þriðjudagur, desember 27, 2005

Með smáaðstoð frá mér og Arnóri fór þessi inngangur í loftið í íþróttunum í kvöld. Samheiti eru skemmtileg. "Cleveland lagði Chicago, Washington marði Lakers, Orlando vann Millwaukee, Knicks tapaði fyrir New Jersey, Phoenix bar sigurorð af Minnesota, Dallas hafði betur gegn Indiana, Seattle sigraði Boston, Portland skellti Sacramento og Golden State laut í lægra haldi fyrir Denver." Alltaf fjör í vinnunni.

föstudagur, desember 23, 2005

Ég óska lesendum þessarar síðu gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

miðvikudagur, desember 21, 2005

Þetta er svolítið sniðugt. Hér er hægt að sjá þá tónlist sem ég hef hlustað á undanfarið. Þetta er þó þeim annmörkum háð að ég hef ekki mikið af tónlist hérna í vinnunni, en þar hlusta ég yfirleitt þar sem við eigum ekki græjur heima.

þriðjudagur, desember 20, 2005

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þær rífandi móttökur sem endurkoma mín hefur fengið. Allt að verða vitlaust og vinsældir mínar aldrei meiri. Auður var rétt í þessu að klára síðasta prófið og fær innilegar hamingjuóskir með það. Hún hefur staðið sig vel en ég er feginn að þetta er búið því þá þarf ég ekki lengur að sinna öllu sem þarfa að gera heima. Í grófum dráttum höfum við skipt húsverkunum þannig á milli okkar að ég sé um eldamennsku en hún um þrif, en ég hef reyndar aðstoðað nokkuð við þrifin. Undanfarin mánuð hefur þetta hins vegar lent allt á mér vegna prófanna og er svo sem ekkert við því að segja. En þessi prófalestur gerir fólk skrýtið. Til dæmis lá ég uppi í sófa kl. 23 í gærkvöldi og var að lesa í bók á meðan Auður var að lesa. Allt í einu heyri ég: Á ekki að baka neitt fyrir mig?" Ég svaraði að það væru nú enn nokkrir dagar í jólin. "Á ég þá ekki að fá neinar smákökur núna á meðan ég er að lesa?" Ég gat ekki svarað þessu og þess vegna stóð ég við eldavélina kl 12 á miðnætti að taka plötur út úr ofninum og setja inn aftur. En það virðist hafa virkað því Auður fékk kökurnar sínar og gekk svo vel í prófinu í dag.

mánudagur, desember 19, 2005

Góð setning sem heyrðist heima hjá mér um daginn. Hjá okkur var þriggja ára stelpa sem er að uppgötva jólin og hefur heyrt að þau séu alveg að koma. Hún sat og horfði á sjónvarpið þegar dyrabjöllunni var hringt. Ég spurði hana "Hver er að koma." Hún svaraði að bragði "Jólin," og hljóp svo fram til að hleypa jólunum inn. Varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hún komst að því að það væri bara verið að sækja hana.
Þegar maður ætlar að vera virkur í blogginu finnst manni að maður þurfi alltaf að vera að blogga. Þá verða til færslur eins og þessi fyrir neðan, ekki um neitt og engum til góðs eða gamans. Eins gott að ég er búinn að átta mig á þessu og geri þetta ekki aftur.

föstudagur, desember 16, 2005

Mikið að gera í vinnunni þessa dagana. Það þarf að lesa alla jóla- og áramótadagskrána og og helst með einhverjum fyrirvara vegna frídaganna, sem eru reyndar ekki margir þessi jólin. Þess vegna hefur það verið vel þegið að við höfum lesið mikið heima á þessum síðust og verstu. Auk þess hefur dagskráin margfaldast á síðustu mánuðum með tilkomu Sirkus. Samt er eins og enginn kveiki á því að það þurfi að fjölga fólki hér. En hvað um það. Nóg að gera en Auður er hvort eð er að lesa undir próf þannig að það er ágætt að lesa þetta heima og fá aukapening. Stundum er maður algjör nörd í þessu. Til dæmis var ég að lesa LOTR III og Harry Potter heima um daginn. Þá tók maður fram bækurnar til að geta borið saman textann í myndinni og bókinni. Það er nördaskapur.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Óli Gneisti er með eitthvað svona dót á síðunni sinni þar sem maður á að setja nafnið sitt í athugasemdakerfið hjá honum og hann gerir eftirfarandi:
1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig.
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig.
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig.
4. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér.
5. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á.
6. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig.

Í staðinn setur maður niðurstöðurnar á bloggið hjá sér. Nú tek ég skýrt fram að ég ætla EKKI að gera það sama, til þess hef ég ekki nógu mikið hugmyndaflug. En hér koma niðurstöður Gneistans ásamt athugasemdum frá mér:
1. Þú ert ekki mesti aumingjabloggari í heimi (Þetta er alveg rétt. Til eru verri menn en ég. Til dæmis ónefnd hjón í USA.)
2. Nici's naked hookers (??? Þetta getur ekki verið gott.Svo ég vitni í Pet Shop Boys "Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta?")
3. Þú varst svoltið kók en getur núna verið fleiri brögð. (Skiljanlegt)
4. Þú og Arnór að fara eitthvað út að borða. (Enn þá skiljanlegra)
5. Þröstur. (Ég er einmitt lítill sætur fugl.)
6. Finnst þér Arnór ekki svoltið, þú veist, svona? (Hittumst við tækifæri og ræðum þetta betur.Ekki eru öll kurl komin til grafar.)

miðvikudagur, desember 14, 2005

Þar sem að ég hef í sjálfu sér ekkert til að skrifa um ætla ég að fara yfir þá sem ég hef sett hér í blogglistann til hægri. Þetta eru í sjálfu sér tilganslaus skrif þar sem flestir þeir sem lesa þetta, og þeir eru nú ekki margir núna, þekkja hver annan. En þar sem ég hef ekkert að gera ætla ég nú samt að gera þetta og hananú.
Arnór: Vinnufélagi til margra ára, hjá Orkuveitunni og 365. Saman fórum við gegnum íslenskuna á okkar hraða sem hentaði ágætlega. Kynntumst fyrst í Þórsmerkurferð einhvern tímann þegar einhver benti okkur á að við hefðum báðir áhuga á NBA. Fórum saman til London eina helgi og sáum Patrick Vieira hrækja á Neil Ruddock. Það var gaman.
Atli:Fyrrverandi íslenskunemi. Hann setti athugasemdakerfið inn á síðuna hjá mér og læddi sér inn um leið sem er hið besta mál. Stórskemmtilegur bloggari sem gæðablaðið DV vitnar oft í.
Mummi: Fyrrverandi samstarfsfélagi á Nesjavöllum og all around good guy. Körfuboltafíkill sem heldur með Boston og Minnesota. Gaman að spila körfubolta við hann því við erum á sama leveli. Sagnfræðingur og stórsvöngvari.
Gunni og Solla Vinir sem búa í Bandaríkjunum. Í því landi hefur greinilega ekkert gerst frá 27. júní. Þau eiga dótturina Arndísi Dúnu sem ég kynntist aðeins í sumarbústaðaferð í vetur. Hún tók mér ekki vel í fyrstu en síðan vann ég greinilega á og við skemmtum okkur ágætlega Gunni er að læra stærðfræði en Solla verkfræði.
Líney: Uppáhaldsfrænka mín: Hún býr líka í Bandaríkjunum en þar virðist meira vera að gerast en í Bandaríkjunum sem Gunni og Solla búa í. Hún skrifar undir nafninu Big Bird eða BB. Hún er að læra efnafræði og verður bráðum virðulegur doktor í því.
Lilja: Lilju Rós hef ég þekkt frá því ég var 16 ára held ég. Hún og Líney æfðu borðtennis saman og við kynntumst í gegnum hana. Hún er reyndar líka frænka mín en þar sem hún er fjarskyldari mér en Líney þá getur hún ekki verið uppáhalds. Maðurinn hennar heitir Gísli og var með Gunna í bekk og ég þekkti hann áður en þau Lilja fóru að vera saman. Þau eiga Írisi Önnu sem er í nöp við mig eftir að ég barði hana óvart í hausinn einu sinni. Svo er annað barn á leiðinni. Uppáhaldsmyndir okkar Lilju eru Back to the Future 1 og 2 en ekki 3 því við myndum aldrei horfa á hana. Á þessu bloggi skrifa hún og vinkonur hennar saman. Þar sem að ég kannast við þær flestar er þetta ágætis skemmtun.
Óli Gneisti: Var sumarafleysingamaður á spólusafninu á 365 í sumar. Queen-aðdándi dauðans. Er líka í þjóðfræði og bráðskemmtilegur bloggari. Syngur líka My Fair Lady fallega.
Málbeinið:Gísli Ásgeirsson, þýðandi á Stöð tvö og Framsóknarvinur nr. 1. Bráðskemmtilegur bloggari og þýðandi. Hann á til dæmis þessar gullsetningar í þýðingu 1) Í mynd um hestaveðreiðar "...en þýsku hestarnir urðu aftarlega á merinni." 2. Í þætti um kraftakeppni kvenna "Kanadísku stúlkurnar taka sér stöðu fyrir dráttinn." Þá kom hann með hugmyndina að orðinu "náriðill" í stað orðins "dauðariðill" í HM. Það var ekki samþykkt.
finnurtg: Eini maðurinn á listanum sem ég hef hvorki séð né talað við. Ég var eitt sinn að skoða Utah Jazz síðuna Jazzhoops.net og sá að þar var Íslendingur sem skrifaði oft. Svo sá ég að hann hélt mikið upp á Nick Cave eins og ég. Mjög virkur og skemmtilegur bloggari.
Þorri frændi: Kallar sig Mikka ref. Uppáhaldsfrændi minn og bróðir Líneyjar. Dómari eins og ég, bara ekki jafngóður. Einu sinni var hann litli óþolandi frændi en hefur vaxið úr grasi síðan. Einn besti vinur minn og maður sem gott er að tala við.


Þá er það komið. Ef það er einhver sem vill láta bæta sér inn á listann þá er bara að senda mér póst á oddbergur.eiriksson hjá 365.is eða setja inn athugasemd. Ég veit að það eru einhverjir sem lesa þetta sem rífa hár sitt og skegg af þvi að það er ekki hlekkur á þá. Eins er fólk er ósátt við það sem ég skrifaði hérna þá má það senda póst eða skrifa athugasemd. Ef að fólk les þetta má það líka setja athugasemd.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Þetta og þetta kemur í hús bráðum. Þá verður aldilis gaman hjá okkur. Vorum að spá í þessu en ég óttaðist að skyrtan færi Auði ekki nógu vel. Skoðum það betur seinna.
Við fórum í sumarbústað um daginn og hittum þar Kjarra, Laufeyju, Lárus Ármann, Borghildi, Aadne, Íshildi Ulvu, Sollu og Arndísi Dúnu. Var það hin besta ferð og gaman að sjá þá sem maður hefur ekki séð lengi. En mikið hafa þessar ferðir nú breyst með árunum. Að taka með sér litla kippu og klára hana ekki hefði einu sinni þótt mikil skömm. En ekki lengur.
Hér kemur hetjusaga af sjálfum mér. Ég var í vinnunni um daginn (1X2) og var um leið að lesa þátt fyrir hina vinnuna mína. Sá þáttur heitir Most Haunted og fjallar um þá staði í Bretlandi þar sem mestu reimleika er að finna. Ég sat inni í stóru rými, aleinn í húsinu og ég verð að játa að mér stóð ekki á sama þegar ég fór að heyra alls kyns hljóð frammi á gangi og af neðri hæðinni. Nú get ég ekki hælt mér af því að vera manna hugrakkastur þegar kemur að því að ganga einn í myrkri þannig að ég sat sem fastast og hreyfði hvorki legg né lið til að athuga hvort eitthvað væri á seyði. Enda var þetta eintóm ímyndun í mér en sýnir bara að það er ekki nóg að banna kvikmyndir og tölvuleiki heldur þyrfti einnig að banna sumt það efni sem ég þarf að lesa í vinnunni innan 30 ára. Eða fullvissa mig um að draugar séu ekki til.
Við fengum næturgest um daginn og var það hin besta skemmtun. Við máluðum, föndruðum og lékum okkur saman. Svo mátti bara ég leika við hana. Eitthvað ruglaðist hún í ríminu þegar ég vaknaði og hélt þvi fram fullum hnefum að ég væri án klæða, sem var alls ekki rétt þar sem ég var í fallegum, grænum náttbuxum. Ég föndraði fallegan jólakött sem hefur vakið mikla lukku meðal gesta og er stórkostleg prýði að honum þar sem hann situr ofan á sjónvarpinu.
Hvað skildi nú hafa drifið á daga mína síðustu daga? Eftir að hafa hvílt mig mikið eftir NBA-spána hóf ég aftur störf og allt gekk sinn vanagang. Undanfarna daga hef ég mikið reynt mig við hinar ýmsu bókmenntagetraunir, til dæmis hér og hér með misgóðum árangri. Í annarri hefur allt gengið framar vonum en hinni ekki. Í þeirri þar sem maður þarf að vita hlutina get ég ekkert en þar sem er hægt að gúggla þá gengur mjög vel og ég get bráðum opnað bókasafn það sem ein bók verður lánuð út. Í framhaldi af því vil ég mæla eindregið með bókum Viktors Arnars og ég hlakka til að lesa þá nýjustu. Þýðingar Gísla les ég hins vegar á hverjum degi mér til mikillar ánægju.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Þá er komið að því sem sumir hafa beðið eftir lengi, NBA-spánni. Nú þegar maður hefur aðgang að NBA TV er eðlilegt að maður standi sig betur en í fyrra (förum ekki nánar út í það). En semsagt, hér kemur það.

MVP

Mummi kallar hann "The Big Predictable". Tim Duncan er langbesti maðurinn í einu besta liðinu. Þó að hann sé ekki fansísmansí þá virkar hann. Aðrir sem koma til greina: Dwayne Wade, LeBron James, Kevin Garnett, Shaq, Dirk Nowitski, Steve Nash.

NBA-lið ársins
1. lið

C. Shaq - Enginn annar kemur til greina.
F. Kevin Garnett - Gæti dottið niður í annað liðið ef Minnesota gengur illa.
F. Tim Duncan - Besti forwardinn í deildinni.
G. Steve Nash - Phoenix-liðið verður enn þá gott og hann heldur því á floti
G. Kobe Bryant - Ekki það að ég vilji hafa hann þarna en reikna með að hann verði valinn af gömlum vana.

2. lið
C. Yao Ming - Næstbesti senterinn
F. Dirk Nowitski. - Gæti slegið Garnett út ef Dallas gengur vel og Minnesota illa.
F. Jermaine O'Neal - Indiana verður mjög gott og hann nýtur þess.
G. Dwayne Wade - Fáránlega góður. Gæti komist í fyrsta liðið ef Miami spilar vel.
G. LeBron James - Sama gildir um hann og Wade. Gæti slegið Nash eða Bryant út.

3. lið
C. Ben Wallace. Fulltrúi Detroit, aðrir senterar koma varla til greina.
F. Ron Artest - Ef hann lemur ekki neinn.
F. Andrei Kirilenko - Eins og Mummi er ég með sentimental pick. Besti varnarmaður deildarinnar.
G. Ray Allen - Besta skytta deildarinnar.
G. Tracy McGrady - Fíla hann ekki en hann skorar það mikið að hann kemst inn.

On the bubble: Shawn Marion, Allen Iverson, Jason Kidd, Michael Redd, Gilbert Arenas, Emmanuel Ginobili, Pau Gasol.


Nýliði ársins.
Andrew Bogut. Milwaukee verða góðir og hann mun eiga stóran þátt í því. Chris Paul kemur líka til greina því hann mun vera með fínar tölur en liðið hans sökkar. Deron Williams byrjar hægt en kemur svo sterkur inn í lokin.

Nýliðalið

C. - Andrew Bogut
F. - Sean May
F. - Danny Granger
G. - Deron Williams
G. - Chris Paul

Varnarmaður ársins

Andrei Kirilenko. Frábær perimeter-varnarmaður og getur blokkað rúmlega 3 skot í leik og stolið rúmlega tveimur boltum. Hefur vinninginn yfir Bruce Bowen, Ben Wallace og Ron Artest

Varnarlið ársins
C - Ben Wallace. Besti varnarmiðherjinn, án nokkurs vafa
F - Kevin Garnett. Frábær varnarmaður, stór og snöggur.
F - Andrei Kirilenko. Sjá hér að ofan.
G - Bruce Bowen. Ray Allen þolir ekki að spila á móti honum
G - Ron Artest. Stretch sem bakvörður en hefur þó spilað þar. Einn af þremur bestu varnarmönnum deildarinnar.

Sjötti maður
Sarunas Jasikevicius. Wild pick. Hann á eftir að verða þeim mjög mikilvægur þegar Jamaal Tinsley meiðist.

Þjálfari ársins
Jerry Sloan. Ég held að menn bíði eftir tækifæri til að kjósa hann þjálfara ársins. Ef Utah kemst í playoffs held ég að hann komi sterkur inn.

Framkvæmdastjóri
RC. Buford. Hann fékk Van Exel, Finley og Argentínumanninn ódýrt. Kannski Donnie Walsh hjá Indina, en ég hef meiri trú á Buford
Endurkoma ársins
Hér verð ég að vera sammála Mumma um að T.J. Ford sé líklegur. Nr. 2, Greg Ostertag (ef Sloan drepur hann ekki) Ef við erum að tala um most improved player segi ég að það sé Mehmet Okur sem verður frábær í vetur.
Vonbrigði ársins
Lið. Vonandi Denver Nuggets. Leikmaður. Kenyon Martin.

LVP
Ef við erum að tala um Least Valuable Person þá er það án efa Isiah Thomas. En þar sem að ég geri ráð fyrir að við séum að tala um Least Valuable Player þá verð ég að nefna Jerome James. Þegar Isiah Thomar borgar þér 50 milljónir eru góðar líkur á þvi að þú sökkir.
Lokastaða riðla:
Austurdeild
Atlantic
1. Boston - Fyrir Mumma. Þeir gætu þó komið á óvart. Framtíðin er þeirra
2. New Jersey - Eina liðið sem gæti ógnað Boston. Spurning hvað lykilmenn endast.
3. Philadelpha - Ef Webber og Iverson ná vel saman og eru heilir gæti allt gerst. Lítil breidd samt.
4. New York - Þeir eru heppnir að Toronto er í sama riðli.
5. Toronto - Eitt af þremur slökustu liðunum í deildinni. Allt í upplausn.

Central
1. Indiana - Besta liðið í austrinu.
2. Detroit - Stutt á eftir Indiana. Myndi ekki vilja mæta þeim í playoffs.
3. Milwaukee - Stórskemmtilegt lið. Fíla Bogut og Ford.
4. Cleveland - LeBron er frábær en spurning með aðra.
5. Chicago - Gæti þess vegna náð þriðja sætinu í riðlinum. Spurning hvort þeir nái að fylla í skarð Currys.

Southeast
1. Miami - Langbesta liðið í riðlinum, ef allt gengur upp. Gæti þó verið gangandi tímasprengja.
2. Washington - Langnæstbesta liðið í riðlinum. Arenas er flottur.
3. Orlando - Svo að ég noti orð Mumma "Boring"
4. Charlotte - Gætu orðið þokkalegir eftir 2-3 ár. Ekkert spes núna samt.
5. Atlanta - Lélegasta liðið í deildinni.

Vesturdeild
Southwest
1. San Antonio - Sennilega besta liðið í deildinni.
2. Houston - Of hypaðir en sennilega góðir samt.
3. Dallas - Gott lið en þessi riðill er sennilega sá besti í deildinni (og Central)
4. Memphis - Sama og með Dallas. Pau Gasol er drullugóður
5. Hornets - Gefum þeim nokkur ár. Paul verður góður, samt ekki jafngóður og Deron Williams (svipað og Marbury vs. Kidd)
Northwest
1. Denver - Þoli ekki þetta lið en á pappírnum er þetta sterkasta liðið í riðlinum
2. Utah - Get ekki sett þá neðar. Okur er stjarnad og Kirilenko ótrúlegur. Boozer er???
3. Minnesota - Garnett einn og sér kemur liðinu svona hátt.
4. Seattle - Ná ekki að fylgja árangri síðasta árs eftir. Eiga eftir að sakna Daniels. Of margir Free agents
5. Portland - Helmingurinn af liðinu má ekki vera úti eftir kl. 8 og hinir eru villimenn og vitleysingjar. Sjáumst eftir 4-5 ár.
Pacific
1. Phoenix - Spurning hvenær Stoudemire hvenær aftur. Samt bestir í riðlinum.
2. Sacramento - Ekki mikil breidd en gott starting five
3. Clippers - Verða í baráttunni um playoffs. Cassell bætir liðið mikið.
4. Golden State - Hypaðir en ekkert sérstakir. Davis meiðist og þá er allt búið.
5 Lakers - Þeir sökka. Kwame Brown sökkar og þeir sökka allir
Playoffs
Austur
1. Indiana
2. Miami
3. Boston
4. Detroit
5. New Jersey
6. Washington
7. Milwaukee
8. Cleveland

Vestur
1. San Antonio
2. Phoenix
3. Denver
4. Houston
5. Dallas
6. Sacramento
7. Utah
8. Memphis

Undanúrslit
Detroit - Miami 4-3
San Antonio - Phoenix 4-1
Meistarar
Same old, same old. San Antonio- Detroit 4-2

föstudagur, október 28, 2005

Hægt er að fylgjast með ferðum Mikka refs í Seattle á Netinu. Einnig er kominn hlekkur hér til hægri fyrir þá sem þekkja til.
Ég sá að Arnór bætti mér aftur inn á listann yfir virka bloggara. Það er mikill heiður sem ég verð að standa undir. Það hefur þó ekki mikið gerst hjá mér, síðustu tvo miðvikudaga hef ég verið sendur í neðra eins og það kallast hér á Lynghálsinum, en þá var ég sendur í Skaftahlíðina til þess að lesa úrvalstímaritið Sirkus (hóst, leiðindi, hóst). Þar hitti ég Arnór fyrir annan daginn og við rifjuðum upp gamla tíma og fórum á Subway. Síðasta sunnudag fórum við Auður svo með Sóleyju, litlu frænku Auðar, í smábíltúr. Við fórum og fundum hesta og gáfum þeim brauð og Sóley ætlaði að gefa hestunum snuðið sitt en guggnaði svo á því á síðustu stundu. Svo fórum við niðrí fjöru einhvers staðar og hittum á svona ljómandi skemmtilegan mann sem hótaði okkur öllu illu ef við hypjuðum okkur ekki af einkalóð hans og spurði meðal annars hvort við ætluðum að halda því fram að hann mætti ekki vera á lóðinni. Sóley fór að gráta og ég var nálægt því að grafa manninn á þessari einkajörð hans en það hefði verið of gott fyrir þennan mann, ef mann skyldi kalla (Tilv. ?Maðurinn ætlaði að borða Sóleyju!? Gaman að því. Svo fengum við ís og allt varð gott. Þá komu Helgi, Anna Kristín og Anna Alexandra í heimsókn og þá varð allt enn betra. Lokaorð þessa dags hjá Sóleyju voru: ?Oddbeggu, fú ert kúkalabbi.? Svo mörg voru þau orð.

þriðjudagur, október 11, 2005

Man ekki hvað ég ætlaði að skrifa, bendi bara á þetta fyrir þá sem nenna ekki að sinna vinnunni sinni.

Risk
Bubbles

mánudagur, október 10, 2005

Um margra ára skeið hef ég verið þekktur sem mikill kókisti. Árum saman drakk ég u.þ.b. 1,5 lítra af kóki á dag og þótt ekki mikið mál. Þá mátti ekki sjá neitt diet-drasl og Pepsi var sending frá djöflinum.Nú eru tímarnir aðrir. Ég er að vísu ekki hættur að drekka kók en það hefur minnkað mikið og í staðinn er ég farinn að drekka Pepsi-Max. Það er ekki auðvelt fyrir mig að skrifa þetta en þetta er engu að síður staðreynd. Það er nú ýmislegt sem spilar þanna inn í en það er engin afsökun. Mér líður eins og versta föðurlandssvikara. Skamm. Svona gera menn ekki...

föstudagur, október 07, 2005

Margt hefur gerst síðan síðast, meðal annars það að við fengum íbúðina afhenta kl. 17.00 föstudaginn 2. september. kl. 1.00 aðfaranótt laugardags vorum við næstum búin að mála eina umferð á alla íbúðina. Kl. 22 á laugardagskvöld var búið að mála tvær umferðir á alla íbúðina. Kl. 20 á sunnudagskvöld vorum við flutt með allt okkar hafurtask og seint á mánudagskvöldi var búið að taka upp úr öllum kössum og koma öllu fyrir. Þetta er sennilega heimsmet í flutningum.

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Við erum enn að bíða eftir að fá íbúðina okkar en það fer að styttast í þetta. Við reiknum með að fá hana á föstudaginn og þá er fólk velkomið í heimsókn til þess að skoða og mála ef það langar til. Sem betur fer þarf ekki að gera mikið, vonandi að ein umferð af málningu dugi á alla íbúðina. En sem sagt, allir eru velkomnir að skoða... vííííííí

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Vorum að skrifa undir kaupsamning að nýja húsinu okkar í dag. Festum kaup á íbúð í Ljósuvík í Grafarvoginum. 95 fermetrar, þriggja herbergja öll úr gulli og verðmætum eðalsteinum. Nánari upplýsingar síðar.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið... Það er rétt, ég mæti í vinnuna á morgun, fimmtudag en tek svo sjö vinnudaga í frí og en á því tímabili eru tvær helgar þannig að þetta er í raun 11 daga frí. Jibbí skibbí. Enn sem komið er hefur ekkert verið ákveðið hvað á að gera en líklega skreppum við eitthvað vestur í tvo eða þrjá daga. Svo verður eitthvað sofið og slappað af. Ætli maður reyni ekki eitthvað að skoða íbúðir í leiðinni og bara allt það sem manni dettur í hug. Ég á þá enn 5 daga eftir sem ég get tekið í vetur eða þegar við kaupum nýja íbúð.
Svo ætla ég að óska bæði Reykjavíkurborg og Gunna til hamingju með afmælið á morgun. Sennilega gleymi ég að spjalla við Gunna á morgun þannig að ég ætla að tryggja mig núna. Til hamingju með morgundaginn, Gunni!

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Vegna fjöla fyrirspurna hér í athugasemdunum er hér update frá íbúðaleit. Enn sem komið er höfum við ekkert fundið. Við erum að leita að einhverju nýrra í Reykjavík sem er svipað stórt. Hverfið skiptir í sjálfu sér ekki máli en þar sem að það eru nú ekki mörg hverfi með nýjum íbúðum þá útilokast nokkur af sjálfu sér. Við höfum skoðað í Grafarvogi, Grafarholti og eins á landsbyggðinni (Kópavogi). Annars er í sjálfu sér ekkert útilokað.
Margir vina minna muna eftir því að ég var aldrei góður í biðröðum. Það virtist vera sama hvernig röðin var, alltaf tókst mér að verða á eftir öllum öðrum að fá afgreiðslu. Stundum tróðst fólk fram fyrir mig, stundum var eins og afgreiðslufólk tæki ekki eftir mér og merkilega oft tókst mér að velja þá þar eitthvað vandamál myndaðist, kortið hjá einhverjum virkaði ekki, gamlan mann vantaði athygli o.s.frv.
Fór það svo að fólk sá aumur á mér og bauðst til þess að fara í röðina fyrir mig sem ég yfirleitt þáði. Nú skyldi maður halda að ég væri að segja frá þessu vegna þess að eitthvað hefði breyst eða ég væri að fara að segja einhverja skemmtilega raðarsögu. Svo er ekki. Allt er við það sama.

föstudagur, júlí 29, 2005

Ég ætlaði að fara að blogga um NBA-spána sem við Arnór og Mummi settum fram hér fyrir um ári en nennti því svo ekki. Læt nægja að segja að ég reið ekki feitum hesti frá þessu. Annars er það helst að frétta að við erum búin að selja íbúðina og erum því heimilislaus sem stendur. Leit stendur yfir og gengur þolanlega. Myndi þó ganga betur ef fólk hætti ekki við að selja í miðjum klíðum. Er að lesa Harry Potter. Spennandi.

þriðjudagur, júní 21, 2005

Svaf yfir mig í morgun sem er merkilegt þar sem ég þurfti ekki að mæta fyrr en klukkan 11. Ástæðan? Framlenging og vítaspyrnukeppni í leik Hauka og Þróttar í bikarnum í gær. Komst ekki heim fyrr en rúmlega 23.00 og gat svo ekki sofnað næstu fjóra tímana vegna þreytra lappa. Er svo að dæma í kvöld í utandeildinni. Líklegt má telja að ég fari ekki mikið út úr miðjuhringnum í þessum leik. Svo er ég líka svo óvanur að dæma sjálfur að sennilega mun ég ekkert vita hvað ég á að gera.
Núna er ég á fréttastofunni að lesa yfir fréttirnar. Ekki að það sé sérstaklega fréttnæmt... Heyrumst síðar

mánudagur, júní 20, 2005

Eins og margir vita hef ég dundað mér við það undanfarin ár að hlaupa með fána í hendinni á fótboltavellinum og uppskorið og svívirðingar áhorfenda og leikmanna í staðinn. Núna um daginn náði ég merkilegum áfanga því í síðust niðurröðun frá KSÍ fékk ég tvo leiki í efstu deildinni. Fimmtudaginn 30. júní verð ég á leik Keflavíkur og Grindavíkur í Keflavík og þriðjudaginn 26. júlí verð ég á leik Grindavíkur og ÍA í Grindavík. Þó að þetta séu svona opinberlega fyrstu leikirnir mínir í efstu deild hef ég þó verið viðriðinn einn leik áður. 2. ágúst 2001 var ég nýkominn heim úr vinnunni og hafði keypt mér hamborgara og franskar hjá Lilju í Staldrinu. Ég settist fyrir framan sjónvarpið um 19.30 til að horfa á leik KR og FH sem átti að hefjast þá kl. 20.00. Ég var varla búinn að kyngja síðasta bitanum þegar síminn minn hringdi. Það var starfsmaður KSÍ sem var í vondum málum því það hafði gleymst að boða varadómara á leikinn. Hann sagði mér að bruna í einum grænum á KR-völlinn og redda málunum. Þarna var ég nýbúinn að gúffa í mig hamborgaranum og var satt að segja ekki til stórræðanna en sagði að sjálfsögðu já strax. Þegar ég var að leggja af stað mundi ég að það var nánast ekkert dót í töskunni minni, því ég hafði hent því öllum dómaragallanum mínum í þvottavél kvöldið áður. Ég var þó með stuttbuxur, sokka og upphitunarpeisu sem ég klæddi mig í áður en ég lagði af stað. Ég var mættur á KR-völlinn eina mínútu í 8 og lenti í vandræðum með að finna stæði og svo í smávandræðum með hliðvörðinn sem ætlaði ekki að hleypa mér inn og trúði mér varla þegar ég sagði honum að ég væri einn af dómurum leiksins, enda var leikurinn þá byrjaður. Það bjargaðist þó og kl. 20.03 var ég kominn á milli bekkjanna og reiðubúinn til að hefja störf. Það var u.þ.b. þá sem ég uppgötvaði að ég hafði litla hugmynd um hvað varadómari ætti að gera annað en að vera á milli bekkjanna. Því var það að alltaf þegar aðstoðardómarinn hljóp að miðjunni fór ég til hans og fékk ráð frá honum. Það dugði fram að hálfleik en fékk ég fyrirmæli frá dómaranum sem ég reyndi að fara eftir í seinni hálfleik. Allt gekk það svo sem að óskum og ég komst nokkuð stórslysalaust frá mínum fyrsta efstudeildarleik. En nú er semsagt alvaran fram undan. Allir í Grindavík 30. júní...

föstudagur, júní 03, 2005

Myndir frá hreinsunardegi 365 eru hérna. Meira síðar

fimmtudagur, maí 26, 2005

Svolítið síðan ég skrifaði síðast. Ég var í sumarfríi í síðustu viku og hluta af þessari og afrekaði að gera nákvæmlega ekki neitt. Sumir gera eitthvað uppbyggilegt í fríunum sínum en ekki hann ég. Núna er Auður að sleikja sólina á Benidorm þannig að ég er grasekkill eins og er (held ég, skil ekki alveg hugtakið). Núna hefur þetta ástand varað í 36 tíma en það er strax orðið sýnilegt á heimilinu. Tómur pítsakassi (miklir snillingar eru þeir Domino's-menn að vera með megaviku einmitt á þessum tíma, tóm bjórflaska, og nammikassar á borðinu. Það vantar bara að ég sitji á nærbuxunum og í nærbol og horfi á sjónvarpið. En hver veit, klukkar er bara að slá í fimm (þeim sem finnst þetta orðalag skrýtið eða asnalegt er bent á að horfa á Ísland í bítið næsta mánudag þar sem Jóhanna ætlar að fjalla um þetta) og hver veit nema buxurnar og peisan fjúki þegar líður á daginn.

mánudagur, apríl 18, 2005

Þar sem að mér sýnist að ég sé bara að skrifa fyrir Hr. Tómasson þessa dagana þá er best að þessi færsla verði bara fyrir/um hann. Eitt sinn brugðu íslenskunemar sér í sumarbústað og eins og lög gera ráð fyrir fóru allir í pottinn. Síðan kom að því að fólk fór að fara upp úr pottinum en ekki gættu allir að því að pallurinn var flugháll enda miður vetur. Steig ein snótin upp úr pottinum og vildi ekki betur til en að hún flaug á hausinn við mikila skelfingu flestra, en þó ekki allra. Vildi einn karlmaðurinn hughreysta vesalings stúlkuna þar sem hún lá kveinandi á jörðinni og gerði það með þessum orðum: ?Hafðu engar áhyggjur, þú ert enn þá sexí.? Við þessi orð brutust út einhver þau mestu hlátrasköll sem undirritaður hefur heyrt og fór Hr. Tómasson þar fremstur í flokki og lá við stórslysi þegar undirrituðum svelgdist allsvakalega á bjór þegar hlátursrokur Tómassonar urðu hvað hæstar. Ekki mátti nokkur maður vera að því að sinna vesalings stúlkunni sem lá á pallinum en sem betur fer var hún ekki mikið slösuð þó stoltið væri nokkuð sært. Þetta var saga vikunnar, bara fyrir Hrt. Tómasson. Öðrum sem ekki voru á staðnum finnst þessi saga sennilega ekkert sérstaklega fyndin en þetta er líklega það fyndnasta sem ég hef nokkurn tíma orðið vitni að.

föstudagur, apríl 15, 2005

Þegar ég var að skrifa lokaritgerðina mína í M.Paed.náminu sat ég oft í Árnagarði fyrir framan tölvuna og hlustaði á tónlist á meðan ég þóttist vera að skrifa. Meðal þess sem ég hlustaði á var íslensk hljómsveit sem heitir Misery loves company. Þegar ég svo útskrifaðist gleymdi ég að bjarga þeim gögnum sem ég átti inn á heimasvæðinu og þar á meðal þessum lögum sem ég hlustaði svo mikið á. Nú fyrir skömmu hóf ég mikla rannsóknarblaðamennsku til þess að finna þessi lög aftur. Sú rannsókn leiddi mig á slóðir Eyvindar nokkurs Karlssonar sem er annar tvegja meðlima hljómsveitarinnar. Ég sendi honum tölvupóst þar sem ég spurðist fyrir um þessi lög og hann svaraði um hæl og niðurstaðan varð sú að hann ætlar að brenna fyrir mig á disk allt það efni sem hann á með þeim og þakka ég honum kærlega fyrir það. Sem þakklætisvott sett ég hérna hlekk á heimasíðu hans og heimasíðu hljómsveitarinnar. Endilega kynnið ykkur lögin þeirra. Flott lög og góðir textar. Eðal þunglyndi.
Hr. Tómasson (við þurfum að hittast fljótlega aftur í góðra vina hópi og rifja upp gamlar, góðar sögur) benti mér á í athugasemdunum að ég bloggaði bara á miðvikudögum. Til að festast ekki í viðjum vanans ákvað ég að bylta venjum mínum og blogga núna á föstudegi (þori að veðja að þið sáuð þetta ekki fyrir.) Það er nú ekki mikið að frétta síðan síðast nema kannski það að við Auður vorum að kaupa okkur nýtt sjónvarp. Við fórum í ELCO í Smáranum og fundum þar þetta fína Sony 29" tæki sem okkur leist vel á. Afgreiðslumaðurinn tók niður nöfnin okkar og sagði okkur að fara á lagerinn sem er í IKEA-húsinu og sækja tækið þar og borga það. Þegar við komum þangað Var okkur sagt að við hefðum átt að borga tækið í búðinni og fá kvittun til að koma með á lagerinn. Þar sem nálgast var lokun ákváðum við að fara í Elco í Skeifunni til að sjá hvort ekki væri til svona tæki þar. Hitti þá svo vel á að einhver hafði nýtt sér 30 daga skilafrest og var að skila nákvæmlega svona tæki. Það var okkur boðið með 10.000 króna afslætti. Við þáðum það strokuðum afgreiðslumanninn í Smáranum út af dauðalistanum. Nú erum við sem sagt stoltir eigendur nýs sjónvarps og Auður þarf ekki lengur að horfa á sjónvarpið með gleraugun eða spyrja mig á 10 sekúndna fresti hvað sé að gerast því hún sjái ekki á sjónvarpið.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Enn eitt dæmið um það að maður sé orðinn töluvert gamall. Ég þurfti að fara til læknis í dag. Heimilislæknirinn minn var veikur (vond auglýsing fyrir læknastéttina) þannig að ég var spurður hvort mér væri ekki sama þó að ég fengi annan lækni. Ég sagði að mér væri alveg sama og var þá vísað til læknis sem heitir Pétur. Þá kom í ljós að Pétur þessi er jafn gamall mér og gamall kunningi sem var í X-bekknum í MR. Mér hefur alltaf fundist læknar vera svo gamlir en þarna var sem sagt læknir sem var jafn gamall og ég. Hins vegar ber þess að geta að hann var mjög fagmannlegur og ég á von á því að leiðbeiningar hans hjálpi mér. Skemmtilegt þetta.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Fórum í sumarbústað um helgina. Ég var eitthvað að spjalla við mömmu og ég minntist eitthvað á að það væri gaman að fá sumarbústað einhverja helgina. Fimm mínútum seinna hringdi mamma aftur og sagði að nánast allir bústaðir Búnaðarbankans væru lausir þessa helgina vegna árshátíðar starfsmanna. Við tryggðum okkur bústað í Húsafelli og brunuðum af stað um miðjan föstudaginn. Við tókum systkini Auðar með okkur þannig að við vorum fimm sem fórum og síðar um kvöldið komu svo Þóra, frænka Auðar og Árni kærastinn hennar. Við byrjuðum á því að steikja hamborgara ofan í allt liðið og reyndum svo að tengja afruglarann sem við tókum með okkur. Það olli nokkrum vandræðum að fjarstýringarnar í bústaðnum voru fleiri en tækin þannig að það tók nokkurn tíma að átta sig á hvaða fjarstýring átti við hvaða tæki. Loks tókst það en þá kom í ljós að stafrænu útsendingarnar nást ekki við hálendi Íslands. En af því að ég vinn hjá svo góðu fyrirtæki þá hringdi ég þangað og fékk lánaðan afruglara af gömlu tegundinni sem Þóra og Árni komu með. Tók þá ekki betra við því allar fjarstýringar hússins lögðu þá niður vinnu og varð ekki haggað. Var þá ekki hægt að stilla afruglarann inn á sjónvarpið. Er hann nú úr sögunni. Lítið var gert um kvöldið, spjallað spilað lúdó farið í pottinn. Hið síðastnefnda varð nánast banabiti eins í hópnum en Árni vaknaði daginn eftir með himinháan hita, höfuðverk, hor og heilmikið annað. Þó fór nú allt á besta veg og heilu pilluglasi seinna var hann kominn á fætur aftur. En það bar helst til tíðinda á meðan að Vetur konungur kíkti í heimsókn og gerði sig heimankominn hjá okkur. Varð því lítið úr sólböðum en því meira af snjókasti og snjókallagerð. Þegar hér var komið við sögu voru menn orðnir svangir. Var þá tekið til þess ráðs að grilla. Ekki dugði minna en meðalbú á grillið fyrir þennan hóp og tók það sinn tíma. Þá voru grilluð um tvö kíló af kartöflum þar sem sumir höfðu áhyggjur af því að þeir fengju ekki nóg. Undirritaður var grillmæster og beitti Hómerískum töktum með grillolíuna. Ekki veitti af hitanum þar sem úti var stórhríð og grillið ekki í miklu skjóli. Mátti undirritaður því nopra úti í kuldanum meðan aðrir sátu inni í hlýjunni. Allt fór þó vel fram. Fór svo í lokin að ekki var nægur hiti á grillinu til þess að grilla bananana sem áttu að vera í eftirrét (enda hafði þá snjóað töluvert ofan í grillið) Tók grillmeisterinn þá til þess ráðs að klára úr ólíubrúsanum á grillið og flambera bananahelvítin. Var gerður góður rómur að því. Leið svo kvöldið líkt og hið fyrra og fer ekki fleiri sögum af því. Á sunnudaginn var borðað, þrifið og svo brunað í bæinn þar sem í Egilshöllinni beið knattspyrnuleikur sem ekki gat farið fram án undirritaðs. Lauk þar með ferðinni.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Þá er páskafríið fram undan. Dagskráin er eitthvað á þessa leið:
Fimmtudagur. Fara yfir verkefni fyrir Tjáningu og samskipti.
Föstudagur. Þarf að mæta í vinnuna á hádegi til að lesa smá texta. Tekur u.þ.b. hálftíma en er fjögurra tíma útkall á stórhátíðardegi. Fer svo að fara yfir verkefni.
Laugardagur. Fara yfir verkefni. Mæta í fréttastofuna frá 16-18.30
Sunnudagur. Borða páskaegg. Fara yfir verkefni.
Mánudagur. Fara yfir verkefni og skila þeim ef guð lofar.

Það er því frábært páskafrí fram undan

mánudagur, mars 07, 2005

Hvað eiga orðin fyrrverandi, verð, tölva, 8. áratugurinn sameiginlegt með orðatiltækinu að berast á banaspjóti og slóðunum www.ismal.hi.is, www.lexis.hi.is, visindavefur.hi.is. Og hvað á allt þetta sameiginlegt með eignarfalls-essi í landaheitum og beygingu á fyrirtækjanöfnum og mannanöfnum. Jú, þökk sé mér að nú mun enginn maður á Íslandi tala einhverja vitleysu hvað varðar þessi atriði. Ég var sem sagt í Íslandi í bítið í morgun sem og fyrir hálfum mánuði og fræddi lýðinn um íslenska tungu. Þetta hefur nú gengið ágætlega og lýðurinn orðið margs fróðari auk þess sem frægð mín út á við hefur aukist til muna. Þetta má til dæmis sjá á Veftíví á Vísi.is. Þar sem að ég hef farið þrisvar sinnum og verið fimm mínútur í senn þá má segja að hafi öðlast mínar 15 mínútur af frægð. Þess vegna reikna ég með að leggja skóna á hilluna eftir þennan dag og því var þetta svanasöngur minn í sjónvarpi (í bili að minnsta kosti). Því hvet ég alla til þess að horfa á þetta á meðan tækifæri gefst. Eða sleppa því, það meikar ekki diff hvort eð er. Það er allt á leiðinni til andskotans.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Þá eru bara 364 dagar í næsta afmælisdag. Ég fékk fínar gjafir, náttbuxur og LOTR frá Auði og péninga frá pabba og mömmu. Þegar ég kom svo heim úr vinnunni í gær þá beið mín þar þessi fína kaka sem Auður hafði bakað fyrir mig. Ég hafði að vísu ekki mikinn tíma til að borða hana þar sem ég þurfti að fara í næstu vinnu en engu að síður var þetta mjög skemmtilegt. Svo langar mig til að þakka öllum þeim sem glöddu mig með hugljúfum afmæliskveðjum. Takk takkk

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Ég er að verða sérfræðingur í dren- og skólplögnum þar sem verið er að skipta um þetta drasl í kringum húsið okkar. Á mjög óformlegum húsfundi var ákveðið að íbúarnir myndu gera þetta sjálfir að eins miklu leyti og hægt væri. Þess vegna hef ég staðið úti í skurði síðustu daga með skóflu í hendi og mokað sandi eins og óður maður. Reyndar er það haugalýgi að ég sé að verða sérfræðingur í þessu þar sem ég botna bókstaflega ekkert í því sem þessir menn eru að gera. En sem betur fer eru nágrannarnir helvíti lúnknir við þetta og því kemst ég upp með að vita ekkert í minn haus. En þetta er samt lúmskt gaman og ágætt að kynnast nágrönnunum betur. Við erum farin að kynnast fólkinu á neðri hæðinni ágætlega þar sem við þurfum alltaf að fara inn um kjallarann og í gegnum íbúðina hjá þeim til þess að komast inn til okkar. Þetta stafar af því að búið er að grafa ca 1,5 djúpan skurð með allri framhlið hússins og við það hrundu einhverjar tröppur þannig að núna er nánast vonlaust að komast upp tröppurnar. Það hefur verið rætt um að að allar hurðir á milli íbúðanna verði teknar niður og þetta verði allt eitt stórt sambýli. Sú hugmynd er enn í nefnd.

Ég á afmæli á morgun. Þá verð ég 28 ára. Blóm og kransar afþakkaðir en pakkar vel þegnir.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Þetta skrifaði ég föstudaginn 20. febrúar 2004: Ég fór í bíb-testið á þriðjudaginn og komst að einu sem ég hefði svo sem getað sagt mér sjálfur. Maður á ekki að borða núðlusúpu áður en maður fer að hlaupa. Ég komst í 8-6 en þess má geta að það þykir góð fyrir einfætta konu sem er ólétt af tvíburum og er kominn 8 mánuði á leið. Ég fékk hins vegar tækifæri til að prófa aftur í gær og fór þá upp í 11-1 sem er fínt. Næst er það bara Reykjavíkurmaraþonið.
Þetta er í sjálfu sér ekki merkileg færsla nema hvað að núna á mánudaginn fór ég aftur í bíb-test. Maður hefði haldið að maður lærði af reynslunni en nei, auðvitað ekki. Mér tókst að belgja mig út af pulsum áður en ég fór að hlaupa. Mér fór að verða bumbult á 8. stigi en fékk ekki af mér að hætta því ef það er eitthvað leiðinlegra en að taka bíb-test þá er það að taka bíb-test tvisvar. Ég hætti í 12-3 en þá var ég farinn að jórtra eins og kýr. Gaman af því.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Gerði svolítið sem ég hef ekki gert í langan tíma, bjó til Cheerios-nammi. Þetta var eitt af því sem ég gerði alltaf þegar ég var lítill og langaði í nammi en átti engan pening. Maður hrærir saman flórsykur, kakó og brætt smjörlíki og blandar svo leðjunni við Cheerios, Corn Flakes eða Rice Krispies. Á þessum tíma kunni ég tvær uppskriftir, þetta og Royal-skyndibúðing. Þessu skaut allt í einu upp í kollinn á mér um daginn og ég varð bara að prófa þetta aftur. Þetta er sama snilld og mig minnti.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Ég er orðinn sjónvarpsstjarna. Í morgun kom ég fram í Íslandi í bítið og hélt þrumandi skammarræðu yfir landsmönnum um að þeir skyldu nú ekki voga sér að rugla saman fyrrum og fyrrverandi, ekki gleyma að setja eignarfalls -s á landaheiti í hvorugkyni, ekki segja áttundi áratugurinn þegar verið er að tala um 1980-1990 og ekki segja berjast á banaspjótum heldur berast á banaspjóti. Þetta gekk mjög vel og undirtektirnar voru gríðarlegar. Mamma sagði að ég hefði verið mjög sætur og pabbi vöknaði þegar hann sá mig. Þetta var falleg stund.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Í dag er febrúar og þá á ég afmæli. Ekki alveg í dag að vísu heldur þann 23. Þá verður gaman. Auður er að vísu skelfingu lostin því hún heldur að hún hafi fundið grátt hár á hausnum á mér. Ég sannfærði hana um það að þetta væri bara birtan og að það væri miklu líklegra að ég yrði sköllóttur en gráhærður en það virtist ekki gleðja hana mikið. Í gær fengum við nýja nágranna þegar leigjendurnir í kjallaranum fluttu út og eigendurnir fluttu inn. Þá kom í ljós að þessir nágrannar eru ekki alveg nýir, a.m.k. ekki hvað mig varðar. Þannig er að þegar ég bjó í Súluhólunum bjó fjölskylda í Ugluhólunum þar sem voru tveir strákar á svipuðum aldri og við Helgi, þeir Finnur og Pétur Bjarnasynir. Síðan fluttu þau en ekki langt eða bara upp í Krummahóla. 4-5 árum síðar fluttum við líka í Krummahólana, og vorum þá í sama húsi og á sömu hæð og þau. 12-13 árum síðar fluttum við í Ásgarðinn og sama sumar flutti þessi fjölskylda einnig. Nú var sem sagt fólk að flytja í kjallarann og viti menn, það er að Finnur og kærastan hans sem birtust á tröppunum hjá okkur í gær. Þetta er sem sagt í þriðja sinn sem við verðum nágrannar og ég verð að segja að ég tel mig ansi heppinn með nágranna á Langholtsveginum (nema akkúrat þessa dagana því Finnur og kærasta eru að brjóta niður veggi og breyta hjá sér og fjöskyldan fyrir neðan okkur er að endurnýja eldhúsið hjá sér og virðist helst nota loftpressu til verksins).