fimmtudagur, september 09, 2004

Við Auður lögðum land undir fót um helgina og skelltum okkur vestur til Bíldudals (reyndar fórum við nú meira í norður en í vestur en látum það liggja á milli hluta).
Tilefnið var að sjálfsögðu árshátíð vestfirskra harmónikkuleikara sem einmitt fór fram á Bíldudal. Við misstum því miður af ballinu því það var að sjálfsögðu löngu uppselt en pöntuðum miða á árshátiðina 2008 sem fram mun fara á Hólmavík. En annars skemmtum við okkur konunglega á leiðinni. Hvernig er annað hægt þegar keyrt er fjarða á milli í niðamyrkri og rigningu á malarvegum sem maður hefur aldrei séð áður.Enda tók ferðin sjö tíma og nánast kominn tími til að snúa aftur heim þegar við vorum loksins komin á staðinn. Annars var ágætt að vera á Bíldudal en mikið óskaplega er leiðinlegt að keyra á milli. Mín kenning er sú að ástæða brottflutninga frá Vestfjörðum sé sú að fólk skreppur í Borgina til að sinna einhverjum erindum en nennir svo ekki að keyra til baka aftur og ákveður að vera frekar peningalaust og húsnæðislaust en að þurfa að keyra þessa skelfilegu leið til baka. Að keyra inn fjörð á milli hárra fjalla getur svo sem verið fallegt og skemmtilegt en við 18. fjörðinn fer gamanið að kárna og ég tala nú ekki hversu grátlegt það er að geta nánast teygt sig yfir fjörðinn en þurfa engu að síður að keyra 200 kílómetra til að komast yfir hann. Brúum Breiðafjörðinn eða skerum Vestfjarðakjálkann af og látum hann fljóta burt. Og hananú.
Ekkert nýtt að frétta úr Bold eða Grönnum. En hafið ekki áhyggjur ég mun láta vita um leið og eitthvað gerist.
Ég á að dæma tvo leiki á næstu dögum. HK-Breiðablik og HK-Stjarnan. Það má því segja að örlög Hk-manna séu í mínum höndum. Það fer um mig hrollur þegar ég uppgötva þau völd sem ég bý yfir. Það er gaman að vera valdamikill. (Reality slap) Ég er bara dómari og er þar af leiðandi úrhrak jarðarinnar. Það fæ ég oft að heyra á leikjum. Ég ætla að fara að leggja mig. Stimpla mig út kl. 17.00. Bless á meðan þeir sem lesa þetta, sem eru ekki margir. En þeir sem lesa þetta mega samt gjarnan skrifa smákommnet svo að ég viti af þeim.