miðvikudagur, desember 18, 2002

Þetta er alger snilld. Minnir á gamla góða tíma með Gunna og Kjarra.
Ég á eftir að kaupa allar jólagjafir og gera allt fyrir jólin. Mig vantar einhverja sjálfboðaliða til þess að fara með mér niðrí bæ, skoða jólagjafir, kaupa ekkert og fara svo á Subway eða KFC og fá sér að borða.
Ég er í vinnunni núna, þurfti að fara beint eftir prófið sem er ekki mjög skemmtilegt. Svo er ekkert skemmtilegt að horfa á í sjónvarpinu bara Liverpool-Aston Villa í bikarnum og allir sem hafa eitthvað vit á fótbolta vita að það er ekkert skemmtilegt að horfa á Liverpool!!!
Jæja þá er ég búinn í prófum eftir langa og stranga törn. Tvö próf á þremur dögum og ekki nema rúmar þrjár vikur til lestar. Sem er ekki of mikið þegar maður þarf að lesa samtals 400 bls!!! Ekki lítið það. Ég get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað þessir kúrsar heita sem ég var í sem er nú frekar sorglegt. En mér gekk ágætlega held ég.

miðvikudagur, desember 04, 2002

Snilldarmatur á Argentínu í gær. Því miður varð ég ekki var við neinn af mínum með hjólbörurnar og þó hefði ekki af veitt. Kostaði bara 3990 á mann og þar sem ég átti gjafabréf upp á 8000 kr passaði þetta fullkomlega. Eina kvörtunarefnið var að lítil kók í gleri kostaði 300 kall.
Ég er að horfa á Die Hard í vinnunni. Er ekki Alan Richman besta/versta illmenni í heiminum.

þriðjudagur, desember 03, 2002

Ég ætla ekki að skrifa neitt ljótt um Auði núna enda fékk ég hörð viðbrögð síðast. Svo átti hún líka afmæli í gær og því ekki við hæfi að tala illa um hana. Enda ekkert ljótt um hana að segja. Ég var í skírnarveislu í gær hjá Helga bróður og Önnu Kristínu. Stelpan fékk nafnið Anna Alexandra og ber því tvöfalt drottningarnafn. Ekki slæmt það! Hún er nefnd eftir eftir Ömmu sinni sem hefði átt afmæli í gær. Í kvöld ætlum við Auður út að borða á Argentínu og að sjálfsögðu býð ég vegna þess að ég er svo mikill höfðingi. Að vísu er aðalástæðan sú að ég á gjafabréf sem ég vann á einhverri útvarpsstöð fyrir nokkrum árum en hef aldrei notað. Mér skilst að það sé byrjað jólahlaðborð hjá þeim, þannig að ég reikna með því að vera keyrður úr á hjólbörum þegar kvöldið er úti.

föstudagur, nóvember 29, 2002

Ekki trúa neinu af því sem ég var að skrifa, ég er enn þá kóngur á mínu heimili, eða þ.e.a.s. heimili foreldra minna. Núna þegar stendur ekki yfir mér, get ég skrifað það sem ég vil. Múhahahahahahaha!!!
Ehemm. Ég þarf víst að leiðrétta svolítið. Ég er víst ekki búinn að temja hana Auði nógu vel. Í gærkveldi fór hún eitthvað út án mín og sendi mig einan í bíó í staðinn. Mér varð það víst á að sýna henni þessa síðu og hún var alls ekki ánægð með það sem hún sá. Núna sit ég hérna blár og marinn eftir hana og reyni að biðjast afsökunar.

miðvikudagur, nóvember 27, 2002

Ég er svo mikill kóngur!!! Ég minntist á það við Auði um daginn að bílinn minn væri skítugur og það þyrfti eiginlega að þrífa hann. Svo var það einhvern tíma að ég var í vinnunni og lánaði Auði bílinn. Þegar ég fékk hann aftur var búið að þrífa hann bæði að utan og innan. Ég er greinilega búinn að temja hana nógu vel!!!

þriðjudagur, nóvember 19, 2002

Ég stóð í röð í tæpa tvo tíma til þess að fá miða á Nick Cave tónleikana sem verða 9. nóv. Nú held ég að Arnór og Helgi bróðir skuldi mér BigTime. Það var ískalt og rigning en það var þess virði þegar ég fékk einn af síðustu miðunum. Alger snilld!!!

laugardagur, nóvember 16, 2002

Ég gleymdi að minnast á það að Maggi er búinn að borga mér líka. Nú eru allir skuldlausir við mig og ég hef ekkert til að nöldra yfir :(
Ég sit núna í vinnunni og læt mér leiðast. Nú hef ég oft montað mig af vinnunni minni og ekki að ástæðulausu. En núna er ég með tvo fótboltaleiki í sjónvarpinu. Annars vegrar er Hereford-Wigan í enska bikarnum og hins vegar er eitthvað sem að ég held að sé leikur í Dubaienska bikarnum!!! Annars vegar er lið í bláum og hvítum búningum og hins vegar lið í hvítum og bláum búningum. Hversu lágt er hægt að leggjast, horfa á Dubaienskan fótbolta!!!

föstudagur, nóvember 15, 2002

Ég sá í kommentunum að Þorri frændi hefur afneitað mér!!! Hmmmm. Við erum væntanlega að fara að spila fótbolta saman þannig að það er spurning hvort hann ætti ekki að hafa mig góðan. Mér skilst að það geti verið ansi óþægilegt að fá takka í hnéskelina!!!
Hmmm. Ég gleymdi annars að óska Gunna og Sollu til hamingju. Til hamingju Gunni og Solla.
Gunni var að hringja áðan og tilkynna mér að hann væri nýgiftur!!! Hvað er eiginlega í gangi? Hvað varð um steggjunina? Hvar er stripparinn? Af hverju er verið að svíkja okkur um það sem að við eigum rétt á samkvæmt ævafornum hefðum? Ég er alveg brjálaður
Arnór var að kvarta yfir því að sagan mín væri ekki fyndin lengur og að ég þyrfti að skrifa eitthvað nýtt. BULL!!! Sagan mín er enn þá fyndin og ég vil ekki heyra annað.

miðvikudagur, nóvember 06, 2002

Skemmtileg saga. Ég fór áðan að kaupa peru fyrir bílskúrinn, enda var pabbi búinn að nöldra í mér í rúma viku. Ég fór loksins í einhverja ljósabúð og bað um peru og fékk hana með það sama. Ég gekk út með peruna í poka, nokkuð ánægður með sjálfan mig. Þegar ég stíg inn í bílinn hringir síminn og ég sest niður til þess að svara honum og loka bílhurðinni á eftir mér. En ég fattaði ekki að ég hélt enn þá á pokanum í hendinni og tókst að skella bílhurðinni á peruna. Að sjálfsögðu mölbrotnaði hún og ég þurfti að fara aftur inn í búðina og útskýra fyrir afgreiðslumanninum hvað hefði komið fyrir. Þegar hann hætti að hlæja lét hann mig fá nýja peru og bauðst til þess að fylgja mér út í bíl svo að ég færi mér ekki að voða á leiðinni.

þriðjudagur, nóvember 05, 2002

Núna var Kjarri að borga mér og þá er bara Maggi eftir. Það er verst að þegar hann er búinn að borga þá hef ég ekkert til þess að skrifa um!

fimmtudagur, október 31, 2002

Ég ætlaði líka að minnast á það að Líney er búin að borga mér þannig að núna eiga bara Kjartan og Þverbrekkingurinn, ef brekking skyldi kalla, eftir að borga. Skammist ykkar mannfýlur!!!
Það eru asnalegar kennslubækur sem að ég er að lesa fyrir þetta verkefni mitt. Þær eru allar á útlensku, en ekki svona útlensku sem er alltaf í sjónvarpinu heldur öðru vísi útlensku sem er allt of erfitt að skilja.
Sá litlu frænku mína í gær. Þar sem að ég er mikill karlmaður ætla ég ekki að lýsa henni hér enda eiga karlmenn ekki að kunna lýsingarorð sem lýsa litlum börnum. En svo að ég vitni í pabba „Hún er alveg eins og pabbi hennar var. Gerir ekki annað en að drekka og sofa.“
Ég sit núna niðri Háskóla og er að gera eitthvað leiðinda verkefni sem ég á að skila á morgun. Þó að það sé hundleiðinlegt að vinna svona verkefni þá er ágætt að hanga í skólanum aftur. Fór á kaffistofuna í hádeginu og hitti þar sama fólkið og sat þar þegar ég byrjaði í skólanum fyrir 6 árum síðan. Og ekki nóg með það heldur eru alltaf sömu sögurnar jafn vinsælar. Til dæmis er fátt skemmtilegra en að heyra Bergstein sagnfræðinema (sem er reyndar nýorðinn BA) segja söguna af Gumma busa. Hér verður ekki farið nánar út í þá sögu, en þeir sem vilja heyra hana er bent á að fara á kaffistofuna í Árnagarði og leggja þar við eyrun.

þriðjudagur, október 29, 2002

Jibbíííííííííííí!!! Ég er orðinn alvöru frændi. Helgi bróðir og Anna Kristín eignuðust stelpu klukkan 23:02 í gærkvöldi (28. okt)

mánudagur, október 28, 2002

Hún Jóna, systir Laufeyjar og Sollu á afmæli í dag. Hún bauð mér í afmælið sitt og ég ætlaði að fara en konan mín bannaði mér það. Hún vill ekki að ég sé að þvælast til útlanda án hennar. Hún treystir mér víst ekki. En annars hefði ég komið. En til hamingju með afmælið Jóna.
Ég er um það bil að verða frændi á næstu tímum. Hún mágkona mín er á spítalanum núna að eignast barn. Með guðs hjálp verður barnið líkt henni en ekki Helga bróður!

föstudagur, október 25, 2002

Eftirtaldir eru búnir að borga: Lilja og Arnór. Sem þýðir að Þverbrekkingurinn, Líney og Kjartan skulda enn þá. Ég er að vísu hættur við að senda stóra menn heim til Magga til þess að heimta peningana, heldur tel ég vænlegra að gefa honum ótæpilega í staupinu. Ég treysti honum alveg til að skaða sig meira sjálfur en aðrir gætu skaðað hann.

fimmtudagur, október 24, 2002

Mér leiðist svo mikið að gera ekki neitt að ég ákvað frekar að fara út að hlaupa en hanga heima og spila CM. Hljóp 7 km og fór svo í sund. Hélt svo upp á heilsuræktarátakið með því að fá mér feita pulsu og Kók á Select. Sæmilegt það.
Nú ætla ég að verða leiðinlegur og nota þetta blogg til þess að rukka fólk. Eftirtaldir skulda mér peninga vegna afmælisgjafa: Kjartan 3000 kr, Þverbrekkingur 3000 kr + 998536 kr vegna prófarkarlesturs, Líney 3000 kr, Lilja 1000 kr, afmælisbarnið 1500 kr. Stórir menn frá fyrirtækinu „We break thumbs“ verða sendir heim til ykkar fljótlega til þess að innheimta. Takið vel á móti þeim :)
Loksins, loksins. Commentin virkuðu hjá mér. Heiðurinn af því fær hún Lilja sem að fylgdi mér í gegnum allt ferlið. Húrra!!!
Mig langar bara til þess að óska Arnóri Nóra til hamingju með afmælið. Ekki hélt ég að svona lítill maður gæti náð svona háum aldri.

miðvikudagur, október 23, 2002

Er núna að horfa á Commando í vinnunni. Ég á reyndar ekki ekki að gera það, en hverjum er ekki sama. „Remember when I told you I'd kill you last? I lied“ Gargandi snilld!!!
Ætla að reyna að koma commentum aftur á sinn stað. Ég kann ekkert á þetta en ef að Lilja gat það á hjálpar þá hlýt ég að geta það líka.
Annars varð ég fyrir miklum vonbrigðum með strákana í gær. Ég hélt að ákveðið hefði verið að hafa þriðjudagskvöld Kanakvöld. Ég henti konunni út og æfði mig heima í tvo tíma, en svo heyrði ég ekki í neinum og því varð ekkert úr kvöldinu. Getur verið að menn séu orðnir hræddir???
Ég sit núna í vinnunni og var að horfa á Man. Utd og Olympiakos. Það er svo sem ekkert sérstakt um þennan leik að segja nema að Man. Utd. vann öruggan sigur. Það er ekki ætlun mín að tala mikið um fótbolta hérna, heldur frekar þá skemmtilegu staðreynd að ég var að sitja í vinnunni og horfa á leikinn. Og það besta er að ég þarf ekki að stelast til þess, heldur er ætlast til þess af mér að ég horfi á fótbolta!!! Ég veit að flestir sem lesa þetta vita þetta og margir hafa einmitt sagt við mig að þeir öfundi mig af þessu starfi. Við þá hef ég bara þetta að segja „gott á ykkur.“

þriðjudagur, október 08, 2002

Mummi er ekki enn þá búinn að minnast á hvort hann fann Mark Eaton peysu í Mall of America. Hann er eitthvað að tala um að hann sé ekki bjartsýnn fyrir mína hönd og ég get vel skilið það. Það er alls ekki ólíklegt að allar Mark Eaton peysurnar séu uppseldar í Minnesota, enda var Eaton mjög vinsæll þar!!! En ég vonast til að heyra frá honum fljótlega.

miðvikudagur, október 02, 2002

Jæja er þá ekki best að fara að reyna að segja eitthvað af viti hérna. Það er víst orðið ansi langt síðan síðast og ýmislegt hefur á daga mína drifið síðan síðast. En ég nenni bara ekki að segja frá því öllu hérna, enda hafa aðrir menn, mér ritfærari þegar skrifað eitthvað um það annars staðar. Ég ætla bara að nefna það að hann Sjonni er mikill öðlingur, en hann nennti að keyra mig upp í Grafarvog úr afmæli Dengsa og Nóra. Afmælið var annars alger snilld og eiga þeir félagar heiður skilinn. Ég ætla ekkert að tala um ritgerð Densa frá Írlandsför hans, enda hafa nógu margir gert það. Gaman að heyra að Mummi er enn þá að hugsa um Mark Eaton peysuna mína og ég vona að hann fari að koma sér í Mall of America. Ég ætla einnig að minnast aftur á Hauk, því hann var að senda mér SMS og segist ætla að minnast mín í ævisögu sinni. Það verður gaman að vita hvað hann gerir ef ég minnist á hann aftur. Kannski verð ég einkaerfingi hans!!! Ég ætla ekkert að minnast á bikarleikinn um daginn enda sorgarsaga. Ég ætla bara að vitna í Dengsa þegar hann sagði „Kjartan Sturlaugsson er lélegasti markmaður á Íslandi.“ Ég hefði ekki þorað að segja þetta með Kjartan standandi fyrir aftan mig, en Dengsi gerði það.

föstudagur, september 27, 2002

Loksins loksins... tókst mér að fá þetta til þess að virka. Nú þarf bara einhver gáfaður maður (eða bara Nóri) að hjálpa mér að fá commentin aftur
Þetta hlýtur að virka núna!!!

miðvikudagur, september 25, 2002

Veit einhver hvernig á að laga þetta

mánudagur, september 23, 2002


Þetta er dasl sem að virkar ekkert!!!
Ég ætlaði bara að óska honum Dengsa til hamingju með afmælið en hann er einmitt aldarfjórðungs gamall í dag. Til hamingju Dengsi

föstudagur, september 20, 2002

Svo ætla ég líka að minnast á hann Hauk, vin minn. Að vísu er ég ekki viss um að hann lesi þetta, enda gerir hann ekki annað en að dissa blogg, en nú getur hann ekki dissað mig fyrir að hafa ekki minnst á hann!!!
Og líka benda fólki á að yndið mitt, hún Lilja er líka kominn með blogg.
Bara að minna Mumma á Mark Eaton peysuna mína!!!
Jæja þá er ég kominn aftur vegna mikillar pressu frá vinum mínum og öðrum sem hafa gaman af því að lesa þetta (þeir eru ekki margir). Sérstaklega vil ég þó þakka Mumma fyrir að skoða síðuna mína á hverjum degi. Það er ekki síst hans vegna sem að ég held þessu áfram. Annars er helsta ástæðan fyrir því að ég skrifa svona sjaldan sú að það er ekki mikið að gerast hjá mér annað en svefn, át og svo smá skóli inn á milli. Ég var að vísu að fá boð um að kenna við ónefndan framhaldsskóla í Reykjavík, en þann skóla á maður helst ekki að nefna með nafni. Það er að vísu ekkert ákveðið enn þá, en ef að boðið stendur enn þá í næstu viku þá reikna ég með því að taka því. Ég er nefnilega þannig maður að ég get ekki séð svo margar kvaldar sálir á einum stað að ég reyni ekki mitt besta að bjarga þeim frá þeirri glötun sem þessi litlu skinn eru að stefna sér í. En nóg um það í bili. Nú veit ég að margir sem lesa þetta lesa einnig önnur blogg og gætu þar hafa lesið um sumarbústaðaferð sem við fórum í eina helgina í september. Það væri nú ekki í frásögur færandi nema vegna þess að illar tungur (eða illir fingur) hafa verið að blaðra eitthvað um að kjötið sem að ég grillaði ofan í okkur skötuhjúin hafi ekki farið nógu vel ofan í okkur og að við höfum þurft að flýja vegna bráðrar magakveisu. Þá tala einhverjir um að ég hafi eytt kvöldinu á klósettinu heima hjá mér. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Ég get fullvissað alla um að ég skildi ALLT kjötið, bæði það sem ég borðaði og það sem að ég borðaði ekki, eftir í bústaðnum. Ég get ekki sagt það nógu oft að kjötið var dásamlegt á bragðið, svolítið framandi að vísu og hefði hugsanlega verið betra árið 1965 þegar skepnunni var slátrað. En hins vegar var það ekkert sem að hálft kíló af hvítlaukssósu gat ekki bjargað. Hins vegar neita ég því ekki að ekki hefði verið verra að hafa einnig eins og hálft kíló af Season All rétt til þess að bragðbæta kjötið aðeins. En nóg um það að sinni. En sem sagt, okkur Auði varð ekki meint af og erum bæði heil heilsu.

miðvikudagur, ágúst 28, 2002

Ég var að minnast á það áðan að ég hefði keypt mér nýjan síma. Ef að einhver vill fá síma þar sem sést bara 2/3 af skjánum þá endilega látið mig vita.
Ég gleymdi alveg að minnast á Mumma í blogginu mínu. Það var ljótt af mér enda er Mummi einn í hinni stóru Ameríku og er loksins búinn að setja hlekk á mig á síðuna sína. En hann ætlar að kaupa handa mér Mark Eaton peysu ef hann finnur svoleiðis. Ég óska Mumma góðs gengis í USA og hlakka til að lesa meira um ævintýri hans.
Af því að ég hef ekkert að segja ætla ég bara að hlaða svona drasli hérna!!!

Which Trainspotting Character Are You?


Er ekki frábært að vera atvinnulaus. Það finnst okkur Nóra allavegana. Mítt eina skylduverk þessa dagana er að vakna með Auði og skutla henni í skólann, en eftir það get ég farið heim aftur og sofið lengur. Það geri ég líka! Þegar ég vakna aftur fer ég svo að glápa á sjónvarpið og reyni að þrauka daginn einhvern veginn. Það er ekki auðvelt en ég gef mig ekki og með hjálp góðra manna tekst mér yfirleitt að komast hjá því að gera nokkurn skapaðan hlut. Í gær tókst mér að verða 100.055 kr fátækari en ég var þegar ég vaknaði. Ég borgaði tryggingarnar af bílnum tvo visareikninga, keypti nýjan síma og gerði upp steggjapartýið hans Ása. Þegar ég var búinn að því var ég búinn að eyða 99.400 kr. Þá hringdi Arnór og plataði mig með sér á KFC. Þar pantaði ég fyrst fyrir 595 kr en ákvað svo að bæta við gosi bara til þess að komast yfir 100.000 kr. Sæmilegt það. Annars var ég að finna mér smá verkefni sem ég þarf að klára fljótlega. Ég var að taka aðeins til heima (í alvöru) og fann BA-ritgerð Þverbrekkingsins sem að ég var víst búinn að lofa að lesa yfir. Ég fékk hana í maí og því er kannski kominn tími til þess að kíkja eitthvað á hana. Sem betur fer fyrir mig hefur Þverbrekkingurinn verið fullur síðan hann lét mig hafa ritgerðina og hefur því ekki angrað mig mikið. Ég var aðeins byrjaður á henni og ÞVÍLÍK LEIÐINDI. Ég er ekki að dissa ritgerðina sem slíka, enda er ég viss um að hér er um brautryðjendaverk á sviði sálfræðinnar að ræða. En fyrir meðaljón eins og mig, sem ég er óumdeilanlega er þessi ritgerð gersamlega óskiljanleg og það sem verra er; í henni er mikið talað um alls kyns raskanir, kvíðaraskanir og alls kyns svoleiðis rugl. Þegar maður les þetta er ekki laust við að maður kannist við þetta allt saman og maður verður bara þunglyndur við að lesa þetta. Kannski er Þverbrekkingurinn bara að afla sér framtíðarkúnna með því að dreifa þessari ritgerð!
Prófaði að taka þetta próf sem ég fann hjá Nóra. Er ekki eitthvað einkennilegt við þetta!

Who's your daddy?? Find out @ blackhole

miðvikudagur, ágúst 07, 2002

Btw. Ég er í vinnunni að horfa á myndina Weird Science. Gott dæmi um mynd sem að manni fannst góð í gamla daga en hefur aðeins misst sjarmann með árunum
Þessa stundina sit ég í vinnunni minni í gönguskónum mínum, blautri sundskýlu og með bláan leir í eyrunum (ég er reyndar í fleiri fötum, en þessi eru þau einu sem telja mætti einkennileg miðað við aðstæður). Þeir sem hafa unnið í Orkuveitunni vita hvað ég er að tala um. Í dag var farið í Reykjadal og „unnnið“ þar. Dagurinn byrjaði vel því að ég vaknaði við sms frá litla bílstjóranum okkar þar sem að hann tilkynnti mér að hann kæmi ekki í vinnuna þar sem að honum væri illt í hnénu. Hann á alla mína samúð enda meiddi ég mig einnig í hnénu í gær eftir langan og strangan eltingarleik við kindur, sem að lauk því miður með sigri kindanna. Ég hfndi mín að vísu með því að fá mér lambakjöt um kvöldið. Ég hins vegar harkaði af mér, enda öllu vanur í hnémeiðslum og mætti galvarskur í dag. Við byrjuðum á því að mála einhvern lítinn kofa, en ég afsakaði mig frá allri málningarvinnu og tók að mér að viðra dýnurnar. Svo var grillað og lagst ofan í náttúrulega heita laug sem var að vísu ekki mjög heit þar til að snillingurinn Mummi tók að sér að stjórna stíflunarframkvæmdum sem tryggðu öðrum gestum nægt heitt vatn. Hins vegar sýndu aðrir honum ekkert nema vanþakklæti og eiga ekkert nema skammir skilið!!! Ástæðan fyrir því að ég er enn þá í sundskýlunni er sú að þegar ég ætlaði að skipta aftur yfir í hefðbundnari undirföt fylltist allt af krökkum á aldrinum 9-13 ára þannig að það var hvergi hægt að vippa sér úr buxunum. Þó að ég sé frjálslyndur maður og stoltur af líkama mínum fannst mér ekki við hæfi að bera mig allan og ákvað því frekar að halda mig við sundskýluna. Hvað bláa leirnum viðkemur þá er það til siðs að maka sig allan út í bláum hveraleir og sigrar sá er nær að þekja stærstan hluta líkama síns. Palli var sigurvegari þessa árs og hlaut því viðurkenninguna „Bjarki 2002“ Ég reyndi eins og ég gat að stela titlinum á síðustu stundu með því að éta leirinn en sú tilraun hlaut ekki náð fyrir augum dómnefndarinnar. Veslunarmannahelgin var frekar róleg hjá mér. Á föstudeginum fórum við Auður til systur hennar og horfðum á leiðinlegustu bíómynd sem að ég hef séð í langan tíma. Hún heitir „The deep end“ og vara ég hér með alla við því að horfa á þessa mynd. Á laugardeginum fórum við hins vegar að dæmi Arnórs og héldum austur fyrir fjall og hittum hann þar. Ég ætla ekki að koma með nánari lýsingu á því þar sem að Arnór er með ansi grafískar lýsingar hjá sér sem að ég hef engu við að bæta. Á sunnudeginum fórum við aftur til systur Auðar og spiluðum Pictionary og þar komst ég að því að Auður er eina stelpan sem ég þekki sem teiknar verr en ég. Það kom hins vegar ekki í veg fyrir að við ynnum öruggan sigur!!!

miðvikudagur, júlí 31, 2002

Mummi er að segja frá því að hann hafi rifið tvö pör af gallabuxum á síðustu dögum og sé núna að verða gallabuxnalaus. Þeir sem hafa séð Mumma verða ekki hissa á þessu enda er maðurinn með afbrigðum stæltur, enda sigraði hann með yfirburðum í keppninni „Stæltasti rass Nesjavalla 2002.“ Að vísu vorum við bara þrjú í keppninni og við Mummi vorum aðallega með til þess að geta káfað á rassinum á henni Fjólu, en Mummi er engu að síður vel að sigrinum kominn. Annars hefur verið nokkuð mikið að gera hjá mér í djamminu að undanförnu. Nánari lýsingar á því flestu má finna hjá Nóra, en til þess að sjá var hjá mér má yfirleitt deila í sögurnar hans með 4. En það helsta sem hefur gerst hjá mér er þetta. Tvö vinnupartý, innflutningspartý hjá Gunna og Sollu þar sem að ég endaði með því að bjóða einhverjum Könum, sem ég hafði aldrei séð áður, með mér á djammið og borgaði inn á ball fyrir þau bara vegna þess að ég var með pening í vasanum. Ég kvartaði hástöfum yfir því að við skildum hafa mætt svona seint á ballið því að við náðum bara 2-3 seinustu lögunum. Þá var mér sagt að við hefðum verið þarna í rúma tvo tíma og verið dansandi allan tímann. Ég ætla aldrei að drekka tekíla aftur!!! Svo fór ég í stórt partý fyrir norðan þar sem að áfengið flaut í út um allt, út um munna og nef og hámenntaðir stærðfræðingar ákváðu að það væri góð góð hugmynd að stela bát og fara að sigla út á Eyjafjörðinn án þess að vera í björgunarvestum. Ég hefði haldið að þetta væri góð hugmynd, en fyrst að margir sprenglærðir stærðfræðingar reiknuðu út að þetta væri snjallræði, þá get ég ekki mótmælt því. Ein hugleiðing! Er þjóðerniskennd okkar Íslendinga að minnka. Þverbrekkingurinn tók með sér geisladisk norður þar sem m.a. var að finna íslenska þjóðsönginn. En í hvert skipti sem að við reyndum að spila hann vorum við púaðir niður og heimtað að það yrði slökkt á þessu rugli!!! Hvað er að fólki?

fimmtudagur, júlí 11, 2002

Fróðir menn segja mér að nú séu orðnar tvær vikur síðan ég bloggaði eitthvað síðast. Merkilegt hvað fólk fylgist vel með mér og leggur sig fram við að minna mig á þetta. Ég er í alvörunni farinn að trúa því að einhver lesi þetta og hafi jafnvel gaman af. Sérstaklega er Mummi vanur að minnast á þetta og notar þá gjarnan orðið „aumingjabloggari.“ Heldur leiddist mér þetta til að byrja með, þangað til að hann fullvissaði mig um að þetta væri notað í besta skilningi þess orðs. Og að sjálfsögðu trúi ég því, vegna þess að Mummi er góður gæi sem ætlar að gefa mér bjór í vinnupartýinu í kvöld! Mér skildist á frásögn Arnórs að Þverbrekkingnum hefði orðið fótaskortur á dansgólfinu og snúið á sér ökklann. Hann á alla mína samúð. Ég þekki það af eigin raun hvernig er að færa listagyðjunni ökkla að fórn og þekki því sársauka Þverbrekkingsins. Ég legg hér með til að stofnuð verði samtök þeirra sem hafa farið í að minnsta kosti eina hnéaðgerð og hafa einnig snúið sig á einhvern hátt á dansgólfi. Legg ég til að stofnfundurinn verði haldin norðan heiða (ekki norðan Heiðars hahaha) eftir rúmlega viku. Legg ég svo til að stofnfélagar (undirritaður og Þverbrekkingurinn) sýni nokkur vel valin dansspor!

miðvikudagur, júní 26, 2002

Nú er víst orðin vika síðan ég skrifaði síðast og því kominn tími til þess að bæta einhverju skemmtilegu við. Hmmmm... Helgin fór aðallega í það að dæma fótbolta og sofa, en mér tókst samt að koma að smá djammí á laugardagskvöldið. Hún Lilja vinkona mín var að útskrifast úr ferðamálafræði og hélt partý í tilefni þess. Þar voru allir og þar var mikið gaman. Við Nóri tókum Rawhide og voru viðstaddir sammála um að okkur hefði aldrei tekist betur upp (fyrir þá sem ekki þekkja þá er Rawhide nokkurs konar einkennissöngur okkar Nóra og syngjum við það við öll tækifæri). Í framhaldi af því var okkur báðum boðið í kórinn Vox Academia en reyndar ég nokkurn fyrirvara á því þar sem að Nóra var boðið líka en allir sem hafa heyrt í okkur syngja vita að ég er gullbarkinn í dúettnum en Arnór er hins ekki nema höfundur dansa (við notum að vísu ekki neina dansa, þannig að hlutverk hans er alltaf að verða óljósara!!! Kannski að ég þurfi að leita að hæfileikaríkari sædkikk). Annars er það helst að frétta af mér að ég fékk stöðuhækkun í vinnunni og sé núna um að passa börn á meðan foreldrar þeirra eru í vinnunni. Þessi börn sem ég er að passa eru á aldrinum 18-19 ára, sem sagt á þeim aldri þegar þau eru sem erfiðust. Allan daginn, út um bæinn eilíft heyrast köll í þeim: „geturðu lagað... geturðu reimt... geturðu lagað hanskana mína... Þá getur maður ekki annað en hrist hausinn og tekið þessu öllu með stóískri ró og hjálpað þessum litlu vesalingum sem eru svo ósjálfbjarga án mömmu sinnar. Við Arnór fengum það verkefni að finna nafn á hópinn og gekk það ekki áfallalaust. Við fengum hjálp frá Mumma sem gerði sitt besta. Fyrstu hugmyndir voru: Skítahópurinn, leikskólinn, Unglingarnir o.s.frv. Persónulega fannst mér nafnið Oddaverjar best en það hlaut ekki hljómgrunn hjá öðrum. Að lokum var fallist á að kalla hópinn Útlaga, einfaldlega vegna þess að fyrir nokkrum árum var til hópur með þessu nafni og okkur datt ekkert frumlegra í hug. Aldeilis sem að þrjár BA-gráður og samtals ca 14 ára háskólanám gerði gagn þar!!! Hef ekki meira að segja að sinni enda er ég í vinnunni og á að vera að gera eitthvað allt annað en að skrifa þetta bull.

þriðjudagur, júní 18, 2002

Ætlaði að bara að bæta einu við. „Harpa, ef að vinkonur þínar skipta um skoðun, láttu mig þá endilega vita“
Ég hef orðið fyrir miklu aðkasti undanfarið vegna þess að ég er ekki einn þeirra sem tel nauðsynlegt að punkta niður hvert einasta smáatriði sem hendir mig á lífsleiðinni. Meðal þeirra sem eru að gagnrýna mig eru vinnufélagar mínir: bræðurnir Arnlaugsson og Arnór. Þetta finnst mér ekki fallegt því að ég er viðkvæm sál sem tek svona gagnrýni mjög illa. Þess vegna finnst mér að þessir ættu að skammast sín og biðja mig afsökunar!!! Og munið „aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ Ég fór í útilegu um helgina og skemmti mér þar ágætlega. Hitti fjölmargt fólk og skemmti mér ágætlega. Mágkona Arnórs gerði sitt besta til þess að koma mér í kynni við vinkonur sínar og kynnti þær jafnan með orðunum „Oddi, þetta er ...... Hún ætlar að sofa hjá þér í nótt“ Eitthvað virtust vinkonurnar ekki vera á sömu bylgjulengd og því varð ekkert meira úr því. En ástæðan fyrir því að Harpa (mágkona Arnórs) var að reyna að koma mér saman við einhverja af vinkonum sínum var sú að Arnór fullyrti að ég væri eini „single“ maðurinn í hópnum!!! Heldur varð hann niðurlútur þegar honum var bent á að hann hefði gleymt sjálfum sér. En Harpa sagðist hafa lesið bloggið mitt og sagði að ég væri skondinn kall. Ég kýs að halda að það sé jákvætt. Á laugardagsmorguninn fór ég að vinna með Nóra, Mumma og Gulla upp á Nesjavöllum þar sem að við vorum sérlegir lífverðir kínakallsins sem var hérna. Það er þvi okkur að þakka (eða kenna) að hann slapp óskaddaður frá þeim hörmungum sem hugsanlega hefðu getað dunið yfir hann. Við búumst því fastlega við því að fá Kínversku fálkaorðuna fljótlega. Arnór segist vera að útskrifast næstu helgi. Ég á nú bágt með að trúa því. Á öllum mínum skólaferli hef ég ekki kynnst manni sem lærir jafn lítið, skrópar jafn mikið í tíma og reynir að hafa jafn lítið fyrir hlutunum. Jú, ég man að vísu eftir einum ??????

sunnudagur, júní 09, 2002

Ég komst að því að ég á mér fleiri aðdáendur en ég hefði getað ímyndað mér. Mér skilst að verðandi tengdamóðir
Gunna og Kjarra lesi allt það sem við Arnór skrifum og fylgist spennt með. Ég veit ekki af hverju, en ég er mjög upp
með mér að fólk skuli lesa þetta því ég er ekki vanur því að fólk sýni lífi mínu áhuga. Svo var hann Skúli í vinnunni minni
að kvarta yfir því að ég væri latur að skrifa og svo kvartaði hann líka yfir því að ég minntist ekkert á hann hjá mér. Nú er það sem sagt búið.
Það sem að helst hefur drifið á daga mína síðan ég skrifaði síðast er að ég er byrjaður að vinna aftur. Ég og Arnór erum í átta manni hópi
þar sem eru sex stelpur og því fer ágætlega um okkur. Ég er stundum spurður hvort ekki sé erfitt að vera í vinnu þar sem að vinur manns er
yfirmaðurinn og það getur sennilega verið erfitt fyrir suma. Ég er hins vegar svo heppinn með yfirmann vegna þess að Arnór er einfaldur maður sem
að gerir sér ekki grein fyrir því að honum er stjórnað af mér og þeim sem hafa verið þarna lengi. Vandamálið er að það er ómögulegt að bera virðingu
fyrir manni sem nær manni varla í mitti!!!
Annars er búið að vera fínt í vinnunni og við höfum fengið ca. allar tegundir veðurs. M.a. „verð að fara úr að ofan þó að ég hræði stelpurnar með því“ veður og
líka „ég man ekki eftir því að hér hafi verið á“ veður. Fólkið í vinnunni er enn þá að hlæja að mér vegna þess að ég fæ innilokunarkennd í pollagöllum
og er því alltaf blautasti maðurinn á svæðinu. En það er bara macho!!!
Annars fékk ég smá áfall um daginn. Ein stelpan í hópnum okkar var að lýsa fyrrverandi yfirmanni sínum sem var að vinna á Nesjavöllum í fyrra. Hún
sagði „við vorum með kall í fyrra sem aldrei tók pásur og ...“ KALL!!! Maðurinn er tveimur árum yngri en ég! Ef að henni fannst hann vera kall hvað finnst henni
þá um okkur Arnór! Annars eru stelpurnar í hópnum okkar ansi ungar, fæddar 81, 82, 83 og 84. Gerið ykkur grein fyrir því að það eru sjö ár síðan ég var
fæddur 1984!!!

sunnudagur, maí 26, 2002

Dagurinn í gær (laugardagurinn) var góður dagur!!! Ég byrjaði á því að vinna í 15 tíma við kosningarnar og
gerði mitt besta til þess að klúðra minni kjördeild en tókst það ekki. Mér tókst þó greinilega að fara mjög í
taugarnar á einum sjálfstæðismanninum sem sat í kjördeildinni og var mjög dónalegur og ásakaði mig um að hafa
rangt við og hótaði mér öllu illu. En bæði þeir sem sátu á undan honum og einnig þeir sem komu á eftir voru mjög
skemmtilegt fólk sem auðvelt var að vinna með. En þessi maður var sem sagt helv%&&#""/$=$-ingi!!!
En hvorki þetta atvik né fimmtán tíma setan í kjördeildinni varpaði skugga á það sem gerðist síðar um kvöldið.
Eins og margir vita hef ég ekki farið leynt með aðdáun mína á leikkonunni Þórunni Lárusdóttur, enda er hún önnur
tveggja fallegustu kvenna í heiminum, en hin er að sjálfsögðu Cameron Diaz. Í gær hlotnaðist mér sá heiður að hitta Þórunni í fyrsta skipti og ekki nóg með það, heldur áttum við saman yndislega nótt heima hjá henni þar sem ástin blómstraði og við gátum vart haft augun hvort af öðru allt kvöldið. Eða það minnir mig að minnsta kosti.
En Laufey bauð okkur Arnóri (aðallega mér samt, Arnór var bara heppinn að vera með) sem sagt í partý heima hjá Þórunni þar sem að vel var tekið á móti okkur og við nánast teknir í guðatölu hjá sumum vegna þess að við kunnum nánast alla texta sem voru sungnir þetta kvöldið. Það var loksins vináttan við Kjarra nýttist í eitthvað annað en að fá bara góð sæti í bíó...
En hér með lýsi ég því yfir að Þórunn Lárusdóttir er mesta beib sem að ég hef á ævinni kynnst og
hún kyssti mig á kinnina þegar ég fór úr partýinu hjá henni um kvöldið og það var leitun að hamingjusamari
manni í bænum það kvöldið.
Ég ætla að giftast Þórunni Lárusdóttur þegar ég verð stór!!!


Ps. Það eina sem skyggði á kvöldið var það að ég þurfti að vakna snemma um morguninn til þess að fara að dæma.
Þegar ég svo mæti á staðinn nánast ósofinn þá er mér sagt að það hafi nú verið óþarfi hjá mér að mæta því að það
vantaði ekki dómara!!!

fimmtudagur, maí 23, 2002

Ég er Fossi. Er það tilviljun að ég skuli vera feiti björnin sem segir lélega brandara!!!

You are Fozzie!
Wokka Wokka! You love to make lame jokes. Your sense of humor might be a bit off, but you're a great friend and can always be counted on.
.

miðvikudagur, maí 22, 2002

Fór í afmæli til hennar Sollu í gær en hún varð einmitt 25 ára. Að vísu var mér ekki boðið
en ég taldi mig samt eiga brýnt erindi þar sem að ég var með afmælisgjöfina frá hennar
heittelskaða Gunna. Ég, Kjarri og Laufey vorum búin að leita lengi að gítar handa henni og
fundum hann loksins. Þannig að nú má búast við að Solla skemmti gestum sínum í afmælinu
í sumar með gítarspili og söng. En ég mætti sem sagt óboðinn í afmælið lét ekki henda mér
út fyrr en ég var búinn að borða mig saddan af dýrindis grillkjöti og eftirrétt og búinn að leggja mig
í stólnum hjá Ellu (það er að segja, ég lagði mig í stólnum HEIMA HJÁ Ellu, en ekki í sófann HJÁ
ELLU) en afmælið var einmitt haldið heima hjá henni. Þannig að þið skuluð hafa það í huga í framtíðinni
að það er betra að bjóða mér, því annars mæti ég bara og þá er óvísst að ég fari nokkuð aftur strax.

þriðjudagur, maí 21, 2002

Ég ætla bara að óska henni Sollu til hamingju með daginn. Nú er hún orðin aldarfjórðungsgömul en það
sést varla á henni ólíkt okkur hinum sem eru orðin þetta gömul. Til hamingju með daginn Solla!!!

laugardagur, maí 18, 2002

Þá er ég búinn að vera einn dag í sumarfríi og kann bara ágætlega við þetta. Ég gæti jafnvel hugsað mér að
gera þetta að aðalstarfi mínu einhvern daginn! Í gær gerði ég nákvæmlega ekkert fyrri partinn og var fullkomlega
sáttur við það. Næstu daga ætla ég að reyna að einbeita mér að því að gera alltaf minna en daginn áður. Þannig
að þegar ég byrja í vinnunni verð ég í fínu formi!!!

föstudagur, maí 17, 2002

Tralalalalalalalalalalalalala!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Ég er búinn að skrifa ritgerðina mína, búinn að ýta á CTRL-P og henda henni í hausinn á kennaranum.
Núna er ég sem sagt kominn í sumarfrí og hef nákvæmlega ekkert að gera!!! Maður kann ekki að vera
í sumarfríi. Ef að fólk hefur einhverjar hugmyndir þá megið þið endilega láta mig vita! Vonandi verður samt
gott djamm um helgina!!!
Annars vorum við Jóhanna að ræða málin og okkur finnst þessi umræða um samband hennar við aðra
menn frekar ósmekkleg. Sérstaklega sárnuðu henni orð Þverbrekkingsins sem eru gersamlega úr lausu
lofti gripin. Að öðru leyti mun ég ekki hafa fleiri orð um samband okkar, sem blómstrar sem aldrei fyrr!!!

þriðjudagur, maí 14, 2002

Ég vil byrja á því að þakka Magnúsi frá Þverbrekku fögur orð í minn garð á comment
síðunni. Sjálfur er ég sannfærður um að ég mun verða fastagestur í stól Magnúsar
í framtíðinni og mun njóta þess að gera hann jafn geðveikan og ég er!!!

Jæja ekki get ég verið minni maður en hann Arnór (enda er nú nánast ómögulegt
að vera minni maður en Arnór!!! Ég þekki bara einn mann sem var minni en hann
og það er hann Kári, en hann er nú bara hálfmenni!) og því verð líka að halda áfram
að skrifa eitthvað hér þó að lítið hafi gerst í mínu lífi undanfarið. Ég fór að vísu í vorferð
á laugardaginn, eins og hann Arnór, og hef því litlu að bæta við frásögn hans. Að vísu
vil ég taka fram að ég vann ratleikinn, nánast upp á mitt einsdæmi, en var það fremur
vegna heimsku mótherjara minna en snilli minnar. Svo tók við gott partý hjá honum Kormáki
A.K.A. Arnór og svo var haldið í bæinn þar sem pöbbar bæjarins voru þræddir. Að sjálfsögðu
kom ég við á Hverfisbarnum og keypti bjór hjá henni Jóhönnu minni og var ekki laust við
að hún rendi til mín hýru auga!!! Svo tók við löng gönguferð heim, en fólkið sem hæddi mig
sem mest fyrir að ganga heim, fór svo upp í vitlausan strætó og endaði með því að þurfa að
taka leigubíl úr Grafarvoginum upp í Breiðholt. HAHA!!! Á sunnudeginum tók ég það rólega en
en í gær fór ég í mat til Kjarra og Laufeyjar og aldrei þessu vant spiluðum við ekki heldur fórum
í heimsókn til hennar Eddu Lilju. Hún á alveg ofsalega sæta stelpu sem heitir
Ása og tvo ketti. Í dag er ég svo að skrifa
ritgerðina frá helvíti sem virðist aldrei ætla að verða búin!!!

fimmtudagur, maí 09, 2002

Núna er ég kominn heim og hættur að skrifa ritgerð í bili. Enda var ég orðinn
svo ruglaður í hugleiðingum mínum um drauma og veruleika í sagnatextum
Bubba Morthens að ég vissi varla sjálfur hvort ég var vakandi eða sofandi. Ég
held að bókmenntafræðingar séu klikkaðasta fólk í heimi, hvernig fólk getur
lifað með sjálfu sér þegar það er í bókmenntafræðilegum hugsunum er mér
óskiljanlegt.
Ekkert að gera í kvöld, þeir sem ég þekki eru annað hvort í útlöndum, á
Akureyri (sem er eiginlega það sama) eða í prófum, þannig að í
augnablikinu á ég enga vini sem að vit er í (núna er ég sennilega að
móðga einhvern en það skiptir ekki máli, það les þetta hvort eð er ekki neinn).
Allavegana er ég farinn að sofa og ætla að gráta mig í svefn vegna þess að ég
á enga vini til þess að leika mér við

Það er gott að vita að Solla hefur fyrirgefið mér og finnst ég enn þá
skemmtilegur. Ég hafði miklar áhyggjur af þessu enda ekki góð
hugmynd að móðga hana Sollu.
Jæja, þá er ég enn kominn í skólann og þykist ætla að skrifa ritgerð.
Ég fór að vinna í gær og horfði á þennan sorglega leik Man utd-Arsenal.
Ég ætla sem minnst að tjá mig um þann leik, en það sáu allir að dómarinn
var fífl og markið greinilega einhvern veginn ólöglegt. Eftir leikinn fórum við
Dengsi á kaffihús og drekktum sorgum okkar, hann í sódavatni og ég í HEILUM
BJÓR!!! Það var nú ekki von á góðu í leiknum í gær, enda Nicky Butt meiddur.
Gerði annars ekki mikið í gær, allar tölvustofur á skólasvæðinu voru lokaðar
vegna prófa, þannig að við sem erum að skrifa ritgerðir urðum bara að éta það sem
úti fraus. Alveg ótrúlegt að það sé ekki hægt að tilkynna manni það sem smá fyrirvara
að það verði ekki hægt að komast í tölvur á ákveðnum tíma. Eftir stríð mitt við Háskólann
um námið mitt á næsta ári, þá er ég dauðfeginn að komast héðan á næsta ári og vona
að KHÍ sé eitthvað skárri en það sem er boðið upp á hérna.

mánudagur, maí 06, 2002

Jæja, ég ætla nú að byrja á því að biðja hana Sollu afsökunar, en hún var víst eitthvað fúl yfir athugasemd minni um að henni gæti ekki
þótt við Arnór skemmtilegir. Minnimáttarkennd mín er svo mikil að mér datt ekki í hug að nokkrum manni gæti þótt ég skemmtilegur
eftir að hafa þekkt mig í svona stuttan tíma. Fyrirgefðu Solla mín!!!
Annars gerðum við tilraun til þess að fara í bíó í gær og ætluðum að sjá Spiderman. Var sú ferð ekki með öllu hættulaus eins og sjá má
á síðunni hans Arnórs. Eins og sjá má vorum við í mikilli hættu og í raun guðsmildi að við
skyldum sleppa á lífi.
Nú ætla ég ekki að skrifa meira í bili en var ég búinn að segja að mér er lífsins ómögulegt að vera skemmtilegur á mánudögum.
Allavegana fyrir hádegi!
[edit]
Jæja, ég ætla nú að byrja á því að biðja hana Sollu afsökunar, en hún var víst eitthvað fúl yfir athugasemd minni um að henni gæti ekki
þótt við Arnór skemmtilegir. Minnimáttarkennd mín er svo mikil að mér datt ekki í hug að nokkrum manni gæti þótt ég skemmtilegur
eftir að hafa þekkt mig í svona stuttan tíma. Fyrirgefðu Solla mín!!!
Annars gerðum við tilraun til þess að fara í bíó í gær og ætluðum að sjá Spiderman. Var sú ferð ekki með öllu hættulaus eins og sjá má
á síðunni hans Arnórs. Eins og sjá má vorum við í mikilli hættu og í raun guðsmildi að við
skyldum sleppa á lífi.
Nú ætla ég ekki að skrifa meira í bili en var ég búinn að segja að mér er lífsins ómögulegt að vera skemmtilegur á mánudögum.
Allavegana fyrir hádegi!

sunnudagur, maí 05, 2002

Jæja, ég verð víst að leiðrétta smá misskilning. Ég fékk þetta bréf frá Gunna í dag:

„Þu ættir sko að lesa undrskriftina a færslunum a heimasidunni
minni aður en þu skrifar um það a netinu. Það var sko EG sem
sagði að þið væruð skemmtilegir, Solla myndi aldrei segja slikt,
þvi hun er ekki jafnhrædd við að vera lamin og eg (svo er Nori
einmitt svo litill að það ma ekki skilja hann utundan).“

GG

Ég hefði svo sem mátt vita að Solla hefði aldrei skrifað að við værum skemmtilegir!

laugardagur, maí 04, 2002

Jæja, nú er víst búið að auglýsa þessa litlu dagbók mína á netinu. Hún Solla skrifaði það í sína dagbók að við Arnór værum báðir komnir með svona dagbók og þakka ég henni fyrir það. Nú er ég ekki að skrifa bara fyrir sjálfan mig (vona ég) heldur eru kannski einhverjir úti í hinum stóra heimi sem „lesa mig.“ En Solla gerði mér líka hræðilegan óleik, því að hún sagði að fólk ætti endilega að skoða þetta hjá mér því að ég væri svo skemmtilegur.
(Hún sagði reyndar líka að Nóri væri skemmtilegur, en það er bara af því að hann er svo lítill að það má ekki skilja hann útundan! En málið er bara að Solla setti ákveðna pressu á mig með þessu því að nú þarf ég alltaf vera skemmtilegur því að nú er allur heimurinn að „lesa mig“ og ég verð dæmdur út frá þeim skrifum sem hér er að finna. Það var aldrei markmið mitt að vera skemmtilegur, þó að ég eigi vissulega auðveldar með það en flestir aðrir, heldur átti hér að finna djúpar pælingar um það sem hæst rís í heimsmálum og innanlandsmálum, en nú verð ég víst að sleppa því enda fátt leiðinlegra en heimsmál og innlandsmál. Því mun ég reyna að vera skemmtilegur þegar ég skrifa hérna, nema á mánudögum. Því að jafnvel mér tekst ekki að vera skemmtilegur á mánudögum!

föstudagur, maí 03, 2002

Ekkert sérstakt að gerast. Ég er að reyna að skrifa ritgerð þessa dagana,
en þess á milli geri ég nánast ekki neitt, enda eru allir vinir mínir í prófum.
Á eftir er ég að fara að dæma í fótboltamóti lögfræðinga félagsins. Ímyndið
ykkur hryllingin, að dæma hjá hópi manna sem vinna við það að mótmæla
dómum, áfrýja o.þ.h. Ég er að vísu orðinn sæmilega vanur þessu, en þetta
er samt taugastrekkjandi.

fimmtudagur, apríl 25, 2002

Ég er að prófa þetta í fyrsta sinn. Þetta er ekki mikið en munið: Mjór er mikils vísir!