miðvikudagur, apríl 26, 2006

Ég var næstum búinn að svíkja loforðið mitt um að blogga á hverjum degi strax á öðrum degi. En þar sem ég sit núna í vinnunni minni í Getraunum og bíð eftir því að nálgast úrslitin úr leik ÍR og Hauka í B-deild Deildarbikar kvenna þá hlýt ég að nota tækifærið til að standa við loforðið. Ég hef unnið núna í Getraunum í 5-6 ár og satt að segja er ég orðinn örlítið leiður á því. Þegar ég byrjaði hérna þá var þetta fínt starf með skóla, mæta 1-2 í viku, fylgjast með leikjum dagsins og fara svo heim. Með tímanum þróaðist það þannig að ég tók að mér alla miðvikudaga og nánast undantekningalaust unnið alla miðvikudaga. Vinna hefur breyst töluvert á þessum tíma, leikjum hefur fjölgað og þar af leiðandi er meira að gera. Ég hef lýst þessari vinnu oft þannig að ég fái borgað fyrir að horfa á fótbolta en satt að segja er það ekki alveg rétt. Vissulega fylgist ég með leikjunum sem eru í sjónvarpinu en yfirleitt er það mikið að gera og margt sem þarf að fylgjast með að ég næ ekki að horfa á neina leiki almennilega. Þá lendir maður oft í því, sérstaklega á veturna, að þurfa að hringja í íþróttahús til að uppfæra stöðuna í handbolta- og körfuboltaleikjum og fátt veit ég leiðinlegra en að hringja endalaust í misgeðgóða húsverði til að fá upplýsingar. Þá hefur vinnutíminn líka breyst þannig að ég þarf alltaf að mæta kl. 4 og fer í fyrsta lagi kl. 10 og þarf að vera lengur ef enn þá eru leikir í gangi, eins og í kvöld. Áður fyrr var það þannig að maður mætti bara 5 mínútum áður en fyrsti leikur dagsins hófst og fór svo þegar síðasti leikur var búinn og maður var búinn að ganga frá öllu. En vegna ákveðinna breytinga í vinnunni þarf maður að lágmarki að vera til 10 sem getur verið þreytandi þegar nákvæmlega ekkert er að gera. Hvers vegna er ég að röfla þetta allt saman? Jú, vegna þess að mér hundleiðist þessa stundina og væri alveg til í að vera heima með Auði eyða deginum á annan hátt. En stundum þarf maður víst að gera annað en það sem mann langar til. Því miður.

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Þetta er einfaldlega svalasti maður í heimi

Ég rak augun í það áðan að Davíð Örn Sigþórsson hefur skrifað athugasemd hjá mér um daginn varðandi frægð mína sem fyrirsæta og segir þar: "Oddbergur minn, ég er nú farinn að trúa nánast öllu upp á fyrrverandi bekkjarfélaga mína úr Hólabrekkuskóla. Sessunautur þinn, fyrrverandi, ætlar að sigra Idol á föstudaginn og hversvegna ættir þú ekki að geta orðið ofurfyrirsæta? Ég bara spyr?" Þar vísar hann til þess að sessunautur minn til 2-3 ára í Hólabrekkuskóla var enginn annar en núverandi Idol-stjarna Íslands, Snorri Snorrason. Af mér lærði hann margt um tónlist og söng þó að hann hafi enn ekki þakkað mér fyrir á opinberum vettvangi. Til að hefna mín á honum birti ég hér með upplýsingar um hann sem aldrei áður hafa birst opinberlega og munu eflaust skekja heimsbyggðina:

Engan hef ég séð sem var jafnlélegur í fótbolta og hann.

Hann átti auðvelt með að ljúga að mér og ég trúði öllu sem hann sagði mér.

Ég sá hann einu sinni skipta skapi og þá rauk hann á mann sem var 10 sm stærri og 25 kg þyngri en hann. Ástæðan var sú að hinn hafði ýtt Snorra harkalega utan í vegg þar sem hann rak höfuðið í járnsnaga. Ef mig misminnir ekki fékk Snorri heilahristing sem gæti útskýrt þessi ofsalegu viðbrögð. Þar með hverfur sú goðsögn að hann sé alltaf jafnrólegur.

Uppáhaldslagið hans á þessum tíma var Take My Breath Away með hljómsveitinni Berlin úr myndinni Top Gun. Ég varð sárhneykslaður yfir því að hann skyldi ekki taka það í Idolinu.

Einu sinni spilaði hann fyrir mig House of the Rising Sun á hljómborð. Þá hafði ég aldrei heyrt lagið áður. Ég hef því verið á einkatónleikum með honum.

Meira man ég nú ekki í augnablikinu en ef eitthvað rifjast upp fyrir mér verð ég fljótur að setja það hér inn til að klekkja á honum.

mánudagur, apríl 24, 2006

Ég byrjaði að skrifa færslu um daginn en kláraði hana ekki. Svo hélt ég áfram að skrifa í dag og kláraði hana. En þar sem ég byrjaði á henni fyrir nokkrum dögum birtist hún ekki efst á síðunni. Ég er bara að nefna þetta svo að þið missið ekki af henni, hún er nefnilega töluverð snilld.