þriðjudagur, mars 21, 2006

Á Sirkus er verið að sýna fyndinn þátt sem heitir My name is Earl. Eins og vinnan mín gerir ráð fyrir þarf ég stundum að lesa þessa þætti sem er hið besta mál enda bráðskemmtilegir og þýðandinn oft orðheppinn með afbrigðum eins og ég kem nánar að síðar. Eitt sinn kom upp eitthvert atriði í textanum sem leit einkennilega út og þurfti ég því að hafa samband við þýðandann á MSN. Ég sagði að það væri eitt vafaatriði í Ég heiti Jarl og ætlaði svo að bera fram spurninguna en komst ekki mikið lengra. Þýðandinn varð svo hrifinn af Jarlsnafninu að hann ákvað í skyndi að íslenska öll nöfnin í þættinum. Earl yrði þá að sjálfsögðu Jarl og hann ákvað strax að Randy yrði Randver. Áður en þetta náði lengra stöðvaði ég hann og sagði að það yrði nú ekki vel liðið ef nöfnunum yrði breytt í miðri seríu. Því hættum við við þetta en hugmyndin finnst mér svo góð að það er nauðsynlegt að klára dæmið. Catalina yrði að sjálfsögu Kaðlín og Darnell "Crab Man" yrði Darri "krabbamaður". Joy yrði að sjálfsögðu Auðna, hinn stelsjúki Ralph yrði Ragnvald og homminn Kenny yrði Ketill. Earl junior er Jörlungur og Dodge Dofri. Ef einhver hefur eitthvað við þetta að athuga er honum velkomið að skilja eftir athugasemd.

Engin ummæli: