þriðjudagur, október 03, 2006

Ferðalög mín héldu áfram eftir Vestfjarða- og Egilsstaðaferðina mína. Laugardaginn 16. sept. hélt ég til Ólafsvíkur ásamt Gylfa stóra bróður og Þorra litla frænda til að dæma leik Víkings og Hauka. Við mættum Óla Kjartans í Borgarnesi og Kjartan pabbi hans var eftirlitsmaður. Það er svo sem ekki mikið um leikinn að segja nema að Þorri varð sér til skammar, ég fékk hæstu einkunn sem hægt er að fá, Haukar féllu og þetta var hugsanlega síðasti leikur Gylfa. Ég rétt náði heim til að skipta um föt og bregða mér svo á tónleika Nicks Cave. Þeir voru snilld. Ef þið voruð ekki þar get ég ekki lýst þeim fyrir ykkur betur en það.
Helgina þar á eftir fór ég til Vestmannaeyja til að dæma þar leik í lokaumferðinni. Við þurftum að fara á föstudeginum til þess að komast örugglega þar sem allir leikir í lokaumferðinni þurfa að fara fram á sama tíma. Í Vestmannaeyjum keyrðum við allar götum sem við fundum, upp á Stóhöfða, í hrauninu, niður á höfn og um allan bæinn. Þegar því var lokið höfðum við ekkert að gera en fundum loksins snókerborð í kjallara hótelsins og eyddum því sem lifði kvöldsins þar. Sama dagskrá daginn eftir, bíltúr, snóker og svo leikur sem gekk mjög vel, Snókerinn gekk ekki jafn vel. Svo var haldið heim á leið og voru ferðafélagarnir orðnir ansi (óþreyju)fullir þar sem dómarapartí beið þeirra í bænum og var annar þeirra meira að segja gestgjafinn. Ég ákvað hins vegar að vera fjarri góðu gamni. Lauk þar með ferðalögum mínum innanlands það sumarið en enn er eftir að heimsækja Lundúnir í lok október.

Engin ummæli: