miðvikudagur, september 06, 2006

Undanfarna daga hef ég aldeilis lagt land undir fót og ekki sér fyrir endann á því enn þá. Ég hef ferðast landshorna á milli og séð staði sem hversdagsmaðurinn gæti aðeins látið sig dreyma um og myndi varla trúa ef ég segði frá því. En látum á það reyna...

Fjörður um fjörð frá firði til fjarðar um fjörð yfir fjörð frá firði um enn einn fjörð til fjarðar um fjörð frá firði. Þannig var síðasta helgi hjá mér þegar við Auður skruppum vestur á Bíldudal. Fyrir þá sem ekki vita er Bíldudalur á Vestfjörðum og þangað er langt að keyra. Hins vegar er maður ekki lengi að keyra um Bíldudal, u.þ.b. 10 mínútur að keyra allar göturnar fram og til baka. Við fórum niður á höfn og ég veiddi stærsta fisk sem sést hefur í plássinu í mörg ár,svo fórum við að tína ber og ég tíndi helling og svo slöppuðum við af í heitum potti og ég slappaði mest af. Þetta var ágætis tími á staðnum en þrír dagar dugðu mér ágætlega.

Maður var varla lentur í Reykjavík þegar næsta ferðalag tók við. Þriðjudaginn 5. sept hélt ég til Egilsstaða með fyndnasta dómara Íslands, Garðari Erni Hinrikssyni. Eins og við mátti búast var þetta hin skemmtilegasta ferð, Garðar sagði brandara allan tímann og ég gerði ekki annað en að hlæja allan tímann og það lá við að það þyrfti að gera hlé á leiknum þegar ég byrjaði að hlæja, Garðar er svo fyndinn. En ekki meira um það. Þar sem að við lentum klukkan 13.30 og leikurinn byrjaði ekki fyrr en klukkan 17.30 höfðum við nægan tíma til að skoða plássið og gerðum það sviklaust. Ég sá Fellaskóla, sem ég hélt að væri bara til sem óknyttaskóli í Breiðholtinu en er greinilega líka til í Fellabæ, sem ég vissi varla að væri til. Svo fórum við í BT og fengum ágætis fyrirlestur um muninn á Championship Manager og Football Manager sem lauk með því að Garðar keypti FM. Að leik loknum var haldið beint út á flugvöll og þaðan heim og þar með lauk skemmtilegasta ferðalagi sem ég hef farið í með fyndnasta dómara á Íslandi.

Föstudaginn 8. héldum við Auður svo austur í Vaðnes þar sem pabbi, mamma og Anna Alexandra biðu okkar í sumarbústað. Helgi bróðir og Anna Kristín voru í útlöndum með Kjúlla litla frænda (sem heitir nú víst Eiríkur). Í bústaðnum slöppuðum við af, lágum í pottinum og borðuðum á okkur gat. Þess á milli skrapp ég í bæinn til að vera á leik Kára og ÍH um þriðja sætið i 3.deildinni. Ferðafélagarnir fóru heim snemma á sunnudeginum en við Auður vorum eina nótt í viðbót og slökuðum á.

Fram undam: Leikur á Ólafsvík á laugardaginn með Gylfa "stóra bróður" Orrasyni og Þorra litla frænda. Næstu helgi þar á eftir verð ég svo í Vestmannaeyjum. Þá á ég bara Norðulandið eftir í þessum mánuði en þar er hvort eð er ekkert að sjá og ekkert gott hefur komið þaðan þannig að það skiptir ekki máli.