fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Hér kemur hetjusaga af sjálfum mér. Ég var í vinnunni um daginn (1X2) og var um leið að lesa þátt fyrir hina vinnuna mína. Sá þáttur heitir Most Haunted og fjallar um þá staði í Bretlandi þar sem mestu reimleika er að finna. Ég sat inni í stóru rými, aleinn í húsinu og ég verð að játa að mér stóð ekki á sama þegar ég fór að heyra alls kyns hljóð frammi á gangi og af neðri hæðinni. Nú get ég ekki hælt mér af því að vera manna hugrakkastur þegar kemur að því að ganga einn í myrkri þannig að ég sat sem fastast og hreyfði hvorki legg né lið til að athuga hvort eitthvað væri á seyði. Enda var þetta eintóm ímyndun í mér en sýnir bara að það er ekki nóg að banna kvikmyndir og tölvuleiki heldur þyrfti einnig að banna sumt það efni sem ég þarf að lesa í vinnunni innan 30 ára. Eða fullvissa mig um að draugar séu ekki til.

Engin ummæli: