mánudagur, september 29, 2003

Hver ? fjandanum er Berglind sem er a? commenta hj? mér (afsaki? or?brag?i?) ?etta er alls ekki illa meint :) Bara gaman að vita hverjir aðdáendur manns eru.
Ég hef ekki enn þá komist að því hvernig maður lagar þetta stafarugl í þessu rugli. Á meðan svo er ætla ég ekki að blogga mjög mikið. Reyndar efast ég um að margir séu að lesa þetta hvort eð er þannig að pressan er ekki mikil. En ef að einhver kann að laga þetta þá má hinn sami gjarnan hafa samband við mig.

fimmtudagur, september 25, 2003

Hvernig lagar maður þetta helv, djöf stafarugl?
Hmmm. Ekki datt mér í hug að fólk væri enn þá að skoða bloggið mitt og hvað þá að commenta á það. Ég er greinilega vinsælli en mér datt í hug. En þetta er allt í vinnslu. Nú er ég að fara að skrifa M.Paed ritgerðina mína og því má búast við því að ég not hvert tækifæri til þess að gera eitthvað annað í tölvunni en að skrifa ritgerð. Heyrumst fljótlega...

þriðjudagur, september 02, 2003

Ég boða endurkomu mína í bloggheima. Hversu öflug þessi endurkoma verður er ekki víst, þið verðið bara að bíða spennt

miðvikudagur, júní 25, 2003

Asnalegt!!! Ég er búinn að monta mig af því að hafa staðið lengi í röð til þess að fá miða á Nick Cave og gert grín af öllum þeim sem fengu ekki miða. Og hvað er þá gert? Bætt við aukatónleikum þannig að afrek mitt verður ekki nærri jafn mikið og áður :( Svindl.

miðvikudagur, maí 28, 2003

Það er minna en ekkert að gera í vinnunni minni. Í dag fórum við Gulli upp eftir og þrifum 7 stóla með tusku. Lagði mig kl 11 og við ákváðum að gera ekkert fram að mat. Kl 13 fórum við í Nesbúð svo að Gulli gæti sinnt ákveðnum erindum sem maður sinnir ekki á klósetti sem ekki er hægt að sturta niður í. Kl 14 kom bíll með grasfræ sem við bárum inn í hús og komum fyrir. Það tók u.þ.b. 15 mín. Fljótlega upp úr því ákváðum við að fara í bæinn og sannfærðum sjálfa okkur um að við gætum mætt tæpum klukkutíma fyrr í bæinn vegna þess að við tókum ekkert kaffi. Það virkaði!!!
Ég var að fá staðfest hverjir verða í hópnum mínum í sumar. Ég verð með fimm undirmenn og þar á meðal Auði, sem er gaman. Fyndið, ég fæ að vera yfirmaður hennar milli 7:30 og 17:30 alla virka daga. Á öðrum tímum er hún yfirmaður. Hina í hópnum mínum þekki ég ekkert.
Er nokkuð leiðinlegra en tvö ítölsk lið í úrslitaleik??? Ég held ekki. Ánægður með mína menn í Fram, alltaf gaman að hirða stig af KR. Skemmtilegra hefði verið að vinna þá en það er ekki á allt kosið.

miðvikudagur, maí 21, 2003

Mig langar til að óska Sollu og Gunna til hamingju með frumburðinn en þau voru að eignast litla stelpu þann 17. maí. Fjölskylduna má skoða hér. Þá langar mig líka til að óska Sollu til hamingju með daginn en hún á afmæli í dag. Tralalalalalalalala Hún á afmæli í dag
Jæja ég er loksins byrjaður að vinna og get því farið að slökkva á heilanum aftur. Sumarið er tíminn, In the Summertime, Summertime Slues o.s.frv. Er að vinna með Nóra og Gulla þessa dagana. Sakna Mumma. Mummi er góður strákur og ég vona að hann fari bráðum að koma heim. Ég fékk að vita að ég fæ sennilega 7 manna hóp í sumar og að Auður verður í mínum hópi :) Annars er það alger brandari að ég skuli vera byrjaður að vinna svona snemma því það er ENGIN þörf á því að hafa þrjá menn í vinnu í hálfan mánuð við að undirbúa sumarið. En Maðurinn vill borga mér peninga og ég hef ekki efni á því að afþakka peninga. Verst er að það truflar aðeins ritgerðaskrifin mín en ég á enn þá eftir að klára síðustu ritgerðina í KHÍ. En hverjum er ekki sama... Summer in the City, Summertime, Sól sól skín á mig,

föstudagur, maí 02, 2003

Það voru einhverjir að hóta því að henda mér út ef að ég skrifaði ekkert á næstunni. Nú er ég búinn að skrifa eitthvað. En hafið ekki áhyggjur það kemur meira alveg á næstunni.

miðvikudagur, apríl 02, 2003

Byrjaði í æfingakennslunni í dag. Ég er að kenna tvo bekki í MS, samtals 16 tíma. Það munaði engu að ég hefði klúðrað þessu algerlega því ég fattaði ekki hvað það er lítið eftir af skólanum (bara tvær vikur). Sem betur fer náði kennarinn minn að bjarga þessu fyrir mig þannig að ég ætti að ná að klára á „réttum“ tíma. Eini gallinn við þetta er sá að ég þarf að kenna krökkunum bókmenntir 20. aldar sem er ekki mín sterkasta hlið. En að vísu komst ég að því í dag að ég er samt töluvert klárari í þessu en þau. En þegar maður er að kenna bókmenntir 20. aldar þá er bara ein bók kennd, en það er hin bráðskemmtilega „Sögur, ljóð og líf“ eftir hinn bráðskemmtilega stílista Heimi Pálsson sem er best þekktur fyrir bækur sínar „Frásagnalist fyrri alda“ og „Straumar og stefnur.“ Þannig að þið getið ímyndað ykkur gleði mína þegar ég fékk að rifja upp þessa miklu gleði.

fimmtudagur, mars 20, 2003

Ég hræðist ekki hótanir þínar Jarlaskald!!!

miðvikudagur, mars 19, 2003

Ég hef ekkert bloggað af því að ég hef ekkert haft að segja!!!

þriðjudagur, mars 04, 2003

Ég var að sækja um vinnu í síðustu viku. Það kemur sennilega ekki mörgum á óvart að ég sótti um sumarstarf hjá Orkuveitunni. Ég held að við Nóri seum núna búnir að slá öll met.
Gaman gaman, ég get farið að rukka aftur á netinu. Eftirfarandi skulda mér pening. Maggi kr 1000, Gunni og Solla kr 2000, Kjarri og Laufey kr 2000. Takk fyrir
Lífið leikur mig grátt þessa dagana. Í gær var ég að missa bílinn minn í nokkra daga þar sem að hann fór í viðgerð (að sjálfsögðu fór hann ekki sjálfur, ég keyrði hann). Þannig að þessa vikuna þarf ég líklega að treysa á almenningssamgöngur eða fara ekki úr húsi. Ég er ekki frá því að seinni hugmyndin sé betri.
Þorri frændi átti afmæli í gær. Mig langar til þess að óska litla kúti til hamingju afmælið.Mér finnst svo stutt síðan við notuðum hann til þess að mæla hitastig lækja og áa. Snökt snökt, hvað tíminn líður hratt. „sun goes up, sun goes down, and the cat's in the craddle...“ megi þeir skilja sem vilja.

laugardagur, febrúar 22, 2003

Svo að lokum ætla ég bara að taka það fram að ég er búinn að taka þrekprófið sem ég minntist um daginn. Ég og Þorri frændi hlupum nákvæmlega það sem þurfti og ekki skrefi lengur. Af hverju að hlaupa of mikið ef maður þarf þess ekki???
Svo vil ég óska þeim Sollu og Hrafnhildi til hamingu með daginn en þær voru báðar að útskrifast í dag.
Algjört svindl!!! Á morgun á ég afmæli (23.feb) en það er ekki það sem er algert svindl. Nei, svindlið er að einhverjir óvandaðir menn hjá almanaki Háskólans ákváðu að troða einhverjum asnalegum konudegi á afmælisdaginn minn. Maður á einn dag á ári og mér finnst alger óþarfi að ég þurfi að deila deginum mínum með einhverjum konum.
Ég hef verið ásakaðu u maumingjablogg að undanförnu. Ég get að vísu ekki neitað því en ég ætla að reyna að bæta úr því á næstunni. Það er nefnilega heilmikið að gera hjá mér í skólanum á næstunni og þess vegna fer maður að gera eitthvað allt annað á meðan en að læra.

miðvikudagur, febrúar 12, 2003

Ég skoraði á æfingu á mánudaginn en Helgi bróðir ekki. Mitt lið vann hans lið með einu marki eftir að hafa verið 9 mörkum undir. Ég skoraði næst síðasta og jafnframt jöfnunarmarkið. Það braut andstæðinginn algerlega niður. Það er einhver mesta niðulæging sem menn þekkja að láta mig skora hjá sér. Næstum því jafn vont og þegar Helgi bróðir skorar!
Ég átti að vera í þrekprófi í kvöld með öðrum dómurum en varð að afboða mig vegna þess að ég er að vinna og líka vegna þess að ég er með hælsæri. Ég er feginn því að vera að vinna vegna þess að hælsæri er einhver lélegasta afsökun sem maður getur komið með. Ekki vegna þess að það sé ekki gild afsökun, hælsæri getur verið fjandi sárt, en það hljómar samt alltaf eins og léleg afsökun. En ég er ekki hræddur við þetta próf enda er í fantaformi sem endranær!!!
Ég vil benda öllum á það að ég á bráðum afmæli. Blóm og kransar afþakkaðir en pakkar vel þegnir!
Núna er ég að horfa á þrjá landsleiki í einu: England-Ástralía, Holland-Argentína og Skotland-Írland. Þetta er ólíkt skemmtilegri vinna en viðskiptafræðiverkefnin!
Ég eyddi allri síðustu viku í að fara yfir verkefni í viðskiptafræðikúrs sem heitir Tjáning og samskipti. Markmiðið með þessum kúrsi er að kenna fólki hvernig á að tjá sig í atviinlífinu og satt að segja veitir ekki af. Ég ætla ekki að segja nákvæmlega hvernig þetta var, enda held ég að það sé bannað. Einkunnirnar voru á bilinu 0.5 - 9.0 og voru frekar í lægri kantinum. Þar mátti finna setningar á borð við „en það skipti ekki máli því þetta voru bara lúðar úr MORFÍS...“, enda eru allir á skattinum þverir og vitlausir og viðurkenna aldrei mistök sín“ og „enda eru alþingismenn almennt ekki mikið fyrir augað.“ Þessir textar voru úr ímyndaðri skýrslu sem átti að sannfæra lesendur um mikilvægi góðra boðskipta í atvinnulífinu. Þessar setningar (og fleiri) sannfærðu mig einna helst um að ekki væri vanþörf á því að kenna þetta námskeið!!!

miðvikudagur, janúar 29, 2003

Æfing um daginn. Skoraði ekkert. Helgi bróðir skoraði hins vegar tvö, en slíkt hlítur að vera fyrirboði válegra tíðinda. Þess vegna kæmi mér ekki á óvart þó að eldgos hæfist einhvers staðar, Bandaríkin ráðist á Írak og Sjálfstæðisflokkurinn sigri í alþingiskosningunum!...
Hmmmm. Ég er í vinnunni núna og er að reyna að finna EINA stöð sem sýnir handbolta beint frá HM. Ég er með u.þ.b. 1000 stöðvar og engin þeirra sýnir handbolta. Aldeilis sem að heimurinn stendur á öndinni yfir þessum mikla viðburði...

miðvikudagur, janúar 22, 2003

Gunni, ég byrja í vinnunni 2. eða 3. feb. Þá fara verkefnin að hrúgast inn. Mér skilst að þetta séu ca. 150 nemendur þannig að það verður nóg að gera.
Vinkona mín, sem ég ætla ekki að nefna, en ég kalla hér Fr. Ping Pong neitar því alltaf að hún sé ólétt þó svo að allir aðrir viti betur. Hins vegar benda nánast allar hennar aðgerðir og orð til þess, og því þýðir ekkert að þræta lengur. Til að byrja með hætti hún að reykja upp úr þurru og sagðist „bara vera leið á því.“ Svo selja þau hjónin litlu Micruna sína og kaupa sér stóran fjölskyldubíl í staðinn (mig minnir að það sé station bíll). Hún er alltaf að kvarta yfir því að sér sé svo illt í bakinu, og ég man ekki betur en að hún hafi verið að kvarta yfir því um daginn að henni væri svo flökurt. Það sem sannfærði mig svo endanlega var þegar hún sagði mér um daginn að hún væri að hætta í annari vinnunni sinni, vinnu sem hún hefur verið í lengi á vinnustað sem hún elskar eins og eigið barn (hahahaha), vegna þess að það væri of erfitt og vegna þess að hún vildi ekki vinna þarna þegar hún væri orðin amma. Þetta finnst mér benda til þess að hún sjái fram á það að hún sé að verða mamma, annars hefði hún orðað þetta öðruvísi. Fr. Ping Pong neitar alltaf harðlega þegar þetta er borið á hana, en segið mér eins og er, er nokkur vafi á þessu í ykkar huga???
Fór aftur á æfingu hjá Ótta á mánudaginn. Skoraði ekki. Lífið er aftur orðið eðlilegt.

miðvikudagur, janúar 15, 2003

Fór á æfingu hjá Ótta á mánudaginn. Það eru í sjálfu sér ekki tíðindi en ég skoraði hins vegar og það eru allmikil tíðindi á þessum bæ.
Þá er Arnór farinn til útlanda ásamt Þverbrekkingnum og öðru fríðu föruneyti. Magnús er ekki partur af fríða föruneytinu, heldur er hann annað föruneyti. Ég óska þeim góðrar ferðar og vona að þeir kaupi eitthvað fallegt handa mér!
Þá er ég loksins búinn að fá fyrstu einkunina mína, en ég fékk 8,5 í öðru faginu sem ég tók. Eins og áður hefur komið fram þá man ég ekki einu sinni hvað þetta heitir en ég held samt að ég geti verið ánægður. Núna er ég að reyna að byrja á lokaverkefninu mínu sem mun líklega snúast um það að ég ætla að reyna að búa til kennsluefni þar sem fjallað er um börn og unglinga í fornsögum. Meira veit ég ekki í bili en ég mun láta vita hvernig gengur.

miðvikudagur, janúar 08, 2003

Jæja er ekki kominn tími til að láta eitthvað í sér heyra. Fyrst af öllu ætla ég að óska öllum gleðilegs árs. Ég strengdi það áramótaheit að verða ekki duglegri að blogga á þessu ári og ég tel að ég fari auðveldlega með það. Annars sá ég í kommentunum mínum að Mummi hefur saknað skrifa minna mikið og er ég ekki hissa á því vegna þess að ég veit að Mummi er minn mesti aðdáandi. Svo sá ég að Skúli svaraði auglýsingunni minni og bauðst til þess að koma með mér að kaupa jólagjafir. Ég sá ekki betur en að þetta hafi verið skrifað vel eftir áramót, en á hinn bóginn má segja að ekki sé ráð nema í tíma sé tekið og það er aldrei of snemmt að kaupa jólagjafir. Því býð ég Skúla velkominn með mér í bæinn á næstunni að kaupa jólagjafir. Eina skilyrðið er að engar jólagjafir verði keyptar!!!