum sem ég hlustaði svo mikið á. Nú fyrir skömmu hóf ég mikla rannsóknarblaðamennsku til þess að finna þessi lög aftur. Sú rannsókn leiddi mig á slóðir Eyvindar nokkurs Karlssonar sem er annar tvegja meðlima hljómsveitarinnar. Ég sendi honum tölvupóst þar sem ég spurðist fyrir um þessi lög og hann svaraði um hæl og niðurstaðan varð sú að hann ætlar að brenna fyrir mig á disk allt það efni sem hann á með þeim og þakka ég honum kærlega fyrir það. Sem þakklætisvott sett ég hérna hlekk á heimasíðu hans og heimasíðu hljómsveitarinnar. Endilega kynnið ykkur lögin þeirra. Flott lög og góðir textar. Eðal þunglyndi.
Hr. Tómasson (við þurfum að hittast fljótlega aftur í góðra vina hópi og rifja upp gamlar, góðar sögur) benti mér á í athugasemdunum að ég bloggaði bara á miðvikudögum. Til að festast ekki í viðjum vanans ákvað ég að bylta venjum mínum og blogga núna á föstudegi (þori að veðja að þið sáuð þetta ekki fyrir.) Það er nú ekki mikið að frétta síðan síðast nema kannski það að við Auður vorum að kaupa okkur nýtt sjónvarp. Við fórum í ELCO í Smáranum og fundum þar þetta fína Sony 29" tæki sem okkur leist vel á. Afgreiðslumaðurinn tók niður nöfnin okkar og sagði okkur að fara á lagerinn sem er í IKEA-húsinu og sækja tækið þar og borga það. Þegar við komum þangað Var okkur sagt að við hefðum átt að borga tækið í búðinni og fá kvittun til að koma með á lagerinn. Þar sem nálgast var lokun ákváðum við að fara í Elco í Skeifunni til að sjá hvort ekki væri til svona tæki þar. Hitti þá svo vel á að einhver hafði nýtt sér 30 daga skilafrest og var að skila nákvæmlega svona tæki. Það var okkur boðið með 10.000 króna afslætti. Við þáðum það strokuðum afgreiðslumanninn í Smáranum út af dauðalistanum. Nú erum við sem sagt stoltir eigendur nýs sjónvarps og Auður þarf ekki lengur að horfa á sjónvarpið með gleraugun eða spyrja mig á 10 sekúndna fresti hvað sé að gerast því hún sjái ekki á sjónvarpið.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Enn eitt dæmið um það að maður sé orðinn töluvert gamall. Ég þurfti að fara til læknis í dag. Heimilislæknirinn minn var veikur (vond auglýsing fyrir læknastéttina) þannig að ég var spurður hvort mér væri ekki sama þó að ég fengi annan lækni. Ég sagði að mér væri alveg sama og var þá vísað til læknis sem heitir Pétur. Þá kom í ljós að Pétur þessi er jafn gamall mér og gamall kunningi sem var í X-bekknum í MR. Mér hefur alltaf fundist læknar vera svo gamlir en þarna var sem sagt læknir sem var jafn gamall og ég. Hins vegar ber þess að geta að hann var mjög fagmannlegur og ég á von á því að leiðbeiningar hans hjálpi mér. Skemmtilegt þetta.