miðvikudagur, ágúst 07, 2002

Btw. Ég er í vinnunni að horfa á myndina Weird Science. Gott dæmi um mynd sem að manni fannst góð í gamla daga en hefur aðeins misst sjarmann með árunum
Þessa stundina sit ég í vinnunni minni í gönguskónum mínum, blautri sundskýlu og með bláan leir í eyrunum (ég er reyndar í fleiri fötum, en þessi eru þau einu sem telja mætti einkennileg miðað við aðstæður). Þeir sem hafa unnið í Orkuveitunni vita hvað ég er að tala um. Í dag var farið í Reykjadal og „unnnið“ þar. Dagurinn byrjaði vel því að ég vaknaði við sms frá litla bílstjóranum okkar þar sem að hann tilkynnti mér að hann kæmi ekki í vinnuna þar sem að honum væri illt í hnénu. Hann á alla mína samúð enda meiddi ég mig einnig í hnénu í gær eftir langan og strangan eltingarleik við kindur, sem að lauk því miður með sigri kindanna. Ég hfndi mín að vísu með því að fá mér lambakjöt um kvöldið. Ég hins vegar harkaði af mér, enda öllu vanur í hnémeiðslum og mætti galvarskur í dag. Við byrjuðum á því að mála einhvern lítinn kofa, en ég afsakaði mig frá allri málningarvinnu og tók að mér að viðra dýnurnar. Svo var grillað og lagst ofan í náttúrulega heita laug sem var að vísu ekki mjög heit þar til að snillingurinn Mummi tók að sér að stjórna stíflunarframkvæmdum sem tryggðu öðrum gestum nægt heitt vatn. Hins vegar sýndu aðrir honum ekkert nema vanþakklæti og eiga ekkert nema skammir skilið!!! Ástæðan fyrir því að ég er enn þá í sundskýlunni er sú að þegar ég ætlaði að skipta aftur yfir í hefðbundnari undirföt fylltist allt af krökkum á aldrinum 9-13 ára þannig að það var hvergi hægt að vippa sér úr buxunum. Þó að ég sé frjálslyndur maður og stoltur af líkama mínum fannst mér ekki við hæfi að bera mig allan og ákvað því frekar að halda mig við sundskýluna. Hvað bláa leirnum viðkemur þá er það til siðs að maka sig allan út í bláum hveraleir og sigrar sá er nær að þekja stærstan hluta líkama síns. Palli var sigurvegari þessa árs og hlaut því viðurkenninguna „Bjarki 2002“ Ég reyndi eins og ég gat að stela titlinum á síðustu stundu með því að éta leirinn en sú tilraun hlaut ekki náð fyrir augum dómnefndarinnar. Veslunarmannahelgin var frekar róleg hjá mér. Á föstudeginum fórum við Auður til systur hennar og horfðum á leiðinlegustu bíómynd sem að ég hef séð í langan tíma. Hún heitir „The deep end“ og vara ég hér með alla við því að horfa á þessa mynd. Á laugardeginum fórum við hins vegar að dæmi Arnórs og héldum austur fyrir fjall og hittum hann þar. Ég ætla ekki að koma með nánari lýsingu á því þar sem að Arnór er með ansi grafískar lýsingar hjá sér sem að ég hef engu við að bæta. Á sunnudeginum fórum við aftur til systur Auðar og spiluðum Pictionary og þar komst ég að því að Auður er eina stelpan sem ég þekki sem teiknar verr en ég. Það kom hins vegar ekki í veg fyrir að við ynnum öruggan sigur!!!